Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Matthías Á. Mathiesen :
    Herra forseti. Ég vil eindregið taka undir orð hv. 2. þm. Reykn. þegar hann leggur til að þessari umræðu verði frestað. Á það hefur verið bent og var bent á af hv. 1. þm. Reykv. að fjölmargir í þessari hv. deild hafa ekki haft tækifæri til að tjá sig í þessu máli en hafa í hyggju að gera það. Ég hef ekki haft aðstöðu til að taka þátt í umræðu en hafði hugsað mér að gera það því að þannig vill nú til að frv. sem flutt var snemma á þessu þingi og einmitt fjallar um umhverfismál hefur ekki fengist til umræðu í þeirri nefnd sem það var í og þaðan af síður að það hafi verið gengið til afgreiðslu á því máli og það látið koma á dagskrá þessarar deildar.
    Nú eru sex klukkutímar þar til þingmenn eiga að mæta hér á nefndarfundum. Jafnvel þó ekki hafi verið margir næturfundir á þessu þingi sýnist mér það sem hér hefur verið farið fram á vera lágmarkskrafa, þegar klukkan er tvö og menn eiga að mæta hér aftur kl. 8 og eftir því sem ég best fæ skilið að fundur eigi að byrja í deildinni þar á eftir kl. 10, alveg lágmarkskrafa.
    Ég vil líka taka undir það sem hv. 2. þm. Reykn. sagði að ekki verður við hæstv. forseta sakast um gang þessa máls, að það hafi verið fyrir einhvern seinagang af hans hálfu, síður en svo. Hæstv. forseti hefur reynt með sinni lagni að ná málum fram hér í þessari hv. deild og hann, eins og hann sagði sjálfur, metið samkomulag. Og ég er sannfærður um að hann hefur náð málum fremur fram með því háttalagi, eins og góðum forsetum sæmir og þeim oft tekst. Ég legg því eindregið til að hann verði við þeirri beiðni sem hér hefur komið fram og nái með einhverjum hætti samstöðu þegar kemur fram á morgundaginn í sambandi við þessi mál þannig að hér verði hægt að ljúka þingi nk. laugardag.