Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson):
    Vegna orða hv. 2. þm. Reykn. vill forseti taka það fram að það er rétt sem hann segir að hér hafði verið gert ráð fyrir að fundi gæti lokið öðru hvoru megin við miðnætti. Sú áætlun miðaðist hins vegar við það að samkomulag tækist um framgang frv. um umhverfismál á grundvelli þeirrar tillögu sem hæstv. forsrh. lagði hér fram við umræðuna í gær. Forseti lítur svo á að nokkur umræða verði að fara fram um þetta frv. nú og mun halda henni eitthvað áfram en hann getur sagt það í mestu vinsemd við alla hv. þingdeildarmenn að hann mun ekki ofgera þeim í nótt með þeirri vinnu sem hér mun fara fram. Forseti gerir sér hins vegar fulla grein fyrir því að það eru margir og erfiðir vinnudagar fram undan og það má greina mjög skýrt á þeirri dagskrá sem liggur fyrir þessum fundi.
    Forseti getur ekki meira um þetta sagt.