Yfirstjórn umhverfismála
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Það fer að sjálfsögðu ekki á milli mála að sá málatilbúnaður sem hér er á ferðinni er orðinn ærið vandræðalegur. Ég minni á að þegar þetta frv. var flutt ásamt fylgifrv. þess um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, þá var það sótt af miklu kappi að frv. bæði yrðu afgreidd að heita mátti óbreytt héðan frá Alþingi. Fyrra frv., frv. til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, var síðan afgreitt en fylgifrv. þess sem hér er á dagskrá, um yfirstjórn umhverfismála, er hér enn til 3. umr. í fyrri deild.
    Nú hefur það gerst að hæstv. forsrh., sem flytur frv. og ber alla ábyrgð á því fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, hefur flutt brtt. á þskj. 1065. Þær brtt. eru með þeim hætti að þær hljóta að vekja undrun því í þeim er lagt til að lögfestar verða breytingar á tilteknum lögum, breytingar sem síðan eigi ekki að taka gildi fyrr en eftir endurskoðun þeirra laga á næsta Alþingi. Ég minnist þess ekki að hafa séð tillögur um slíka lagasetningu fyrr, að gera tillögur um að breyta tilteknum lögum nú í þinglok, lögum sem taka síðan ekki gildi fyrr en eftir endurskoðun tiltekinna lagabálka á einhverju öðru Alþingi. Þessi málatilbúnaður er sérstæður og svo vandræðalegur að hann er auðvitað ekki hæstv. forsrh. samboðinn og ekki hv. Alþingi samboðið að afgreiða mál með þeim hætti. Nú hefur hæstv. forsrh., sem því miður er ekki hér viðstaddur en er væntanlega á fundi um skipan þinghaldsins þessa daga sem eftir lifa Alþingis, boðið það til viðbótar, vegna þess væntanlega að hann sér í hvílíkar ógöngur þessi málatilbúnaður allur er kominn, að fallast á flestar brtt. okkar sjálfstæðismanna sem hæstv. ráðherra hafði áður mælt mjög staðfastlega gegn.
    Það er þess vegna mikið hik á hæstv. forsrh. varðandi framgang þessa máls og maður heyrir það að hæstv. umhvrh., sem hefur verið ákaflega hljóður í þessari umræðu, er nú farinn að taka til máls við fjölmiðla og lýsa því yfir nú þegar
þingi er að ljúka, að verði þetta frv. ekki afgreitt þá sé hæstv. ríkisstjórn dauð --- eins og hann orðaði það. Ég tel að hæstv. umhvrh., sem hér gengur í salinn, hefði átt að gera samráðherrum sínum og hæstv. forsrh. grein fyrir þessum skoðunum fyrr en á næstsíðasta degi þingsins eða svo.
    Þetta mál er komið í hið mesta óefni, enda málatilbúnaðurinn frá upphafi í því fari. Ég minni á að af nálega 80 aðilum sem leitað var umsagnar hjá, ellegar komu til viðræðna við hv. allshn. Nd., mælti yfirgnæfandi meiri hluti þeirra gegn öllum málatilbúnaðinum eða hafði verulegar athugasemdir við einstök atriði þessara mála. Og ekki að undra þótt hæstv. forsrh., sem er nú manna staðfastastur í sínum fyrirætlunum og hélt því ákaflega eindregið fram, a.m.k. lengst af, hvílík nauðsyn væri að afgreiða þessi mál og hversu mikil framför það væri fyrir íslenska stjórnkerfið að fá þessar breytingar lögfestar, sé farinn allmjög að hika. Ég lái honum það ekki heldur er ég

í rauninni að segja að það hik hefði auðvitað átt að koma á menn miklu fyrr miðað við hvernig viðtökur allur þessi málatilbúnaður hefur fengið í þjóðfélaginu og hjá þeim aðilum sem gerst þekkja þau mál sem eiga að falla undir hið nýja umhvrn.
    Með tilliti til þess að hæstv. forsrh. og fleiri hæstv. ráðherrar eru hér viðstaddir leyfi ég mér, þó ég hafi áður gert það við 2. umr. þessa máls, að vitna til þess sem segir í dagblaðinu Tímanum þann 3. apríl sl. Þar er prentuð stjórnmálaályktun 6. stjórnarfundar Sambands ungra framsóknarmanna sem haldinn var laugardaginn 17. mars 1990. Í þessari stjórnmálaályktun er farið fremur viðurkenningarorðum um það að stefna að því að stofna umhvrn., en síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sá pólitíski hrossakaupaþefur sem af stofnun umhverfisráðuneytisins leggur gerir það mál þó ekki jafnánægjulegt og ella hefði orðið. Samband ungra framsóknarmanna hvetur hér eftir sem hingað til alla stjórnmálamenn að láta ekki eftirsókn eftir völdum og valdastólum hlaupa með sig í gönur.``
    Ég tók vel eftir þessari stjórnmálayfirlýsingu ungra framsóknarmanna. Það er sannarlega bragð að þá barnið finnur. Og ég undrast það að reyndir forustumenn Framsfl. og vinsælir stjórnmálaforingjar þess flokks skuli haga málatilbúnaði sínum með þeim hætti að þeir verðskuldi slíkar kveðjur og leiðbeiningar frá ungliðum síns flokks. Þó er einkum tvennt sem þarna kemur fram. Í fyrsta lagi er sagt berum orðum að mál þetta sé liður í hrossakaupum, það sé hrossakaupaþefur af þessu máli. Í öðru lagi er áskorun til stjórnmálamanna um að láta ekki eftirsókn eftir völdum og valdastólum hlaupa með sig í gönur.
    Nú er það mála sannast að þessi orð eru ekki mælt að ófyrirsynju vegna þess að með þessum málatilbúnaði öllum eru forustumenn Framsfl., af því að hér er nú talað fyrst og fremst til þeirra af hálfu ungra framsóknarmanna, að fara í stríð gegn flestum þeim sem á undanförnum árum hafa unnið á vettvangi þeirra mála sem á að færa undir hið nýja umhvrn. Þarna eru ýmsir reyndir menn, menn sem hafa lagt sál sína í það starf sem þeir hafa unnið á sviði landgræðslu, skógræktar og varðveislu náttúruauðlinda, sumir hverjir í sambandi við mengunarmál og hollustuhætti o.s.frv. o.s.frv. Ýmsir þessara manna hafa í raun, að mér sýnist megi segja, lagt sál sína í það starf sem þeir hafa unnið
að þessum verkefnum og hafa í ýmsum tilvikum skilað miklum árangri. Það er því býsna erfið staða sem hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn og hv. forustumenn Framsfl. eru komnir í þegar ungir framsóknarmenn senda þeim slíkar kveðjur, sem ekki er að ófyrirsynju, að fara gegn þeim mikla og þétta vegg andstöðu sem er við þetta mál allt saman. Og ég segi, það er ekki að undra þótt komið sé hik á hæstv. forsrh.
    Nú rakti ég þetta mál allítarlega hér við 2. umr. og ætla ekki að endurtaka það. Ég vil hins vegar rifja það upp að ég fór um þetta þá þeim orðum að með þessum hætti hefði Framsfl. gengið undir jarðarmen.

Ég kalla það að ganga undir jarðarmen þegar sá stjórnmálaflokkur vill knýja þetta mál í gegnum þingið með þeim hrossakaupaþef sem ungir framsóknarmenn lýsa í sinni stjórnmálaályktun þó það kosti það að ganga gegn sjónarmiðum fulltrúa hinna ýmsu stofnana í stjórnkerfinu og utan þess sem margir hverjir hafa til þessa talið Framsfl. meðal sinna málsvara. Meðal þessara manna eru til að mynda nálega allir forustumenn stofnana landbúnaðarins, allt frá landbrn. sjálfu og niður í aðrar stofnanir landbúnaðarins og yfir í félagasamtök sem starfa á vegum landbúnaðarins eða starfa að t.d. skógræktarmálum, eins og Skógræktarfélag Íslands. Þetta er ekkert einskorðað við landbúnaðinn heldur er sömu sögu að segja um aðra málaflokka sem hér eiga hlut að máli, eiga að færast undir svokallað umhverfisráðuneyti samkvæmt þessu frv. Ég hlýt því að hvetja hæstv. forsrh., sem er ekki viðstaddur þessa stundina en hæstv. sjútvrh., varaformaður Framsfl., er hér staddur, ég hlýt að hvetja forustumenn Framsfl. til að taka nú tillit til þess sem ungir framsóknarmen segja í sinni ályktun, að láta ekki eftirsókn eftir völdum og valdastólum hlaupa með sig í gönur. Það er að láta hlaupa með sig í gönur að ganga gegn þeirri miklu andstöðu sem hefur komið í ljós í þjóðfélaginu gegn þessu máli öllu í pólitískum tilgangi sem ungir framsóknarmenn sjálfir kalla að hrossakaupaþefur sé af.
    Hæstv. umhvrh. sem hér situr og hefur verið býsna þaulsætinn við umræður um þetta mál og er það honum að sjálfsögðu til viðurkenningar, hefur sagt fátt í þessari umræðu. Það skal þó sagt vegna ásökunarorða í garð stjórnarandstöðunnar sem fram komu í umræðum um þingsköp sl. nótt að mál þetta hefur vitaskuld tafist í umræðum að verulegu leyti vegna þess að hæstv. umhvrh. sem menn óskuðu eftir að væri við umræðuna var tíðum erlendis og hlaut það auðvitað að tefja framgang málsins. En eigi að síður hefur hann, þegar hann hefur verið hér heima á landinu, sinnt þeim skyldum sínum vel að vera við þessa umræðu.
    Á hinn bóginn hefur lítið frá honum heyrst utan það sem nú heyrist í fjölmiðlum. Það hafði lítillega heyrst frá honum í fjölmiðlum áður um þetta mál eða mál er tengjast þessu nýja starfi sem hann hefur tekið að sér, svo sem þegar birtist við hann viðtal í forustublaði ríkisstjórnarinnar, Tímanum, þar sem hann lýsti því að hann hefði farið bæði sem ráðherra og einstaklingur upp á skíðasvæðin fyrir ofan Reykjavík til að skoða það sem hann kallaði ,,umhverfi landsins``. Miðað við orðanna hljóðan virðist hæstv. umhvrh. ekki vanþörf á að skoða sig um á landinu því að þessi orð tákna að hæstv. ráðherra telji að landið nái ekki nema hérna upp á Ártúnshöfðann eða svo og kannski suður í Hafnarfjörð og þegar hann sé kominn 6--8 km þar upp fyrir þá sé hann að skoða umhverfi landsins. Ég tel það vel til fundið hjá hæstv. umhvrh. að fara sem ráðherra og einstaklingur til að skoða þetta umhverfi sem er nú í rauninni ekki umhverfi heldur hluti af landinu sjálfu þó svo færi nú að sjálfur yrði hæstv. ráðherra umhverfisvandamál í

þeirri skoðunarferð sinni. Látum það nú kyrrt liggja.
    Í þessari ferð komst hæstv. ráðherra að raun um það sem hann undraðist og þótti með nokkrum ólíkindum, hversu margt fólk var þarna upp frá. Það hafði honum ekki dottið í hug áður og það var alveg stórkostlegt vandamál sem þyrfti að bregðast við með einhverjum hætti og umhvrh. þyrfti að sjálfsögðu að taka til athugunar hversu margt fólk væri þarna uppi á skíðasvæðunum á góðviðrisdögum. Það er nú svo að það er víðar fólk á landinu en hér innan Elliðaáa og suður í Hafnarfjörð. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að fara fleiri ferðir af þessu tagi og kynna sér það sem er að gerast á landinu, kynna sér lífshætti fólksins og kynna sér hvaða hættur kunna að leynast í umhverfinu fyrir fólkið og þá auðvitað ekkert síður hvaða hættur kunna nú að steðja að náttúrunni og lífríkinu sem hlýtur að vera hans hlutverk, enda hefur hann aflað sér nokkurra tækja til að geta komið því við.
    Ég vil svo segja það að afstaða okkar sjálfstæðismanna í þessum málum er auðvitað hrein og skýr. Hún er sú að við teljum óþarft og rangt að stofna ráðuneyti um þennan málaflokk. Og eftir að illu heilli hefur þó verið gerð sú breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands með þeim hrossakaupaþef sem því hefur fylgt að stofna slíkt ráðuneyti, þá eigi auðvitað að fara sem allra skemmst í að ákveða með lögum verkefni slíks ráðuneytis því ætla má að slík breyting á lögum um Stjórnarráð Íslands verði varla langlíf. Það er kunnugt að það er skoðun ýmissa að þörf sé á að taka lögin um Stjórnarráð Íslands til endurskoðunar og nauðsynlegt að vanda það verk vel. Ég beini því enn til
hæstv. ráðherra sem hér sitja að það verk á vitaskuld ekki að vinnast af einhverri tiltekinni ríkisstjórn eða af einhverjum tilteknum stjórnarmeirihluta. Einhver ríkisstjórn skipar að vísu forustu í því starfi en verk af því tagi sem það er að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands og koma fram breytingum um skipan stjórnkerfisins á ekki að vinna með pólitísku meirihlutavaldi hér á hinu háa Alþingi vegna þess að þar er verið að semja leikreglur sem fara á eftir í stjórnskipaninni sem og eiga að þjóna mörgum ríkisstjórnum. Ef það verk er vandað á það að geta staðið um alllanga hríð. Það er ekki heppilegt og er raunar ekkert vit í því að knýja fram breytingar á stjórnskipaninni, þ.e. lögum um Stjórnarráð Íslands, með einhverju naumu meirihlutavaldi á Alþingi af einni ríkisstjórn. Því að það mundi æra óstöðugan ef hver einasta ríkisstjórn ætlaði að fara að knýja fram breytingar sem henni helst þóknuðust þegar hún settist á valdastóla og þá gjarnan með þeim hætti að slíkum breytingum fylgir hrossakaupaþefur. Þetta veit ég að hæstv. ráðherrar sem hér eru staddir viðurkenna þegar þeir hugsa sitt ráð. Það haggar vitaskuld ekki því að þarna er verk að vinna sem ástæða er til að leggja mikla alúð í og velja til hina hæfustu og reyndustu menn að huga að því verki. Því það er nú svo að stundum hafa verið valdir til þessa verks á undanförnum árum reynslulitlir menn, menn sem hafa

kannski starfað skamma hríð í Stjórnarráðinu, stundum sem aðstoðarmenn ráðherra, menn sem þá eru kannski litaðir af ýmsum sérsjónarmiðum sem ekki fara saman við reynslu þeirra sem hafa lengra starf að baki.
    Ég minni svo á að um leið og við sjálfstæðismenn erum gersamlega andvígir þeim breytingum sem hér hafa verið gerðar á stjórnarráðslögunum þá höfum við tiltekin og eindregin sjónarmið varðandi það hvernig eigi að skipa umhverfismálum, sem þarf ekki að endurtaka. Við höfum lagt til að yfirstjórn þeirra mála verði skipuð einni tiltekinni stjórnarráðsdeild. En við byggjum auðvitað okkar afstöðu á tilteknum grundvallaratriðum og grundvallarsjónarmiðum, m.a. þeim að saman eigi að fara yfirstjórn á nýtingu, verndun og aðgerðum til að bæta tiltekna þætti lífríkisins og auðlinda landsins.
    Þó svo að þetta frv. yrði samþykkt þá yrði þessi skipan á höfð um auðlindir sjávarins. Þar er ekki haggað því að saman fari yfirstjórn á nýtingu auðlindanna og verndun og eftirlit. Það er hin rétta skipan. En hvers vegna skyldi verið að slíta þetta allt í sundur að því er varðar aðrar auðlindir þjóðarinnar, þ.e. auðlindir landsins, auðlindir á vegum landbúnaðarins? Það er auðvitað mál sem við erum gersamlega andvígir. Og þetta er ekkert sérsjónarmið okkar sjálfstæðismanna því þetta er sjónarmið sem er að öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Ég skal ekkert vera að rifja það upp sem fram hefur komið um þessi mál í skýrslum sem gefnar hafa verið út á vegum alþjóðlegra nefnda og ýmsir pólitískir foringjar úti í heimi hafa staðfest að sé sú skipan sem þeir hafi komist að raun um að sé hin rétta. Afstaða okkar sjálfstæðismanna er byggð á slíkum grundvallarsjónarmiðum og það fer heim og saman við það sem til að mynda segir í einni af umsögnum um þetta mál, að mig minnir frá þeim mæta manni Sigurði Blöndal, fyrrum skógræktarstjóra, að með þessum tillögum sem hér eru á ferðinni sé gert ráð fyrir að slíta í sundur það sem ekki megi sundur slíta. Það er á sviði skógræktarmála og það er á sviði fleiri mála sem nú heyra undir landbrn. Sé það slitið í sundur sem eigi má í sundur slíta þá er verið að stofna til ófriðar, stofna til átaka, árekstra og margs konar erfiðleika í því starfi sem svo nauðsynlegt er að vinna í ýmsum málaflokkum, t.d. á sviði gróðurverndar og skógræktar, svo nokkuð sé nefnt.
    Þessi grundvallaratriði eru það sem við sjálfstæðismenn byggjum okkar stefnu á. Það felur þó í sér að nauðsynlegt er að hafa eina samræmda yfirstjórn yfir öllum þessum málum þar sem er samstarfsvettvangur og samræmingarvettvangur og síðan að þar sé á einum stað málsvari íslenska stjórnkerfisins og íslensku þjóðarinnar á þessum vettvangi, til að mynda á fundum erlendis. Þetta er nauðsynlegt og því höfum við valið þá leið að slík yfirstjórn og samræming skuli vera á vegum einnar stjórnarráðsdeildar sem við höfum lagt til að sé í samgrn.
    Ég held að ástæðulaust sé fyrir mig að flytja um þetta langt mál. Ég er búinn að láta mín sjónarmið

koma fram áður. Ég vil ekki tefja tímann á því að velta hæstv. ráðherrum og hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarmeirihluta hér á hinu háa Alþingi upp úr þessu máli eins og auðvelt er að gera og ég tel ekki þjóna neinum tilgangi á lokadögum þingsins að gerast stórorður um þetta mál. Það er þó augljóst að málafylgja okkar sjálfstæðismanna hefur haft mikil áhrif og það hefur verið létt verk að standa fyrir þeirri málafylgju vegna þess að andstaðan við þetta mál og við þennan málatilbúnað er svo samfelld, svo öflug og svo heil frá þorra þeirra aðila sem mesta reynslu hafa og mest starf hafa lagt í þá málaflokka sem hér er um fjallað á undangengnum árum, sumir þeirra um áratugi. Þetta hefur auðvitað létt þann málatilbúnað sem við höfum hér haft í frammi og það sýnir sig að okkar málatilbúnaður hefur haft nokkur áhrif á hæstv. ríkisstjórn. Ég er ekkert viss um hæstv. umhvrh., en þó hefur hann verið svo
hljóður í allri þessari umræðu að það er eins og hann hafi ekki lagt í það að taka til máls hér á hinu háa Alþingi. Það út af fyrir sig bendir til þess að málafylgja okkar hafi einnig áhrif á hann þó með óbeinum hætti sé.
    Í ljós kemur að hæstv. forsrh. hefur hopað í málinu. Hann hefur í fyrsta lagi flutt brtt. sem eru, eins og ég lýsti hér í upphafi þessarar ræðu minnar, með næsta óþinglegum hætti og hvorki honum sjálfum sem forsrh. landsins eða Alþingi samboðnar, að lögfesta breytingar á lögum sem síðan eigi ekki að taka gildi fyrr en þeir lagabálkar hafa verið endurskoðaðir einhvern tíma á öðru Alþingi. Þetta er ekki samboðið hæstv. forsrh. né hv. Alþingi að láta ganga fram, enda hefur hann áttað sig á þessu og gengur nú lengra og býðst til að samþykkja þorra þeirra brtt. sem sjálfstæðismenn og fulltrúi Frjálslynda hægriflokksins hafa lagt fram við frv. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. sé þessa stundina að leitast við að átta sig enn betur á þessu máli og komi með enn betra boð um lausn á því þegar hann kynni að ganga í salinn.
    Í þeirri vissu að að þessu sé nú unnið hef ég ekki gert kröfur um það sem í raun hefði verið eðlilegt undir öðrum kringumstæðum, að hæstv. forsrh. sem flm. þessa máls sé hér viðstaddur. En ég vænti þess að eftir þá málafylgju sem hér hefur verið á hinu háa Alþingi af hálfu okkar, fulltrúa Sjálfstfl. og fulltrúa Frjálslynda hægri flokksins, þá hafi opnast augu fleiri en hæstv. forsrh. fyrir því að þessi málatilbúnaður er gersamlega í óefni. Og ég hygg að fleiri, a.m.k. forustumenn Framsfl., sjái að það er ekki álitlegt að fá yfir sig kveðjur með líkum hætti og hér var vitnað til frá ungum framsóknarmönnum.
    Í trausti þess að niðurstaða fáist, annað tveggja að gengið verði inn á þær brtt. sem fulltrúar Sjálfstfl. og Frjálslynda hægriflokksins í hv. allshn. hafa flutt ellegar að þetta mál verði látið liggja, þá sé ég ekki ástæðu til þess að halda áfram mínum málflutningi. Þó að hæstv. umhvrh. hafi látið eitthvað frá sér heyra í fjölmiðlum um lífdaga hæstv. ríkisstjórnar þá tel ég nú ekki ástæðu til að taka orð hans um það mjög

hátíðlega. Það gæti farið fyrir honum með líkum hætti og þegar hann fór ökuferð upp á skíðasvæðið hér fyrr í vetur.