Stjórn fiskveiða
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um stjórn fiskveiða. Það mál sem hér er til umræðu hefur hlotið víðtækari og rækilegri umfjöllun en algengt er um þingmál áður en þau koma til umræðu á hv. Alþingi. Þá hefur það hlotið ítarlega yfirferð á sameiginlegum fundum sjútvn. beggja deilda Alþingis. Er þetta í góðu samræmi við mikilvægi málsins og vil ég leyfa mér að fullyrða að fá mál sem til umfjöllunar koma á þessu þingi skipti jafnmiklu máli og þetta fyrir þróun íslensks efnahagslífs og samfélags og þar með fyrir velferð þjóðarinnar.
    Þegar Alþingi samþykkti núgildandi lög til þriggja ára um stjórn fiskveiða um áramótin 1987/1988 ákvað það jafnframt að hafinn skyldi undirbúningur að löggjöf er tæki við í ársbyrjun 1991. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I skipaði sjútvrh. nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar að loknum gildistíma laganna. Jafnframt var nefndinni falið að móta tillögur um breytingar á lögunum og gildistíma þeirra eftir því sem efni væri til. Átti nefndin m.a. að kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskstofnanna. Einnig skyldi hún athuga tilhögun veiðiheimilda, m.a. heimilda sem ekki eru bundnar við skip.
    Nefndin var skipuð 13. júlí 1988 eftir að tilnefningar höfðu borist frá þeim aðilum sem tilnefna áttu fulltrúa í nefndina. Nefndin hóf störf haustið 1988. Þar sem nefndin var mjög fjölmenn eða í allt 24 menn, var í upphafi starfsins ákveðið að nefndinni skyldi skipt í vinnuhópa og hver um sig hefði afmarkað
verksvið. Var settur verkefnastjóri fyrir hvern vinnuhóp og fékk hann starfsmenn til aðstoðar. Þessir hópar störfuðu sl. vetur og skiluðu áliti til nefndarinnar í maímánuði sl. Kom í ljós að breið samstaða var í öllum hópunum um mörg mikilvæg grundvallaratriði fiskveiðistjórnar. Ákvað nefndin því að fela formanni ásamt verkefnastjórum hópanna að móta tillögur er byggðu á niðurstöðum þeirra. Sömdu formaður og verkefnastjórar drög að frv. til laga um stjórn fiskveiða á sl. sumri og fylgdu þeim minnisatriði um ýmis álitamál sem þeir voru sammála um að leggja fyrir nefndina sem umræðugrundvöll. Þessi frumvarpsdrög voru síðan rædd á nokkrum fundum í ráðgjafarnefndinni.
    Í október og nóvember var gert hlé á störfum nefndarinnar, en á þeim tíma eru haldnir ársfundir flestra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi. Var stjórn fiskveiða og fyrirliggjandi frumvarpsdrög til ítarlegrar umfjöllunar hjá öllum þessum aðilum. Nefndin tók svo aftur til starfa um mánaðamótin nóvember og desember og hafði þá við að styðjast samþykktir fiskiþings og þinga sjómanna og útvegsmanna.
    Samkvæmt gildandi lögum átti nefndin að skila fyrsta áliti haustið 1989 og var að því stefnt í nefndinni að hún lyki þessum þætti starfsins og skilaði

frumvarpsdrögum fyrir síðustu áramót. Þetta reyndist ekki mögulegt þar sem nokkrir nefndarmanna óskuðu eftir frekari tíma til umfjöllunar um málið. Skilaði nefndin því stuttri skýrslu í desember en hélt áfram störfum eftir áramót. Hélt nefndin nokkra fundi í janúar og er skilabréf hennar dags. 26. jan. sl. Á síðustu stigum nefndarstarfsins voru taldar líkur á að samstaða væri um þann texta sem er að finna í frv. eins og það var upphaflega lagt fram. Þegar á átti að herða reyndust sjónarmið þó nokkuð ólík og skiluðu margir nefndarmenn bókunum eða séráliti. Þessar bókanir ganga þó mislangt. Hins vegar er óhætt að segja að um ýmis veigamikil atriði frv. hafi verið almenn samstaða í nefndinni. Frv. er flutt óbreytt í því formi sem nefndin skilaði því af sér og fylgdu því bókanir og sérálit einstakra nefndarmanna.
    Við meðferð málsins í Ed. hafa orðið nokkrar breytingar á einstökum þáttum frv. en í meginatriðum er frv. enn í fullu samræmi við tillögur nefndarinnar. Frv. er byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með fiskveiðistjórn undanfarinna ára. Það byggir því á þeirri meginhugsun að fiskveiðum skuli stjórnað með úthlutun aflaheimilda á sérhvert skip sem liggi fyrir í upphafi hvers veiðitímabils. Í frv. eru hins vegar lagðar til viðamiklar breytingar á einstökum þáttum fiskveiðistjórnunarinnar og mun ég víkja að meginatriðum þeirra.
    Á undanförnum árum hafa reglur um stjórn fiskveiða ávallt gilt til skamms tíma í senn. Á árunum 1984 og 1985 giltu lög til eins árs hvort árið fyrir sig. Síðan tóku við lög er höfðu tveggja ára gildistíma og nú gilda lög frá ársbyrjun 1988 með þriggja ára gildistíma. Alþingi er því að fjalla í fimmta skipti á rúmlega sex ára tímabili um reglur um stjórn fiskveiða. Það liggur í augum uppi hvílíkt óhagræði það er þeim er við sjávarútveg starfa að búa við reglur sem hafa svo skamman gildistíma. Þeir þurfa að taka ákvarðanir um fjárfestingu og rekstur er horfir til margra ára. Það er alveg ljóst að forsendur sem slíkar ákvarðanir eru reistar á geta ekki verið traustar þegar jafnmikil óvissa ríkir um lögskipun fiskveiðistjórnar og verið hefur að undanförnu.
    Í frv. því sem hér er til umræðu er gert ráð fyrir að lög um stjórn fiskveiða verði ótímabundin. Er hafið yfir allan vafa að langur gildistími er forsenda þess að það hagræði náist sem stefnt er að með frv., t.d. varðandi stærð flotans. Ótímabundin lög er hið almenna form löggjafar á Íslandi og þarfnast í sjálfu sér ekki neins sérstaks rökstuðnings. Með því er sköpuð meiri festa og aðilum skapaðar forsendur til að vinna eftir. Alþingi ætti þó ekki með þessu á nokkurn hátt að binda hendur sínar til frambúðar. Alþingi er með þessu á engan hátt að veita einstökum útgerðum óafturkallanlegt og stjórnarskrárvarið forræði yfir fiskstofnunum eins og skýrt kemur fram í 1. gr. frv. Það hlýtur að vera ákvörðun Alþingis á hverjum tíma hvaða skipulag teljist best henta til að nýta fiskstofnana með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Enda þótt festa sé nauðsynleg í þessum efnum er það jafnmikilvægt að menn haldi vöku sinni og leiti

stöðugt hagkvæmustu leiða við stjórn fiskveiða. Á grundvelli þeirrar hugsunar var bætt við frv. við meðferð þess í Ed. ákvæði um hagkvæmnisathugun og endurskoðun laganna á næstu tveimur árum.
    Lög um stjórn fiskveiða hafa á undanförnum árum þróast til aukinnar lögbindingar. Fyrstu lögin sem giltu fyrir árið 1984 voru rammalög sem fólu ráðherra mjög víðtækt vald til að taka ákvarðanir um einstaka þætti fiskveiðistjórnarinnar með reglugerðum. Undanfarin ár hafa ávallt fleiri og fleiri atriði verið ákveðin með lögum og heimildir ráðherra takmarkaðar að sama skapi. Engu að síður er ráðherra enn ætlað allvíðtækt valdsvið í gildandi lögum. Með frv. þessu er lagt til að áfram verði haldið á braut aukinna lögbindinga og þeim atriðum sem löggjafinn ákveður fjölgað og reynt að takmarka þau atriði sem ráðherra eru falin til ákvörðunar eins og kostur er. Hins vegar verður ekki hjá því komist varðandi ýmis mikilvæg atriði, svo sem ákvörðun heildarafla hverju sinni sem og smærri framkvæmdaratriði.
    Á undanförnum árum hafa gilt mjög strangar reglur varðandi endurnýjun fiskiskipaflotans. Aðgangur að fiskiskipaflotanum hefur í raun verið lokaður því einungis hefur verið heimilt að taka nýtt fiskiskip í notkun að sambærilegt skip hafi jafnframt horfið úr rekstri. Fyrir þessu eru augljós rök. Fiskiskipaflotinn er of stór miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna og því nauðsynlegt að sporna gegn frekari stækkun hans. Með frv. þessu er lagt til að þessar meginreglur verði lögfestar áfram og framvegis verði þær einnig látnar gilda um báta undir 6 brl. að stærð að því er veiðar í atvinnuskyni varðar. Í núgildandi lögum eru hömlur á fjölgun báta á bilinu 6--10 brl. Hins vegar eru fjölgun minni báta engin takmörk sett í dag. Ástæða þess var fyrst og fremst sú að menn sáu í hendi sér að erfitt yrði í framkvæmd að leyfisbinda allar veiðar án tillits til stærðar báta, en slík leyfisbinding er forsenda þess að unnt sé að takmarka fjölgun báta af þessum stærðarflokki. Smábátum hefur hins vegar haldið áfram að fjölga og komið hefur í ljós að mælingareglur eru svo rúmar að unnt er að hanna afkastamikil fiskiskip sem mælast innan við 6 brl. Nú er svo komið að ekki verður lengur vikist undan því að taka á þessu máli þrátt fyrir alla framkvæmdarörðugleika.
    Í frv. er lagt til að allar veiðar smábáta í atvinnuskyni verði framvegis bundnar sérstökum veiðileyfum á sama hátt og veiðar báta 6--10 brl. hafa verið leyfisbundnar undanfarin tvö ár. Einungis er gert ráð fyrir að hægt verði að fá leyfi til veiða í atvinnuskyni fyrir báta sem beðið hefur verið um skráningu á hjá Siglingamálastofnun innan mánaðar frá gildistöku laga þessara, en þó er gefið þriggja mánaða svigrúm til að ljúka smíði á þeim bátum sem hafin er. Ekki er með frv. ætlunin að takmarka á nokkurn hátt fjölgun skemmtibáta eða frelsi manna til að renna fyrir fisk sér til gamans. Til að unnt sé að koma við banni við fjölgun atvinnumanna í greininni er því nauðsynlegt að um þessar tómstundaveiðar séu settar ákveðnar reglur og eru tillögur þar að lútandi í frv.

    Ég hef gerst nokkuð langorður um þær tillögur frv. að óheimilt verði að fjölga fiskiskipum og einungis verði heimilt að veita nýju eða nýkeyptu skipi veiðileyfi ef annað og sambærilegt hverfi úr flotanum. Ég tel hins vegar að ef þær meginreglur sem lagt er til að lögbundnar verði í frv. ná að festast sessi ætti þegar fram líða stundir að vera óhætt að afnema allar reglur um endurnýjun fiskiskipaflotans. Reglur frv. munu eflaust hafa þau áhrif þegar fram í sækir að menn sjái sér ekki hag í því að auka afkastagetu skipa sinna því það leiðir ekki til aukins afla. Stærð fiskiskipaflotans mun því þegar fram líða stundir aðlagast afrakstursgetu fiskstofna ef fiskveiðistjórn á borð við þá sem frv. þetta gerir ráð fyrir verður lögleidd. Það ætti því að vera óhætt þegar frá líður að afnema 5. gr. frv.
    Með frv. er lagt til að veruleg einföldun verði gerð varðandi útgáfu veiðileyfa. Samkvæmt gildandi lögum eru botnfiskveiðar allra skipa stærri en 6 brl. háðar útgáfu sérstakra veiðileyfa, svo og þorskfisknetaveiðar báta undir 6 brl. Veiðar á fjölmörgum öðrum fisktegundum eru háðar sérstökum leyfum og er lögbundið að slík leyfi þurfi til veiða á rækju, humri, skelfisk, síld og loðnu.
    Í frv. er gert ráð fyrir að öll fiskiskip sem leyfi fá til veiða í atvinnuskyni fái eitt almennt veiðileyfi fyrir viðkomandi fiskveiðiár. Þetta leyfi veitir heimild til veiða á öllum þeim tegundum sjávardýra sem ekki sæta ákvæðum um leyfilegan heildarafla. Til veiða á þeim tegundum sem sæta aflahámarki þarf viðkomandi skip auk veiðileyfis skilríki um aflamark í viðkomandi tegund. Þrátt fyrir þessa almennu stefnumörkun varðandi útgáfu veiðileyfa þykir nauðsynlegt að hafa nokkuð víðtæka heimild til útgáfu sérveiðileyfa ef sérstaklega stendur á. Hér er átt við leyfi til dragnótaveiða og leyfi til veiða í tilraunaskyni svo dæmi séu nefnd. Þar sem gert er ráð fyrir að tekin verði upp samræmd endurnýjunarákvæði fyrir öll fiskiskip þykir nauðsynlegt að gera skil á milli þeirra sem stunda veiðar í atvinnuskyni og þeirra sem stunda veiðar í frístundum, eins og áður er vikið að.
    Með frv. er lagt til að öllum fiskiskipum sem fá leyfi til veiða í atvinnuskyni verði úthlutað fastri aflahlutdeild í leyfilegum heildarafla. Lagt er til að sóknarmarkið verði afnumið og sérreglum um veiðar smábáta fækkað verulega frá því sem nú er. Sóknarmarkið var tekið upp á sínum tíma til að koma til móts vð sjónarmið þeirra sem höfðu laka aflareynslu á svokölluðum viðmiðunarárum. Reglur um það hafa tekið nokkrum breytingum frá því að þær voru fyrst settar. Á árunum 1986 og 1987 voru þessar reglur það rúmar að útgerðir flestra togara völdu þann kost jafnvel fyrir þau skip sem höfðu bestu aflareynsluna. Sá möguleiki, sem hefur falist í sóknarmarkinu, til að auka afla skips á kostnað annarra skipa í flotanum hefur án efa verið ein meginástæða þess að ýmsir útvegsmenn hafa á undanförnum árum séð sér hag í því að fjárfesta í sem stærstum og afkastamestum skipum. Sóknarmarksskipin gátu fram til ársins 1988 aukið

aflamark sitt á kostnað þeirra skipa sem aflamark völdu. Enn þann dag í dag veldur val á sóknarmarki því að aflaheimildir færast til frambúðar milli skipa. Þessi tilflutningur hefur valdið nokkurri óánægju vegna þess að sumir telja að misvægis hafi gætt milli landshluta varðandi ávinning sóknarmarksskipa. Fullvíst má telja að reglur um sóknarmark hafi átt mestan þátt í því að sú hagkvæmni sem hægt er að ná með kvótakerfinu hefur ekki náðst að fullu. Auk þess að hvetja til óþarfa fjárfestinga í fiskiskipum hefur sóknarmarkið valdið mikilli óvissu um heildarafla og verið helsti skekkjuvaldurinn í spá um heildaraflamagn.
    Í ákvæði I, II og IV til bráðabirgða er að finna ákvæði um úthlutun aflaheimilda. Fyrir skip 10 brl. og stærri er lagt til að aflamark í botnfiski og úthafsrækju verði byggt á úthlutuðu aflamarki eins og það var í upphafi þessa árs. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um að ávinningur vegna sóknarmarks á árinu 1990 hafi ekki áhrif á úthlutað aflamark verði frv. þetta að lögum. Lagt er til að reikna verði meðalaflamark í þorskígildum í hverjum sóknarmarksflokki fyrir sig. Við þá útreikninga verði lagt til grundvallar aflamark í botnfiski og úthafsrækju. Þau skip sem hafa lægra aflamark en sem nemur meðaltali síns flokks fái ákveðnar bætur er nemi 40% af mismun milli aflamarks viðkomandi skips og meðalaflamarks skipa í sama flokki. Ljóst er að þessar bætur munu ekki að fullu eyða þeim sveigjanleika sem sóknarmarkið hefur valdið, sérstaklega hvað þorsk varðar. Aflamark allra skipa verður því hækkað með sama hætti og mundi gerast ef heildarafli væri aukinn. Með þessari tillögu um úthlutun aflaheimilda í upphafi er reynt að koma til móts við sjónarmið þeirra sem hafa staðið í nýfjárfestingum án þess þó að líta fram hjá hagsmunum þeirra sem hafa þokkalega aflareynslu fyrir. Aflahlutdeild skipa í síld, loðnu, skelfiski, humri, innfjarðarrækju og hörpuskel yrði samkvæmt ákvæði IV til bráðabirgða leidd af hlutdeild viðkomandi fiskiskips í úthlutuðum aflaheimildum á því veiðitímabili er síðast lauk áður en lögin koma til framkvæmda.
    Með gildandi lögum voru í fyrsta sinn settar skorður við fjölgun báta 6--10 brl. og aflahámark sett á netaveiðar allra báta undir 10 brl. Þrátt fyrir skorður á veiðar þessara báta hefur hlutdeild þeirra í heildarafla haldið áfram að aukast. Þá hefur bátum undir 6 brl. fjölgað og byggðir hafa verið bátar sem mælast undir 6 brl. en eru afkastameiri en mörg skip yfir 10 brl., sem sæta stífum aflatakmörkunum. Í frv. er lagt til að bátum minni en 10 brl. sem stunda veiðar í atvinnuskyni skuli úthlutað aflamarki er byggi á aflareynslu áranna 1987--1989, en byggt verði á meðalafla tveggja bestu áranna. Sérreglur eru þó um úthlutun og framsal aflamarks til báta sem bætast í flotann eftir síðustu áramót og hafa því ekki aflareynslu. Gert er ráð fyrir að sömu reglur gildi um aflamark smábátanna og gilda um skip stærri en 10 brl. Þá er lagt til að bátum minni en 6 brl. gefist

kostur á að stunda veiðar með línu og handfæri án aflahámarks en með dagatakmörkunum með hliðstæðum hætti og í gildandi lögum. Sett eru inn ákvæði sem eiga að tryggja að hlutur þeirra báta sem þann kost velja aukist ekki verulega umfram það sem nú er. Þá er lagt til að skipuð verði sérstök samstarfsnefnd til að gera tillögur um veiðiheimildir þeirra báta sem ekki hafa fulla aflareynslu á því tímabili sem lagt er til grundvallar.
    Þess misskilnings hefur gætt að þeim aðilum sem hafa stundað veiðar hluta úr ári í frístundum sínum gefist ekki kostur á öðru en tómstundaveiðum samkvæmt frv. þessu. Þessum aðilum gefst kostur á atvinnuveiðileyfi með aflamarki er byggir á eigin veiðireynslu. Tómstundaveiðarnar eru eingöngu ætlaðar fyrir þá sem ekki hafa aflareynslu.
    Gerð er tillaga um að fiskveiðiárið fyrir botnfisk hefjist 1. sept. ár hvert og ljúki 31. ágúst ári seinna. Hér er á ferðinni róttæk breyting frá gildandi lögum, en veiðiheimildum í botnfiski er nú úthlutað fyrir hvert almanaksár. Til að gera þessa framkvæmd mögulega þurfa tillögur Hafrannsóknastofnunar að vera tilbúnar fyrir 1. ágúst ár hvert. Kostir þessa fyrirkomulags eru allmargir. Flest veiðitímabil og vertíðir falla innan þessa tímabils. Slíkt fyrirkomulag getur haft jákvæð áhrif á afkomu fiskvinnslunnar ef það leiðir til þess að dregið verður úr aflatoppum yfir sumarmánuðina, en sá afli hefur jafnan nýst illa til vinnslu. Þá er mikilvægt út frá allri áætlanagerð um þróun og framvindu efnahagsmála að upplýsingar um leyfilegan heildarafla liggi fyrir snemma á hausti. Ekki er ólíklegt að þetta fyrirkomulag leiði til minni atvinnu yfir sumarmánuðina og getur þess vegna haft slæmar afleiðingar fyrir sumarvinnufólk, sérstaklega námsmenn. Þá skapar þetta fyrirkomulag einnig vandamál hvað varðar úthlutun veiðiheimilda í upphafi, eins og gerð er grein fyrir í ákvæði til bráðabirgða III.
    Í frv. þessu er tekið upp ákvæði gildandi laga um framsal aflamarks innan hvers árs. Þá er gerð sú breyting að séu minna en 25% af aflamarki skips ekki nýtt með veiðum skipsins sjálfs tvö fiskveiðiár í röð fellur aflahlutdeild þess niður. Með þessu er komið til móts við þau sjónarmið að óeðlilegt sé að skip liggi óhreyfð árum saman við bryggju til þess eins að framselja veiðiheimildir. Veiðiheimildirnar falla endanlega niður við upphaf næsta fiskveiðiárs og koma þær til hækkunar á veiðiheimildum annarra skipa. Þá er lagt til að ekki sé heimilt án samþykkis ráðherra að flytja aflamark til skips sem ekki hefur fyrir aflahlutdeild í þeirri tegund sem flutt er.
    Augljóst er að aukin hagkvæmni í fiskiskipaflotanum næst ekki nema með því að veita víðtækar heimildir til að færa aflaheimildir varanlega milli skipa. Með því móti einu geta menn hagrætt og dregið úr sóknarkostnaði við veiðar. Á þann hátt gefst aflamönnum kostur á að njóta sín því að sjálfsögðu munu
aflaheimildir leita til þeirra í framtíðinni sem aflanum ná með minnstum tilkostnaði. Það er jafnframt eina

leiðin til að sameina aflaheimildir skipa, fækka fiskiskipum og minnka þar með afkastagetu flotans. Framseljanlegar veiðiheimildir eru því grundvallaratriði í þessum tillögum um fiskveiðistjórn. Þær eru sá aflvaki sem stuðlar að aðlögun fiskiskipastólsins að afrakstursgetu fiskstofnanna.
    Nauðsynlegt er þó að menn geri sér ljóst frá upphafi að í fyrstu munu þessum framsalsheimildum fylgja vandamál. Athygli skal vakin á því að þrátt fyrir rúmar framsalsheimildir er óheimilt að safna á skip aflaheimildum sem bersýnilega eru umfram veiðigetu þess. Þá er framsal bundið því skilyrði að það skip sem framselt er til hafi fyrir aflahlutdeild í þeirri tegund sem framseld er. Þetta skilyrði er þó undanþægt. Með þessu er opnaður möguleiki fyrir stjórnvöld til að hafa áhrif á þróun ýmissa sérveiða. Óheftur flutningur veiðiheimilda getur valdið röskun í fiskiskipaflotanum innbyrðis, t.d. milli báta og togara, og getur jafnframt skapað staðbundin vandamál í byggðarlögum sem byggja alfarið á sjávarútvegi.
    Síðara atriðið er þó í raun alls ekki bundið við framseljanleika veiðiheimilda. Sala skipa úr byggðarlagi eða stöðvun undirstöðufyrirtækja í sjávarútvegi vegna rekstrarerfiðleika er raunar mun líklegri til að valda staðbundnum atvinnuvandamálum en framseljanleiki aflaheimilda.
    Ég tel miklu skipta að menn takist á við þennan vanda af raunsæi. Sumir vilja bregðast við með því að hefta framsal aflaheimilda verulega og binda þær við tiltekin byggðarlög með ýmsum hætti. Hætt er við að með því væri þróun og framvinda stöðvuð og hagkvæmni aflamarkskerfisins að litlu gerð. Aðrir vilja láta skeika að sköpuðu. Þeir telja að hagkvæmnin ein eigi að ráða ferðinni og engin ástæða sé til aðgerða til að vernda hagsmuni fólks í tilteknum byggðarlögum. Slík sjónarmið eru að mínu mati alls ekki ásættanleg. Óhjákvæmilegt er að taka tillit til þeirra byggðarlaga sem eiga allt sitt undir sjávarútvegi.
    Í frv. er ekki gert ráð fyrir bindingu aflaheimilda við byggðarlög eða landsvæði. Þegar frv. var lagt fram var gert ráð fyrir tilkynningarskyldu þeirra aðila sem hyggjast selja fiskiskip eða hluta af sínum veiðiheimildum varanlega. Var það gert til að skapa umþóttunartíma í skipasölu og gefa heimaaðilum færi á að bjóða í þau skip sem til sölu kynnu að vera.
    Við meðferð málsins í Ed. varð það ofan á að koma til móts við þessi sjónarmið með því að veita sveitarfélagi forkaupsrétt á skipi við sölu þess úr byggðarlagi í stað tilkynningarskyldunnar. Gefst sveitarstjórn kostur á að ganga inn í kauptilboð í fjórar vikur frá því að henni berst boð um forkaupsréttinn. Sveitarstjórn sem neytir forkaupsréttar ber síðan að gefa
útgerðaraðilum í byggðarlaginu kost á að kaupa skipið og skal leita opinberlega tilboða í það. Varðandi áhrif skipasölu á atvinnulíf einstakra byggðarlaga vil ég einnig vekja athygli á að gert er ráð fyrir að annað meginhlutverk Hagræðingarsjóðs verði að koma til aðstoðar ef byggðarlög standa höllum fæti af þessum ástæðum.

    Þess skal hér sérstaklega getið að fram til þessa hefur ekki verið heimilt að framselja varanlega hluta aflahlutdeildar nema skip væri afmáð af skipaskrá. Þeir sem veðrétt áttu í skipinu þurftu ekki að óttast að skipið lækkaði í verði vegna flutnings aflahlutdeildar því afskráning skips var háð því skilyrði að skipið væri með öllu veðbandalaust.
    Verði frv. þetta að lögum verður framvegis nauðsynlegt fyrir veðhafa sem veðrétt öðlast í skipi eftir að lögin koma til framkvæmda að tryggja með sérstökum hætti að veð þeirra rýrni ekki vegna framsals aflahlutdeildar skipsins. Hins vegar er í ákvæði til bráðabirgða IV gert ráð fyrir að óheimilt sé að flytja hluta aflahlutdeildar af skipi nema fyrir liggi samþykki veðhafa sem veð eiga í skipinu þegar lögin koma til framkvæmda.
    Í ráðgjafarnefndinni náðist samkomulag um að álag vegna útflutnings á þorski og ýsu verði hækkað úr 15% í 20%, en álag vegna útflutnings á öðrum tegundum verði óbreytt frá því sem nú er eða 15%. Þá er lagt til að skipuð verði nefnd er kanni hvort, og þá með hvaða hætti, mögulegt sé að vinna að vigtun hérlendis á afla sem fluttur er óunninn úr landi. Einnig er lagt til að framkvæmd vigtunar afla verði samræmd og eftirlit með henni eflt. Gerð er tillaga um að afli verði ávallt veginn á löndunarstað og hafnaryfirvöldum fengin yfirumsjón með vigtunarmálum og söfnun upplýsinga um landað aflamagn á hverjum tíma.
    Með hliðsjón af minnkandi afla er hinn mikli útflutningur á óunnum fiski vaxandi áhyggjuefni. Allir eru sammála um að okkur beri að nýta ferskfiskmarkaðina í Evrópu eftir því sem hagkvæmt er á hverjum tíma. Með því að stilla framboði í hóf og gæta þess að senda aðeins úrvalsfisk fáum við á þessum mörkuðum hærra verð en með nokkru öðru móti. Menn greinir hins vegar á um hvaða aðferð skuli viðhöfð við að stjórna framboðinu á markaðina. Þrjár leiðir hafa einkum verið ræddar í þessu sambandi og eru raunar tvær þeirra samtímis í notkun nú. Þessar leiðir eru í fyrsta lagi skömmtun, í öðru lagi kvótaálag og í þriðja lagi skylda til sölu á öllum afla innan lands. Kvótaálagið er upphaflega tilkomið þannig að þau skip sem stundað höfðu siglingar á viðmiðunarárunum 1981--1983 þóttu ekki fá sanngjarnan hlut í kvótakerfinu nema tillit væri til þess tekið að þau hefðu verið frá veiðum vegna siglinganna. Var það leiðrétt með því að bæta 25% álagi ofan á þann afla þessara skipa sem landað var erlendis og láta hann þannig reiknaðan vera viðmiðun við ákvörðun aflamarks. Á hinn bóginn var svo ákveðið að sá afli sem seldur yrði erlendis skyldi á sama hátt reiknaður með 25% álagi og hið nýja skipulag yrði þannig í raun hlutlaust gagnvart ísfisksölum erlendis.
    Í ljósi þessarar forsögu hef ég talið eðlilegt að hækka ísfiskálagið í kvótanum úr 15% og færa það aftur í upprunalegt horf eða 25%. Það er fullljóst að þetta álag er hluti af okkar fiskveiðistjórnunarkerfi og brýtur ekki á nokkurn hátt í bága við alþjóðlegar

skuldbindingar. Þetta verður enn ótvíræðara þegar forsaga málsins er höfð í huga. Með hækkun álagsins minnkar áhugi á að selja fisk óunninn úr landi og þar með þörfin á að grípa samhliða til annarra aðgerða til að takmarka útflutninginn.
    Virðulegi forseti. Ég hef í stuttu máli gert hér grein fyrir helstu aðalatriðum þessa stóra máls. Hér er hins vegar um tiltölulega einfalt frv. að ræða sem er aðeins í 23 greinum. Verður það að teljast einsdæmi um jafnmikilvægt mál þótt mörg veigamikil atriði þess komi fram í ákvæðum I--VI til bráðabirgða. Frv. hefur þegar hlotið ítarlega umfjöllun á sameiginlegum fundum sjútvn. beggja deilda.
    Ég vil að lokum leggja á það áherslu að mjög mikilvægt er að Alþingi takist að ljúka afgreiðslu þessa máls fyrir þinglok. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.