Atvinnuleysistryggingar
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Frsm. 2. minni hl. heilbr.- og trn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég hafði raunar ekki hugsað mér að blanda mér aftur í þessa umræðu, en mér þykir það furðulegt vanmat stéttarfélaga eða verkalýðshreyfingar á sjálfri sér ef það er helst talið að beita þurfi sögulegum rökum til að færa rök fyrir þeirri skoðun sem kemur fram í áliti ASÍ. Ég get ekki sætt mig við að söguleg rök séu notuð til þess að sýna fram á að svona skuli málin vera eins og þeim var háttað 1956 og verkalýðshreyfingin ætli það að henni hafi ekkert miðað síðan þá því öðruvísi get ég ekki skilið umsögn ASÍ. Eins og ég benti hér á í ræðu minni fyrr, þá er hlutverk stéttarfélaga mikilvægt og það ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu, í 5. gr., sem á að tryggja mönnum rétt til að vera í stéttarfélagi er mikilvægt. Þar af leiðandi þykir mér ekki sæmandi slíkri hreyfingu að vilja taka önnur ákvæði sömu greinar út og ætla að þar sé allt í einu farið með óréttlæti af einhverjum sögulegum ástæðum. Ég vona að vegur verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi sé annar en að halda í 35 ára gamlar ákvarðanir. Ég vona að framsæknin sé meiri og verkalýðshreyfingin átti sig á hlutverki sínu, þ.e. að taka á þeim málum sem nú eru brýnust fyrir launafólk hér í landinu. Þá efast ég ekki um að launafólk fylki sér innan stéttarfélaga þrátt fyrir það að það eigi kost á atvinnuleysisbótum utan þeirra.