Frumvarp um yfirstjórn umhverfismála
Miðvikudaginn 02. maí 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Nú hafa þingfundir staðið drjúga stund og það mál sem hér er til umræðu var komið í þann farveg fyrr í kvöld að ætla mátti að það væri lending í því. Það hefur brugðist og er því æskilegt að hæstv. forsetar beiti sér fyrir því að fundi verði núna frestað og rætt hvort megi finna lendingu í þessu máli. Ég vil hins vegar ítreka að það er náttúrlega óforsvaranlegt að halda næturfund, ekki skal ég skjóta mér undan því að halda hann út af fyrir sig og gæti ég jafnvel talað með þögnum á áhrifamikinn hátt í alla nótt ef út í það færi.
    Vildi ég fara þess á leit að hæstv. forsetar frestuðu fundi. Þeir ætla að halda eldhúsdag á morgun og hæstv. forseti Sþ. er horfinn úr salnum sýnist mér, sennilega orðin dálítið syfjuð. Ég held að engum sé greiði gerður með því að halda áfram svo lengi sem raun ber vitni og tel skynsamlegt að fresta fundi nú og ræða málin frekar. Annars má búast við að ýmis fleiri mál riðlist í umræðu fram á laugardag. Það er ekki hægt að lofa neinu ef á að fara að halda næturfundi á undan eldhúsdegi, það verður að gefast tóm til efnislegrar umfjöllunar mála. ( Sjútvrh.: Eru þetta hótanir?) Hæstv. ráðherra spyr hvort þetta séu hótanir. Hann má skilja það eins og hann vill.