Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það undrar mig dálítið að hlusta á þessa umræðu þó að klukkan sé langt gengin tvö. Ég vil minna hv. þm. á að þetta er fyrsti næturfundurinn á þessu þingi. Aðeins einu sinni áður hefur þingfundur staðið til kl. 2 eftir miðnætti og það var fyrir jól þannig að einhvern tíma hefur nú þingið lagt á sig vinnu á borð við þetta, einkum þegar litið er til þess að nú líður að þinglokum. Þykir mér nú mjög farið að sneyðast um krafta hv. þm. ef ekki er unnt að koma þessu máli, sem fjallað hefur verið um í 30 klukkutíma umræðu, ég veit ekki á hve mörgum dögum, til Ed. nú í nótt. Ætla mætti að það þyrfti ekki að taka marga klukkutíma því að hv. Ed. á eftir að fjalla um málið og ég geri ráð fyrir að allflestir hv. þm. þekki nú þetta mál orðið út og inn og menn geti treyst flokkssystkinum sínum fyrir málinu í hv. Ed.
    Á þetta hlýt ég að benda vegna þess að aldrei síðan ég kom á þing árið 1979 hefur verið eins lítið um næturfundi eins og á þessu þingi. Ég skora nú á hv. þm. að fara að orðum hæstv. forseta og reyna að ljúka þessu máli hér í kvöld og koma því til hv. Ed. Annað er satt að segja vart sæmandi fyrir hið háa Alþingi.