Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég tel rétt vegna þeirra umræðna sem hér hafa farið fram að fara nokkrum orðum um forsögu þessa máls. Það var árið 1975 sem Ísland gerðist aðili að félagsmálasáttmálanum og það er 5. gr. hans sérstaklega sem hér hefur verið til umræðu, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í því skyni að tryggja og stuðla að frelsi verkafólks og vinnuveitenda til að stofna staðbundin félög, landsfélög eða fjölþjóðleg sambönd til þess að gæta hagsmuna þeirra á sviði efnahags- og félagsmála og til að ganga í slík félög skuldbinda samningsaðilar sig til að sjá um að landslög skerði ekki það frelsi né að þeim verði beitt til að skerða það. Í landslögum eða reglugerðum skal ákveða að hve miklu leyti trygging sú sem þessi grein veitir skuli taka til lögreglunnar. Það skal einnig ákvarðast í landslögum eða reglugerðum að hve miklu leyti tryggingin sem grein þessi gerir ráð fyrir skuli ná til manna í herþjónustu.``
    Það er sennilega 7--8 árum síðar, eftir að Ísland gerist aðili að þessum sáttmála, að sérfræðinganefndin setur fram túlkun á ákvæðum þessarar 5. gr. sáttmálans sem ekki hafði komið fram áður, en hún var í þá veru að greinin taki til þess sem kallað hefur verið neikvætt félagafrelsi. Í því felst að nefndin telur að eðli máls samkvæmt felist í greininni vernd fyrir fólk til að standa utan félaga, stéttarfélög þar meðtalin. Þetta er túlkun sem liggur fyrir nokkrum árum eftir að Ísland gerist aðili að þessum sáttmála og um þetta atriði, eins og fram hefur komið hér í umræðum, um þessa túlkun, hefur verið mikill ágreiningur innan embættismannanefndar Evrópuráðsins og afleiðing þess er að tilskilinn meiri hluti er að baki hvorugri skoðuninni í þessu máli. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi fram þar sem hér er margítrekað að við séum að brjóta ákvæði félagsmálasáttmálans.
    Ég styð þess vegna það sem kemur fram í nál. meiri hl. heilbr.- og trn. Ísland mun gefa skýringu á þessu máli og sömuleiðis munu sérfræðinganefndinni verða send álit ASÍ að því er þetta varðar og eins og fram kemur hér, ef það er álit sérfræðinganefndarinnar að það fyrirkomulag, eftir að þær skýringar liggja fyrir, sé í andstöðu við félagsmálasáttmálann, þá yrði þetta mál sérstaklega tekið upp við aðila vinnumarkaðarins með hliðsjón af þeirri afstöðu Evrópuráðsins til skýringa íslenskra stjórnvalda þegar hún liggur fyrir.
    Ég tel líka rétt, virðulegi forseti, þar sem fram hefur komið gagnrýni á afstöðu ASÍ til þessa máls, að lesa hér upp greinargerð um viðhorf ASÍ til þess þó að ég undirstriki að ég geri skýringar ASÍ ekki að mínum. Engu að síður tel ég rétt að þær komi fram í þessari umræðu. Í athugasemdum ASÍ um framkvæmd 5. gr. félagsmálasáttmálans segir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Sérfræðinganefnd Evrópuráðsins hefur einnig gert athugasemdir um það hvernig atvinnuleysistryggingum

er háttað hér á landi. Í lögum allt frá upphafi atvinnuleysistrygginga hefur það ákvæði verið fyrir hendi að einungis félagar í stéttarfélögum eigi rétt á atvinnuleysisbótum. Til að fá atvinnuleysisbætur þarf maður að vera fullgildur félagsmaður í stéttarfélagi hér á landi.
    Í athugasemdum sérfræðinganefndarinnar um þetta atriði segir svo:
    ,,Nefndin veitti því enn fremur athygli að samkvæmt lögum nr. 64/1981 eiga aðeins félagar í stéttarfélögum rétt á atvinnuleysisbótum. Með tilliti til þess að það að svipta launamann rétti til fjárhagslegrar verndar ef hann er atvinnulaus er óverjandi ráðstöfun, sem hefur þann tilgang að neyða hann til að ganga í eða vera áfram félagi í stéttarfélagi, hlaut nefndin að komast að þeirri niðurstöðu að ofangreind lög brytu í bága við anda og bókstaf 5. gr. sáttmálans.
    Rétt þykir að skoða þessar fullyrðingar í sögulegu ljósi en einnig út frá framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Lög um atvinnuleysistryggingar voru fyrst sett árið 1956, en þau voru byggð á loforði ríkisstjórnar um lagasetningu í kjölfar eins lengsta verkfalls hér á landi árið 1955. Ljóst er af gögnum frá þessum tíma, m.a. umræðum á Alþingi er lögin voru til umfjöllunar, að launafólk afsalaði sér hluta kauphækkana eftir langt verkfall vegna loforða ríkisstjórnarinnar um atvinnuleysistryggingar sem var gamalt baráttumál verkalýðshreyfingarnnar. M.a. af þessum sökum litu talsmenn Alþýðusambandsins á sjóðinn sem eign verkafólks. Stefnt skyldi að því að sjóðurinn færi alfarið undir stjórn launafólks og sjálfgefið væri miðað við uppruna hans eftir langa kjaradeilu þar sem réttindin höfðu orðið til vegna þess að slakað hefði verið á kaupkröfum að einungis félagar stéttarfélaganna ættu rétt á atvinnuleysisbótum. Það var m.a. einnig á þessum grunni sem sú krafa var gerð að úthlutun bótanna væri ætíð í höndum verkalýðsfélaganna.
    Í lögum frá 1956 var sem sagt gert ráð fyrir því að þeir sem nytu atvinnuleysistrygginga væru fullgildir meðlimir í verkalýðsfélögum, eins og segir í lögunum. Um þetta atriði og fleiri var þá greinilegur ágreiningur í þeirri nefnd sem undirbjó lögin. Í 4. lið samkomulagsins sem varð til eftir
kjaradeiluna árið 1955 var gert ráð fyrir iðgjöldum vegna félagsbundinna manna sem benti til þess að báðir aðilar hafi gert ráð fyrir því að félagsaðild að stéttarfélagi yrði eitt af atriðum lagasetningarinnar.
    Ýmislegt fleira í samkomulaginu, svo sem viðmiðun við dagvinnukaup Dagsbrúnar, ákvæði um innheimtur á félagssvæði og í starfsgrein hvers einstaks félags, bendir til að lögsaga stéttarfélaga í þessu máli hafi verið viðurkennd af atvinnurekendum. Þessi atriði skýra nokkuð hvernig ákvæði um aðild að verkalýðsfélagi til að njóta atvinnuleysisbóta urðu til. Þó að löggjöf um atvinnuleysisbætur hafi verið breytt frá því að upphaflegu lögin voru sett hefur ríkt friður um það ákvæði laganna að mestu leyti í meira en þrjá áratugi að aðild að stéttarfélagi skuli vera eitt af

skilyrðum fyrir rétti til atvinnuleysisbóta. Um þetta var samið í frjálsum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og þetta tiltekna atriði var að mati verkalýðshreyfingarinnar eitt samningsatriðanna. Verkalýðshreyfingin leit á sjóðinn sem sína eign þó að atvinnurekendur greiddu 1 / 4 framlagsins, enda var litið svo á að sjóðurinn væri hluti af launum verkafólks sem hér eftir yrði afhentur því í formi réttinda.
    Vegna þess að hér á landi er félagsaðild að stéttarfélögum almenn og ekki venja að líta á það sem kvöð heldur sem réttindi hlýtur athugasemd sérfræðinganefndarinnar um þetta atriði að teljast ankannaleg. Í löndum Evrópu þar sem félagsaðild að stéttarfélögum er ekki jafnalmenn og hér á landi er skiljanlegt að lögð sé meiri áhersla á rétt manna til atvinnuleysisbóta án tillits til þess hvort þeir eru aðilar að stéttarfélögum. Sú fullyrðing sérfræðinganefndarinnar að það að svipta launamann rétti til fjárhagslegrar verndar ef hann er atvinnulaus sé óverjandi ráðstöfun er ósönnuð þar eð dæmi eru ekki um að launamenn hafi verið sviptir þessum grundvallarréttindum vegna þess að þeir hafi ekki verið félagar í stéttarfélagi. Því er ekki hægt annað en að vera ósammála þeirri túlkun sérfræðinganefndarinnar að ákvæðin um félagsaðild hafi þann tilgang að neyða hann, þ.e. launamann, til að ganga í að vera áfram félagi í stéttarfélagi. Það er ekki nauð að vera í stéttarfélagi þar sem flestir eða flestallir launamenn eru félagsmenn í slíkum félögum.
    Þess má geta að víðtæk pólitísk samstaða tókst á sínum tíma á Alþingi um þessa löggjöf. Frv. var samþykkt milli deilda með samhljóða atkvæðum og samþykkt sem lög frá Alþingi með samhljóða atkvæðum. Og þó að ýmsar athugasemdir kæmu fram í þingræðum voru engar breytingartillögur lagðar fram, t.d. um það atriði sem hér hefur verið til umfjöllunar að framan. Því er ljóst að með þessu mörkuðu stjórnvöld hér á landi þá afstöðu að aðild að stéttarfélagi ætti að vera eitt af skilyrðum þess að launamenn nytu atvinnuleysisbóta. Þó að lög um atvinnuleysistryggingar hafi verið endurskoðuð síðan hefur þessu atriði ekki verið hnikað.
    Nefna má einnig að dómar félagsdóms er fallið hafa vegna ágreinings einstakra manna við stéttarfélög um rétt til inngöngu eru þess efnis að stéttarfélag geti ekki neitað neinum í hlutaðeigandi starfsgrein að ganga í félagið. Þannig má öruggt telja að launtaki sem vill tryggja sér rétt til atvinnuleysisbóta geti sótt um aðild að stéttarfélagi sé hann ekki félagi í slíku félagi fyrir. Og þar sem aðild að stéttarfélögum er almenn ber alls ekki að líta á það að standa utan félaga sem hindrun fyrir því að fá greiddar bætur úr sjóðnum.``
    Af framansögðu er ljóst að orðalag sérfræðinganefndarinnar um fyrirkomulag atvinnuleysisbóta hér á landi, um að það sé óverjandi ráðstöfun að svipta mann rétti til fjárhagslegrar verndar ef hann er atvinnulaus, hljóta að teljast óviðeigandi í þessu sambandi þegar forsendur og rök í málinu eru skoðuð af sanngirni og í sögulegu

samhengi.``
    Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt að sjónarmið ASÍ kæmust inn í þessa umræðu þó að ég ítreki að ég geri þau ekki endilega að mínum. Ég tel það ekki skynsamlegt á þessu stigi málsins að fara að breyta þessu ákvæði atvinnuleysistryggingalaganna í mikilli andstöðu við ASÍ. Ég tel að við eigum að skoða þetta mál í betra tómi og fá fram hver afstaða sérfræðinganefndarinnar verður til þeirra skýringa sem íslensk stjórnvöld gefa. Og ég vil geta þess hér, af því að hér var minnst á sjómannalögin, að við höfum haft snör handtök hér á Alþingi um að breyta þeim ákvæðum sem talið var að brytu í bága við alþjóðasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Í því sambandi vil ég geta þess að Ísland fullgilti þetta ákvæði árið 1960, og ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða, þó að það sé kannski ekki til fyrirmyndar, en af því að talað var um að við hefðum haft snör handtök við að breyta því, að þá liðu örugglega 10--15 ár áður en Alþingi, og frv. er núna hér fyrir þingi, áður en frv. var lagt fram um það hér á Alþingi þó að við ítrekað hefðum fengið gagnrýni um það að við brytum ákvæði þessarar samþykktar. Ég er ekki að segja að þetta sé til fyrirmyndar, en það eru einungis 4--5 ár síðan fyrsta athugasemd kom fram um þetta atriði.