Yfirstjórn umhverfismála
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Ólafur G. Einarsson (frh.) :
    Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni að ég var að rifja upp fyrirspurnir sem ég hafði beint til hæstv. heilbrrh. Áður en ég kem að þeim fyrirspurnum aftur þá ætla ég að ræða hér aðeins um brtt. Ég sé líka að hæstv. heilbrrh. er ekki kominn til fundar. Ég tek jafnframt fram að ég mun mjög reyna að stytta mál mitt, reiknandi með að enn þá standi ákvörðunin um að þinglausnir verði n.k. laugardag og mér er alveg ljóst að til þess að svo megi verða þurfa menn að stytta hér mál sitt sem mest þeir mega.
    Ég hafði að nýju gert í örstuttu máli grein fyrir brtt. þeim sem ég ásamt hv. þm. Inga Birni Albertssyni og Friðjóni Þórðarsyni flutti við 2. umr. málsins þess efnis að 6.--14. gr. frv. féllu brott. Jafnframt boðaði ég að við mundum flytja tvær brtt. til viðbótar og það höfum við nú gert á þskj. 1171. Þær eru um það að 16. og 17. gr. frv. falli brott. 16. gr. fjallar um að yfirstjórn skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, verði flutt frá félmrn. og til
umhvrn. 17. gr. er aftur um það að yfirstjórn byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978, er flutt frá félmrn. og til umhvrn. Við leggjum sem sagt til á þskj. 1171 að þessar greinar báðar falli brott.
    Ég hef þegar gert grein fyrir og þarf ekki að endurtaka það að fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga sem haldinn var 22. og 23. mars sl. ályktaði í þessa veru og beindi þeirri áskorun til Alþingis að þessar greinar féllu brott. Rökstuðningurinn fyrir þessu er ósköp einfaldur. Hann er sá, sem á reyndar við ýmsar aðrar greinar frv., að ekki sé rétt að málaflokkur sem þessi, þ.e. sveitarstjórnarmálin, heyri undir tvö ráðuneyti, en þannig yrði ef 16. og 17. gr. yrðu samþykktar.
    Ég gerði að umtalsefni í þingskapaumræðu um daginn bréf sem hæstv. forsrh. hafði borist og dagsett er 30. apríl sl. þar sem forsvarsmenn ákveðinna stofnana leggja til að frestað verði samþykkt ákveðinna greina í frv. sem ágreiningur er um. Ég skal aðeins fara yfir þetta bréf aftur, mér sýnist það nauðsynlegt, en bréfið hljóðaði svo:
    ,,Undirritaðir forsvarsmenn stofnana, sem tillaga liggur fyrir um að flytjist undir yfirstjórn umhverfisráðuneytis að hluta til eða að öllu leyti, óska eftir að þær greinar 128. máls sem ágreiningur er um verði ekki afgreiddar á yfirstandandi þingi heldur fái frekari faglega umræðu.
    Afrit af þessu bréfi er sent formönnum þingflokka.``
    Ég las upp hverjir og fyrir hvaða stofnunum þessir forstöðumenn væru. Það eru Hollustuvernd ríkisins, eiturefnanefnd, Siglingamálastofnun ríkisins, Landmælingar Íslands, veiðistjóri, Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, Skipulagsstjóri ríkisins og Geislavarnir ríkisins.
    Ég vakti athygli á því að þarna hefðu skrifað undir forstöðumenn þriggja stofnana sem áður höfðu mælt með að þær greinar sem þeirra stofnanir vörðuðu yrðu fluttar yfir til umhvrn. Ég skildi þetta bréf einfaldlega þannig að þessum aðilum hefði snúist hugur. Það var

forstöðumaður Landmælinga Íslands, veiðistjóri og skipulagsstjóri ríkisins. Nú hafa þessir aðilar haft samband við mig og sjálfsagt fleiri og greint frá því að það hefði ekki verið ætlun þeirra að undirskriftin yrði skilin með þessum hætti. Ég tek það til greina þó að mér hafi verið alveg ómögulegt að skilja bréfið öðruvísi en svo að þeir væru að tala um sínar stofnanir. Nú er það svo að ég get alveg skilið afstöðu forstöðumanns Landmælinga Íslands vegna þess að það hefur ekki verið neinn sérstakur ágreiningur um að Landmælingar Íslands flyttust til umhvrn. Það er 19. gr. frv., þ.e. að yfirstjórn Landmælinganna flytjist frá samgrn. og til umhvrn. Að vísu mælti samgrn. ekki með því. En við getum litið svo á að um það sé ekki ágreiningur.
    Veiðistjóri hafði lýst því yfir að hann hefði ekkert við það að athuga að hans viðfangsefni flyttust undir umhvrn., en um það var hins vegar ágreiningur. Búnaðarþing hafði ályktað að það skyldi ekki gert og 7. gr. frv. varðar það mál. Þess vegna tók ég þessa undirskrift veiðistjóra alveg eftir orðanna hljóðan, að þessi grein skyldi tekin út úr eða gildistöku hennar frestað vegna þess að um það atriði var ágreiningur. Alveg nákvæmlega sama átti við um skipulagsstjóra ríkisins. Hann hafði að vísu sjálfur mælt mjög eindregið með því í umsögn til hv. allshn. að yfirstjórn skipulagsmála flyttist undir umhvrn. en um það mál reis hins vegar ágreiningur þar sem, eins og ég gat um áðan, fundur fulltrúaráðs Sambands ísl. sveitarfélaga ályktaði mjög eindregið í þá átt að yfirstjórn byggingarmála og yfirstjórn skipulagsmála skyldu ekki flytjast til umhvrn. heldur vera áfram undir fjmrn. Þess vegna skildi ég undirskrift skipulagsstjóra eftir orðanna hljóðan, að hann legði til að fallið yrði frá þessum áformum. Nú hefur hann á alveg sama hátt og forstöðumaður Landmælinganna greint mér frá því að svona hefði ekki átt að skilja hans undirskrift. Aðspurðir hvernig ætti þá að skilja þessar undirskriftir segjast þeir hafa verið að styðja hina sem skrifuðu undir bréfið. Það er náttúrlega afskaplega drengilega gert og ekkert frekar um það
að segja. Ég vildi greina frá þessu hér þannig að misskilningurinn yrði leiðréttur.
    Herra forseti. Ég þarf svo sem ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Ég rifja aðeins upp að hæstv. forsrh. hafði í ræðu sinni hér fyrir fáum dögum komið fram með þá sáttatillögu til þess að greiða fyrir því að umræðum um þetta mál gæti lokið, að hann fyrir sitt leyti mundi beita sér fyrir því að fallist yrði á okkar brtt., þ.e. að 6.--14. gr. frv. yrðu felldar brott. Við það tækifæri þakkaði ég hæstv. forsrh. fyrir viðleitni hans til þess að reyna að ná sáttum í málinu, en tók sérstaklega fram að ég hefði boðað flutning tveggja brtt. til viðbótar, sem ég hef nú gert grein fyrir, og okkur væri mikið kappsmál að þær greinar yrðu teknar inn í mögulegt samkomulag. Nú hefur þetta samkomulag ekki tekist enn þá en engu að síður læt ég í ljós þá von að samkomulag megi takast. Með það í huga og til þess að eyða ekki frekari tíma hér núna ætla ég ekki að lengja mál mitt frekar og vona

að við getum sest niður einmitt nú og reynt að finna lausn á þessu máli til þess að þinglausnir geti farið fram á laugardaginn eins og ákveðið hefur verið.