Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Ég vil minna á svo sem fram hefur komið og forseti hefur réttilega staðfest að um það hafi verið talað að þessum fundi lyki öðru hvoru megin við miðnætti. Það er ætlun að ljúka þingi á laugardag. Stjórnarandstaðan hefur fyrir sitt leyti fallist á að greiða með ýmsu móti fyrir framgangi mála svo að það muni takast. Það er gert ráð fyrir að eldhúsdagsumræða fari fram annað kvöld. Þrátt fyrir það hefur verið á það fallist sem er allsendis óvenjulegt að hvort tveggja gerist að nefndafundir hefjist kl. 8 í fyrramálið og fundir verði í deildum þingsins og nefndafundir fram eftir degi. Hér er um alveg óvenjulega aðstöðu að ræða sem sýnir að allir hafa lagt sig mjög fram um það að greiða fyrir framgangi þingmála. Það er viðbúið að á föstudagskvöld og jafnvel fram eftir nóttu þurfi að halda fundi í þinginu. Það er með öðrum orðum algjörlega útilokað að halda þessum fundi áfram lengur ef standa á við þau markmið sem sett hafa verið um þinghald á morgun og föstudag og laugardag. Það hlýtur að liggja í augum uppi að eigi sú verkáætlun að standast sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa fallist á í þeim tilgangi að greiða fyrir framgangi mála, þá er ekki unnt að halda þessum fundi lengur áfram. Þess vegna vil ég taka undir þá beiðni sem hér hefur komið fram til hæstv. forseta að hann fallist á að ljúka þessum fundi nú því að með því einu móti er unnt að greiða fyrir framgangi þingmála og þingstörfum eins og gengið hefur verið út frá. Því er stefnt í verulega hættu ef hér verður haldið áfram fram eftir nóttu.
    Ég vil þess vegna ítreka þessa beiðni og skora á hæstv. forseta að fallast á hana.