Stjórn fiskveiða
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Það hefur komið hér fram að stefnt sé að því að ljúka þingstörfum á laugardag. Í dag er fimmtudagur og þetta frv. hér kemur núna til 1. umr. á tólfta tímanum á þessum Drottins degi. Eldhúsdagsumræður fara fram í kvöld og þó hæstv. sjútvrh. segi að þetta frv. sé einfalt, það getur verið að það sé einfalt í hans huga en í mínum huga er þetta ekki einfalt frv. Það fer ekki eftir fjölda greina, jafnvel mættu greinar frv. vera fleiri til þess að gera ýmsa hluti skýrari en þeir eru í frv. Því er ég honum ekki sammála í þessu sem og fjöldamörgum öðrum atriðum í sambandi við þetta mál. Þó að það hafi verið haldnir, að mér er sagt, sjö fundir sameiginlega í sjútvn. deildanna þá voru þau fundahöld fyrst og fremst um það að hlusta á fulltrúa frá hagsmunasamtökum, spyrja þá nokkurra spurninga en ekkert hefur verið farið sameiginlega í efni þessa frv. Það allt er eftir. Ég spyr hæstv. sjútvrh. og í raun og veru alla þingdeildarmenn hvort þeir telji virkilega að þetta stóra og mikla mál, sem er núna fyrst hér til umræðu, geti verið afgreitt á nokkrum klukkutímum, að það eigi að vera búið á morgun að afgreiða þetta mál þegar ekki er einu sinni hægt að halda nefndarfundi vegna annarra funda á Alþingi.
    Þetta mál hefur verið rætt í þingflokki Sjálfstfl. mjög ítarlega. Ég spurðist þar fyrir um það í gær hvort menn vildu ganga inn á að lofa því að afgreiða þetta mikilvæga mál á sérstöku þingi sem yrði þá boðað fyrr en venja er til og taka fyrir bara þetta eina mál. Það var einróma álit þingmanna Sjálfstfl. að nauðsynlegt væri að vinna betur að þessu máli og afgreiða það t.d. í septembermánuði. Ætti það að fá staðist varðandi gildistöku laganna. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Telur hann ekki eðlilegra að slík vinnubrögð væru viðhöfð og reynt að skapa meiri og betri frið um þetta mikilvæga mál en verið hefur?
    Þetta mál fékk nauman meiri hluta í Ed. eins og allir vita og það er eftirtektarvert og vekur ekki traust þjóðarinnar á þingmönnum að þeir sem
harðast hafa barist gegn þessari stefnu eru nú allt í einu orðnir stuðningsmenn. Ég hef verið bæði í stjórn og stjórnarandstöðu en ég hef haft alveg sömu skoðun á þessum málum hvort sem ég hef verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. En hvað er það sem er að gerast hjá þingmönnum almennt? Er þetta ekki einn þátturinn í því að sveiflast til og frá í þessum málum eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu? Ég held það sé ekki til harkalegri og skýrari málsmeðferð en flokkssamþykkt Borgfl. í andstöðu við þessa stefnu. Ég spyr Borgfl.: Hvað hefur breyst? Hann tók ekki lítið upp í sig, formaður Borgfl. og núv. umhvrh., gegn því frv. sem flutt var hér síðast og hefur verið gildandi nú á þriðja ár. Hver er breytingin? Af hverju verða þessar breytingar? Fulltrúar Alþb., sérstaklega hér í þessari hv. þingdeild, tóku mjög ákveðið á þessu máli síðast og höfðu mjög ákveðnar skoðanir á þessum málum. Það reynir því á þá hvort þeir hafa sveiflast til eins og lauf í vindi í þessum efnum, hvort

ekki hafi verið nein meining á bak við það sem þeir sögðu þá. Eða er formaður Alþb. búinn að kúga þá til hlýðni þannig að hann geti setið nokkrar vikur til viðbótar í ráðherrastóli?
    Á sama tíma og frelsisalda fer um heiminn og öfl kúgunar sem hafa ráðið í fjölmörgum ríkjum eru að víkja úr vegi fyrir frelsi þá erum við að taka upp enn þá harðari skömmtun. Ég á ekki við það að hér sé verið að taka upp aðferðir við að kúga menn eða taka af þeim öll réttindi, eins og hefur verið hjá mörgum þessara þjóða, en hitt fer ekki á milli mála að það sem við höfum verið að fordæma á undanförnum árum, það sem við höfum verið að ganga út úr og stefna í frjálsræðisátt, frá því er nú verið að ganga með þessari miðstýringu allri í atvinnumálum þjóðarinnar, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði.
    Við höfðum hér gjaldeyris- og innflutningshöft. Það varð að bíða tímunum saman eftir því að fá smá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi og krjúpa fyrir háum herrum hér í borginni. Verslun færðist til Reykjavíkur utan af landi, landsbyggðin hefur aldrei borið sitt barr eftir þá tíma. Hér mátti ekki selja útvarpstæki einu sinni nema í einkasölu. Hér mátti ekki selja bíla nema í einkasölu. Meira að segja ráðherrar voru uppteknir því þá komu bílar í kössum, aðaltími fjármálaráðherra á þeim árum fór í það að selja almenningi kassa utan af bílum. Hver talar núna um að innleiða þetta? Ekki nokkur einasti maður. Ekki einu sinni allra íhaldssömustu öfl í þjóðfélaginu. Ég minnist þess að það gekk svo langt hér, var rifist ofsalega eftir að ég kom inn í þessa virðulegu stofnun um þá ákvörðun að leggja niður mjólkur- og brauðbúðir í landinu. Það var heldur betur sprett úr spori hér innan þessara sala þá. Átti að gera afgreiðslustúlkur í brauðbúðum atvinnulausar og fara með mjólkina inn í matvöruverslun? Hér voru menn sem hneyksluðust á þessu tímunum saman. Hver talar núna um það að stofna sérstakar mjólkurbúðir? Nú þykir sjálfsagt að hver og einn taki mjólkina í matvöruverslunum hvort sem það eru kjörbúðir eða minni búðir. Þannig hefur breytingin orðið á fjölmörgum sviðum í frjálsræðisátt, eins og vera ber hjá framsækinni þjóð.
    Í 1100 ár hafa Íslendingar sótt sjóinn og gert það án þess að hafa nokkra fræðinga. Þá voru ekki til fiskihagfræðingar sem reiknuðu út hvort það borgaði sig að fara þessa sjóferðina eða hina. Og þetta var gert öll þessi ár. Þar sem við vorum ósjálfstæð þjóð komu útlendingar inn í fiskveiðilandhelgina. Þeir fiskuðu mikið, þeir fiskuðu miklu meira en Íslendingar sjálfir. Við unnum stórsigur og lokatakmarkið í landhelgismálinu, útfærslan í 200 mílur og að koma öllum útlendingum út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu, var stórfellt átak. Aðeins 3--4 árum áður en þetta gerðist fiskuðu útlendingar hér 55% af aflanum. Ef ég man rétt var það árið 1972, svo breytingin varð ör og mikil. Mér er það alveg ljóst að við vorum á síðasta snúning með að taka þessar ákvarðanir vegna fiskstofnanna í hafinu umhverfis landið. Við losnuðum við útlendingana, við tókum upp stjórnun veiða, við ákváðum að nýta sjálfir þessa auðlind og við deilum

ekki um það að það verður að vera stjórnun á fiskveiðum í landinu. En við deilum um það að taka stjórnunina upp með þeim hætti að æðsta stjórnvald í landinu ákveði hverju sinni hve mikið og meira að segja af hverri tegund hver bátkoppur má veiða. Þetta er það sem mér finnst ógeðfellt í alla staði.
    Mér finnst rétt að bera nokkuð saman það sem er að gerast hér og kröfurnar sem eru gerðar til íslensks sjávarútvegs, sem eru að mínum dómi að verulegu leyti afleiðing þess að veita mönnum þau forréttindi að selja fiskinn úr sjónum. Þær hafa orðið til þess að ákveðnir aðilar í þessu þjóðfélagi hafa farið fram á það að setja auðlindaskatt á sjávarútveginn. Áður en ég kem að því finnst mér rétt að minna á að á sama tíma og hér er talað um stórfelldan skatt á sjávarútveg eru aðrar þjóðir, bæði hér nálægt okkur og þjóðir í Evrópu, að efla sjávarútveg sinn með háum styrkjum. Norges Fiskarlag, sem er hagsmunasamtök útgerðar og sjómanna í Noregi, fór fram á á 2468 millj. nkr. í opinberan stuðning við sjávarútveg sinn á þessu ári. Samkvæmt tillögunum áttu 2022 millj. að fara til þorskveiða og 445,3 millj. til síldveiða. Krafa Norges
Fiskarlag var 850 millj. kr. hærri upphæð en þeir fengu á sl. ári en þá var opinber stuðningur við þá 920 millj. nkr. Tilboð stjórnvalda hljóðaði í fyrstu upp á 550 millj. nkr. en þau hækkuðu það síðan upp í 1125 millj.
    Spánverjar eru nýlega til þess að gera komnir inn í Efnahagsbandalagið. Framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins hefur ákveðið að verja 11,8 milljörðum íslenskra króna til fiskvinnslufyrirtækja á Kanaríeyjum og í spænsku borgunum Ceuta og Melilla sem eru á norðurströnd Afríku á tímabilinu 1990--1993. Hlutdeild bandalagsins í fjárfestingum í fiskiðnaðinum verður yfirleitt um 30% en í sumum tilfellum allt að 50%. Mikill áhugi er á Kanaríeyjum á fullri aðlögun að bandalaginu því að það mundi gera eyjaskeggjum kleift að sækja enn hærri upphæðir í sjóði bandalagsins.
    Svo langar mig að nefna enn þá eitt til viðbótar en það eru byggðaaðgerðir í Stóra-Bretlandi. Þar hefur verið við stjórn járnfrúin svokallaða, sem oft hefur borið á góma, bæði hér í þingsölum og í blöðum. Vinstri menn og þar með taldir framsóknarmenn hafa talið þessa járnfrú vera afskaplega ómanneskjulega og ekki taka nóg tillit til mannlegra sjónarmiða. Nú skulum við aðeins bera saman hvað hefur gerst í því þjóðfélagi undir stjórn járnfrúarinnar og í þessu þjóðfélagi sem hefur notið þeirrar miklu gæfu að hafa framsóknarmenn við völd og í forustu.
    Aðalþættir breskra byggðaaðgerða eru byggðaþróunarstyrkurinn og sérstök aðstoð í byggðamálum. Fyrir utan þessar aðgerðir er boðið upp á ódýrt verksmiðjuhúsnæði í eigu ríkisins auk fjölmargra minni háttar aðgerða sem m.a. eiga að stuðla að aðlögun vinnuafls og styðja við heimaaðila vegna opinberra útboða. Byggðaþróunarstyrkurinn er verkefnabundinn styrkur sem einungis er hægt að fá á þróunarsvæðunum svonefndu þar í landi. Styrkurinn getur verið í formi fjárfestingarstyrks eða styrks vegna

nýrra starfa. Fer það eftir því hvort er hagstæðara fyrir umsækjandann. Fjárfestingarstyrkurinn nemur 15% af viðurkenndum fjárfestingarkostnaði en með efri mörk sem eru um 900 þús. ísl. kr. styrkur á hvert starf. Þegar um er að ræða verkefni sem eru vinnuaflsfrek er heimilt að greiða starfsstyrk sem nemur um 270 þús. ísl. kr. á hvert nýtt starf í stað fjárfestingarstyrksins. Lítil fyrirtæki þar sem færri en 200 manns starfa eru ekki háð 10 þús. sterlingspunda þakinu nema kostnaður vegna verkefnisins nemi um eða yfir 45 millj. kr.
    Hinn meginþáttur breskra byggðaaðgerða, sérstök aðstoð í byggðamálum, er venjulega fjárfestingarstyrkir, þjálfunarstyrkir, áhættutaka vegna gengismunar vegna lána á Evrópumarkaði. Slík aðstoð er sértæk og byggir á verkefnum. Hún hækkar hámarkið sem hægt er að fá í venjulegum breskum byggðaaðgerðum upp að hámarksþökum sem Evrópunefndin ákveður. Á hinn bóginn er sú sérstaka aðstoð sem í boði er, það lágmark sem nauðsynlegt er, til að verkefnum sé hrint í framkvæmd. Sérstök aðstoð er veitt á þróunarsvæðum og millisvæðum. Styrkir eru veittir vegna allra iðnaðargreina og flestra þjónustugreina. Fjárhagsárið 1985--1986 námu þessir byggðaþróunarstyrkir um 32,2 milljörðum en sérstök aðstoð nam um 19,1 milljarði ísl. kr. í báðum tilfellum. Ef upphæðin er færð
hlutfallslega miðað við íbúafjölda á Íslandi þá nemur upphæð styrkja 224 millj. kr.
    Á undanförnum árum hefur aukist mjög útflutningur á óunnum fiski, svokölluðum gámafiski og ísfiski í heilum förmum. Hann er ýmist fluttur á markað í gámum, með vöruflutningaskipum eða þá fiskiskipum sem sigla beint með aflann. Mest af þessum fiski hefur verið flutt til Humber-svæðisins annars vegar og til Elbu-svæðisins í Þýskalandi hins vegar. Þar er fiskurinn seldur á uppboðsmörkuðum sem hafa gefið sjómönnum og útgerð mjög hátt verð ef framboðið fer ekki úr böndunum. Aðstæður á þessum tveimur mörkuðum eru nokkuð mismunandi. Þýskalandi hefur lengið verið þjónað með siglingum stórra togara sem einkum hafa selt þar ísaðan karfa en einnig aðrar fisktegundir. Á Humber-svæðinu hrundi allur sjávarútvegur þegar við Íslendingar náðum að stöðva veiðar Englendinga hér við land en samdráttur í veiðum á öðrum fjarlægum miðum kom einnig til. Þá hefur afli á heimamiðum dregist mjög saman vegna ofveiði og mengunar. Þetta landsvæði er því búið að fara í gegnum mjög alvarlega kreppu í atvinnumálum á síðustu árum. Þó hefur þarna orðið mjög mikil breyting á.
    Fyrir um það bil fjórum árum hófst mikil herferð fyrir nýsköpun í atvinnulífi á Humber-svæðinu. Það eru sveitarstjórnir á svæðinu sem standa fyrir þessari herferð, dyggilega studdar af stjórnvöldum í London og Brussel eins og ég áður gat um. Þessi herferð er með brennipunkti í matvælaiðnaði á svæðinu sem stendur á gömlum merg. Markmiðið er að skapa ný störf í fiskvinnslufyrirtækjum og öðrum matvælaiðnaði. Einnig er lögð áhersla á

ferðamannaiðnað. Þá er lögð áhersla á að gömul fyrirtæki búi sig undir auknar gæðakröfur sem settar verða af Evrópubandalaginu á árinu 1992. Mjög er horft til meginlandsins með markaðssetningu en einnig lengra burt.
    Sú ímynd sem við Íslendingar höfum haft af fiskvinnslu í Englandi er úrelt. Fiskvinnslan er óðum að verða nýtískulegri og mörg fyrirtæki gefa okkur ekkert eftir í tækni, umbúðum og markaðssetningu. Þessum árangri er þetta landsvæði að ná með skipulegri þróunarvinnu þar sem allir leggjast á eitt, sveitarfélög, ríkisstjórn og stjórnvöld Evrópubandalagsins. Þetta kann að vekja nokkra athygli, einkum og sér í lagi sé tekið mið af þeirri ímynd sem hér á landi er af stjórnarháttum járnfrúarinnar og afskiptum hennar af þróun atvinnulífsins og þeirri byggðastefnu sem af henni hefur leitt. Fyrirtæki sem fjárfesta vilja í fiskvinnslu á Humber-svæðinu njóta ýmissar fyrirgreiðslu. Ekki er um að ræða beina rekstursstyrki til þeirra sem njóta fiskveiðanna. Aftur á móti má fá fjárfestingarstyrki, og þá frá Brussel, sem eru 15% af fjárfestingu. Þá njóta fyrirtækin styrkja vegna ráðgjafarstarfsemi í markaðsmálum, hönnunar, skipulags gæðaeftirlits, framleiðsluskipulagningar, fjármálastjórnunar og skipulagningar upplýsingakerfa. Er þar um að ræða greiðslu á 2 / 3 hlutum kostnaðar. Ný fyrirtæki geta fengið ódýrt húsnæði, hluta af launagreiðslum í upphafi rekstrar og ýmsa aðra aðstoð. Evrópubandalagið styrkir að mestu leyti ýmiss konar skipulögð verkefni. Til fróðleiks má geta þess að byggðastyrkir til fyrirtækja frá stjórnvöldum í London námu á árinu 1986 tæpum 700 millj. punda eða 70 milljörðum íslenskra króna. Sé upphæðinni deilt niður á þann hluta þjóðarinnar sem getur notið styrkveitinganna er niðurstaðan rúm 36 pund á íbúa eða 3600 kr. Ef við færðum það yfir á landsbyggðina á Íslandi með um 110 þús. íbúa jafngildir þetta um 400 millj. kr. Þetta mega stjórnarherrarnir hér á landi taka til alvarlegrar íhugunar.
    Það frv. sem hæstv. sjútvrh. var að fylgja úr hlaði hér í Nd. er um stjórnun fiskveiða. Það tekur í raun og veru á engan hátt á því mikla vandamáli sem er í fiskvinnslu. Í raun og veru tekur það ekkert á því vandamáli þrátt fyrir að ríkisstjórnin, sem er nú framhaldsstjórn þeirrar ríkisstjórnar sem mynduð var 28. sept. 1988, segi í sinni stefnumörkun: ,,Stefnan í landbúnaðar- og fiskveiðimálum verður endurskoðuð með byggðasjónarmið og aukna hagkvæmni fyrir augum.`` Hún segir jafnframt: ,,Mörkuð verður sérstök fiskvinnslustefna.`` Hvar er hún? Hafa engir þingmenn stjórnarliðsins spurt ríkisstjórnina um sérstaka fiskvinnslustefnu? Hún er ekki til, hún fyrirfinnst ekki.
    Í þessari sömu stefnuskrá segir að unnið verði að því að endurskoða lög og reglur til þess að búa íslenskum fyrirtækjum starfsskilyrði sem séu sambærileg við það sem samkeppnisaðilar þeirra erlendis njóti. Viljið þið bera saman ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og ríkisstjórn Margrétar Thatcher í byggðamálum? Alls ekki. Margrét Thatcher

er svo margfalt frjálslyndari en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, Halldórs Ásgrímssonar og þeirra félaga. Ef það hefði verið framsóknarstefna að vinna að byggðamálum þá held ég að Margrét Thatcher sé orðin ólíkt meiri og betri framsóknarmanneskja en þeir hérna.
    ,,Við fjárhagslega endurskipulagningu``, segir í þessum málefnasamningi, ,,útflutningsfyrirtækja, sem er eitt fyrsta verkefni þessarar stjórnar, verði stefnt að aukinni hagkvæmni í rekstri þeirra.`` Hvar er hagkvæmnin? Hvað er að gerast í fiskvinnslunni hér á landi? Það sem er að gerast er það að sífellt er verið að flytja meira af óunnum fiski úr landinu. Það er verið að bjóða erlent
fjármagn til þess að stuðla að því. Á sama tíma er verið að byggja upp atvinnulífið á Humber-svæðinu, við Elbu í Þýskalandi og víðar á kostnað verkafólksins, fiskvinnslufólksins og atvinnufyrirtækjanna á landsbyggðinni hér.
    Hvað er svo að gerast hér á sama tíma og styrkir eru veittir sjávarútvegum þessara þjóða? Þá eru kröfur fínna manna úr Háskóla Íslands, þeirri virðulegu stofnun, hagfræðinga úr Seðlabankanum, að leggja auðlindaskatt á landsmenn. Á hvern kemur þessi auðlindaskattur? Hann kemur fyrst og fremst á fólkið sem vinnur að því að fiska, draga fiskinn að landi, fólkið sem kemur til með að vinna þennan fisk. Það á að borga þennan skatt. Höfuðborgarsvæðið er með um 10%. Það kemur jafnþungt á þau 10% sem hér eru. En hér eru fyrst og fremst þjónustugreinarnar í þessu þjóðfélagi, ekki í Reykjavík einni heldur á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þess vegna kemur það minna við en úti á landi þar sem svo að segja hver maður vinnur við fiskveiðar og fiskvinnslu, enda er þetta farið að segja til sín. Vinnan minnkar úti á landi. Það er verið að ganga á rétt landsbyggðarinnar á hverju einasta ári. Á sama tíma og aðrar þjóðir eru að treysta efnahagslegan grundvöll sjávarútvegs og byggða í sínum löndum er verið að veikja grundvöllinn undir byggðinni hér á landi. Á þetta horfum við.
    Mér finnst leitt til þess að vita að þetta frv. skuli vera lagt hér fram með þessu ógnargati. Við getum deilt um það hvort eigi að vera kvóti á allar veiðar eða ekki kvóti eða annað fyrirkomulag. En ég hélt að við ættum ekki að deila um það að þetta allt vantar inn í frv. þrátt fyrir allar ráðgjafarnefndir og alla sérfræðinga og fiskihagfræði og alla þessa ofsalega lærðu menn sem hafa komið nálægt þessum málum.
    Mig langar til þess að rifja hér upp. Snemma í marsmánuði fékk ég bréf sem var undirritað af tveimur mönnum sem eru forustumenn í fiskvinnslu og útgerð í sínu kauptúni. Ég skal taka það fram að þeir eru ekki mínir flokksmenn en ágætir vinir mínir. Í þessu bréfi birta þeir yfirlit yfir aflaskerðingu togarans í sínu byggðarlagi frá 1987, eins og verða mun ef frv. sjútvrh. um stjórnun fiskveiða verður samþykkt. Á árinu 1991 verða aflaheimildir skipsins 1204 þorskígildum minni en afli var 1987. Miðað við það fiskverð sem nú er verður búið að skerða tekjur

skipsins um 60 millj. kr. sem þýðir um 950 þús. kr. lækkun á hásetahlut. Laun við að vinna þennan afla í landi væru um 30 millj. þannig að tekjutap hvers verkamanns og konu er um 500 þús. kr. Árið 1987 voru unnin hjá þessu fyrirtæki 4600 tonn af slægðum fiski sem kom frá togaranum og minni bátum í kauptúninu. Vegna minnkandi hráefnis togarans keypti fyrirtækið þriðjungs hlutdeild í útgerðarfélagi í nágrenninu og fær þaðan um 300--400 tonn af fiski til vinnslu. Hins vegar liggur ljóst fyrir að aflakvóti togarans fer niður í 2486 tonn. Stendur rekstur skipsins þá engan veginn undir sér. Til að geta rekið skipið neyðist útgerðin til að senda þriðjung aflans á markað erlendis. Við aflaskerðingu togarans bætist svo það að þegar sóknarmarkið leggst niður verða aðrir bátar sem landað hafa 600--700 tonnum af þorski hjá fyrirtækinu nær kvótalausir vegna þess að aflamark þeirra er skert sem nemur veiðum þeirra. Til viðbótar þessu er svo fyrirhugað að allir smábátar sem hafa stundað handfæraveiðar verði settir á aflakvóta þannig að sú tegund vex niður smátt og smátt. Það sem fólkið í þessu kauptúni hefur því af fiski til vinnslu eru þessi 2486 tonn mínus þriðjungur sem selt er erlendis og svo einn þriðji af þessum bát sem keyptur hefur verið hlutdeild í. Samtals verða því til vinnslu 2086 tonn og samdráttur frá árinu 1987 verður um 2514 tonn. Þetta fiskmagn nægir til fimm mánaða vinnslu hjá þessu fyrirtæki. Það dugar fyrir sex mánaða úthald togarans. Ef þetta fyrirtæki ætti að halda í horfinu frá 1987 verður það að fjárfesta í skipum og aflakvótum fyrir um 300
millj. kr. Það er enginn smáskattur. Svo koma þeir fínu herrarnir í Háskólanum og Seðlabankanum og segja að það þurfi að leggja skatt á þessi miklu fríðindi. Það á víst ekki að leggja skatt á þá sem eru hér á miðju markaðssvæðinu. Það er víst litið á það öðrum augum.
    Kvótakerfinu var ætlaður margþættur tilgangur. Það átti öðru fremur að tryggja að heildaraflinn færi ekki fram úr viðmiðunarmarki stjórnvalda, koma í veg fyrir stækkun fiskiskipastólsins, treysta stöðu landsbyggðarinnar. Allt þetta hefur í stórum dráttum mistekist. Botnfiskaflinn hefur á hverju ári verið fjarri viðmiðunarmarki, fiskiskipastólinn hefur stækkað með ári hverju og staða landsbyggðarinnar er nú veikari en nokkru sinni fyrr.
    Á árinu 1984 voru gerðir út 836 bátar, 111.772 tonn, og 1461 opinn bátur, 4.835 tonn. Árið 1989 eru það 957 fiskiskip, 121.651 tonn, og 1631 opið skip, 6.560 tonn. Stækkun hefur orðið um tæpar 10 þús. lestir á þessu tímabili. Þannig hefur það brugðist algjörlega sem ætlað var þegar kvótinn var settur á. Sama er að segja um fiskveiðarnar. Tillaga fiskifræðinga 1980 voru 300 þús. lestir, aflinn fór það ár í 428 þús. lestir. Árið 1981 var tillagan 400 þús. lestir, veiðarnar fóru í 461 þús. lestir. Árið 1982 450 þús. lestir, þá fóru veiðarnar í 382 þús. lestir. Árið 1983 350 þús. lestir, þá fóru veiðarnar í 293 þús. lestir. Og árið 1984 leggur stofnunin til að veiðarnar verði 200 þús. lestir --- þá á að lækka um 150 þús.

lestir frá tillögum árið á undan --- en
þá verða veiðarnar 283 þús. lestir. Árið 1985 er tillaga Hafrannsóknastofnunar sú sama en þá fara veiðarnar í 323 þús. lestir. Árið 1986 er tillagan 300 þús. lestir --- allt í einu hækkuðu þeir um 50% --- og þá fara veiðarnar í 366 þús. lestir. Árið 1987 er sama tillaga, þá fara veiðarnar í 390 þús. lestir. Og árið 1988 300 þús. lestir, þá fara veiðarnar í 369 þús. lestir. Á þessu sést að farið hefur langt fram yfir það, ég tala ekki um það sem Hafrannsóknastofnun hefur lagt til, heldur líka það sem ráðuneytið hefur lagt til í sambandi við veiðar. Svo það hefur hvort tveggja brugðist, að minnka fiskiskipastólinn og það sem snertir veiðarnar.
    Það er eitt mesta hagsmunamál sjávarútvegsins og allrar landsbyggðarinnar og allra þeirra sem við sjávarútveg fást að meiri stöðugleiki sé í atvinnugreininni en verið hefur á síðasta áratug þegar þorskaflinn hefur sveiflast frá 469 þús. lestum árið 1981 í 283 þús. lestir árið 1984. Nú leggur Hafrannsóknastofnun til 250 þús. lesta afla næstu tvö árin, eða nærri þriðjungs minnkun frá meðaltali síðustu tíu ára. Það er minni þorskafli en verið hefur á Íslandsmiðum allt frá árinu 1947. Þessi óstöðugleiki er meiri en svo að nokkur atvinnuvegur geti búið við og kallar á gjörbreytta aðferð við ákvörðun heildarafla. Fiskveiðistefnan þarf að tryggja betur atvinnuöryggi allra þeirra sem við þennan atvinnuveg starfa. Seinasta áratuginn hefur meðalafli botnlægra fisktegunda verið um 670 þús. lestir á ári, 370 þús. lestir af þorski og 300 þús. lestir af öðrum tegundum. Því er nauðsynlegt að á næstu árum, t.d. næstu fimm árum, verði leyfilegur ársafli miðaður við þessa reynslu og árlega leyft að veiða 320--380 þús. lestir af þorski og öðrum fiskstofnum á hverjum tíma. Með því að taka upp slíkt fyrirkomulag væri tillit tekið til líffræðilegra og efnahagslegra sjónarmiða við nýtingu fiskstofnanna um leið og leitast er við að tryggja eðlileg starfsskilyrði í atvinnugreininni sjálfri.
    Ég minntist hér í upphafi á afstöðu Borgfl. Hér liggja fyrir ályktanir fyrsta landsfundar Borgfl. sem fylgt var mjög vel eftir af fulltrúum hans síðast þegar þessi mál voru til umræðu. Þar segir að flokkurinn leggi áherslu á að núverandi kvótakerfi hafi verið sett á sem neyðarlausn þegar ekki var samstaða um aðra tilhögun. Nú hafi þegar komið í ljós miklir vankantar á kerfinu sem skekki heilbrigðan rekstur í útgerð og beinlínis hamli gegn eðlilegri endurnýjun í atvinnugreininni. Því vill Borgfl. leggja niður kvótakerfið í núverandi mynd. Borgfl. vill taka upp heildarkvóta sem endurskoðaður verði árlega með tilliti til stærðar fiskstofnanna hverju sinni. (Gripið fram í.) Ja, ég ræð nú ekki við að teyma þennan lýð hingað inn í þingsalinn. Hér er verið að ræða mikilvægasta mál þjóðarinnar. Af öllum öðrum mikilvægum málum ber þetta af. Hér eru fjórir þingmenn inni fyrir utan ræðumann og hæstv. forseta. --- Og enginn ráðherra. Sjútvrh. hefur verið hérna inni mestallan tímann, en nú er enginn. Enda eru mennirnir alveg uppteknir í hrossakaupum. Hvað skiptir máli þó

að verið sé að veikja atvinnugrundvöll fólksins í landinu á meðan hrossakaupin eru stunduð jafnstíft og nú er gert?
    Heildarkvótanum, segir Borgfl., verði skipt í ákveðin tímabil. Friðun á uppeldis- og hrygningarsvæðum verði aukin frá því sem nú er. Unnið verði að nánu samstarfi Hafrannsóknastofnunar, sjómanna og útvegsmanna til að ná þessum markmiðum. Gætt verði ákveðins sveigjanleika í framkvæmdinni og möguleiki verði á að færa heildarkvóta milli tímabila. --- Ég segi fyrir mitt leyti, ég get skrifað undir hvert orð, en ég vildi gjarnan spyrja þá, ef þeir gætu aðeins séð af smátíma frá hrossakaupum fyrir umræður í deildinni, hvað hafi breytt þessari skoðun þeirra. Formaður flokksins, hinn athafnasami hæstv. umhvrh., greiddi atkvæði með öllum þessum skerðingum í gærkvöldi. Og hann segist vera hugsjónamaður, búinn að margtaka það fram.
    Það er enginn hér frá Alþb., það hefur gufað upp. Það er ekki einu sinni að sá sem er hlutlaus gagnvart Birtingu sjáist. Stjórn Birtingar, félags jafnaðar- og lýðræðissinna, hefur tekið undir kröfu Geirs Gunnarssonar alþm. og ýmissa samtaka sjómanna um að frestað verði afgreiðslu frv. um stjórnun fiskveiða til næsta hausts. Nú væri gaman að vita hvað þeir ætla að gera alþýðubandalagsmennirnir, hvort þeir ætli að taka tillit til Geirs Gunnarssonar, sem ég tel alveg sjálfsagt að verða við, að fresta þessu til hausts. Og gaman væri að vita hver afstaðan er til þessarar ályktunar Birtingar hjá hinum. Hæstv. samgrh. Steingrímur Sigfússon hafði sig mjög í frammi hér síðast þegar þetta mál var til umræðu og flutti margar brtt. og fann þessu kvótafrv. flest til foráttu. Hann benti á hættuna sem landsbyggðinni stafaði af þessari stefnu. Sú hætta hefur ekki minnkað með þessu frv., hún hefur vaxið. --- En hvar er nú Steingrímur Sigfússon, baráttumaðurinn frá Þistilfirði? Hefur hann gleymt sér? Nú langar mig að spyrja um ýmsar tillögur þessara manna, hvað hafi komið fyrir þá. Hvort þeir hafi snúið blaðinu algjörlega við við sínum tillögum og þá af hverju eða hvort þeir hafa orðið fyrir einhverju áfalli. Kannski hafa þeir dottið. Fengið högg á höfuðið. ( ÁHE: Dottið í ríkisstjórn.) Já, og sumir hafa verið um það bil að detta út úr henni síðustu daga en hafa þó alltaf náð til sama lands. --- Mér
þykir ánægjulegt að sjá að fulltrúi ríkisstjórnarinnar, hæstv. sjútvrh., gengur nú í salinn, þó ég sakni mjög að sjá ekki hérna fleiri úr þessari virðulegu ríkisstjórn sem þyrfti að gera einhverja grein fyrir hugarfarsbreytingum sínum. Ég er með þessar tillögur þeirra allra en ég ætlast ekki til þess að hæstv. sjútvrh. svari fyrir þá hreingerningu alla sem hefur orðið í höfði þessara manna.
    Mig langar að benda hæstv. sjútvrh. á eitt. Samkvæmt V. lið í ákvæðum til bráðabirgða er óheimilt að framselja aflahlutdeild án þess að skipið hverfi varanlega úr rekstri og sé afmáð af skipaskrá, nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu við gildistöku laganna. Í

athugasemdum í frv. við V. lið segir að veðhafar sem öðlast veð rétt eftir gildistöku laganna verði að tryggja með öðrum hætti að veð þeirra rýrni ekki því í frv. sé ekki lagt til að samþykki þeirra þurfi til varanlegs flutnings aflahlutdeildar eftir að lögin öðlast gildi í framhaldi af þessu. Geta veðhafar tryggt hagsmuni sína þannig að haldi gagnvart þriðja aðila að semja við handhafa kvóta um að kvóti verði ekki fluttur af skipi nema með samþykki veðhafa og er hægt að þinglýsa slíkum samningi sem kvöð? Ef svo er ekki, hvernig geta veðhafar í skipum tryggt sína hagsmuni framvegis, ekki eingöngu lánastofnanir heldur einnig t.d. seljendur skipa? Þetta þætti mér fróðlegt að fá umsögn hæstv. sjútvrh. um áður en þetta mál fer til nefndar.
    Ég sagði í upphafi að Alþingi nyti ekki þess trausts sem það á að njóta meðal þjóðarinnar. Og maður heyrir varla menn koma saman á smáfund svo þingmenn séu ekki snupraðir fyrir það að lítið sé að marka þá. Oft hefur mér fundist þessar raddir vera ósanngjarnar en á síðustu tímum finnst mér að fólk hafi töluvert til síns máls. Þessi virðulega stofnun sem þjóðin á að líta upp til starfar með þeim hætti að gjörbreyting hefur orðið á hugarfari manna. Hvernig á hinn almenni kjósandi að skilja það að þingmenn segjast hafa þessa og þessa skoðun, vilja berjast fyrir henni, flytja tillögur um hana, en svo allt í einu skipta þeir um skoðun svo snarlega að menn vita ekki hvað gerst hefur? Hvernig stendur á því t.d. að flokkur sem ég nefndi hér áðan, Borgfl., berst ötullega gegn þessari stefnu og vill taka upp allt aðra stefnu en svo, alveg án allra útskýringa, gjörbreytir formaður flokksins og annar til, sem var búinn að lýsa yfir andstöðu við frv., um skoðun? Sagan segir að við þá hafi verið samið um eitthvað allt annað óskylt mál.
    Alþb. barðist hatrammlega gegn lögfestingu frv. sem var um sama efni og þingmenn flokksins fluttu margvísleg rök fyrir sínu máli. Einn þeirra, Skúli Alexandersson, hefur staðið við sínar skoðanir, fylgt þeim eftir burt séð frá því hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég hef leyft mér líka að fylgja minni sannfæringu í þessu efni alveg burt séð frá því hvort ég er í stjórn eða stjórnarandstöðu. En hvað er að gerast í þessu landi? Hver ætlar svo að bera blak af þessari stofnun? Svo þegar stærsta mál þjóðarinnar er hér til umræðu þó að klukkan sé farin að halla í eitt, þá eru örfáir þingmenn hér inni og sést ekki einn einasti ráðherra nema hæstv. sjútvrh. Hinir eru allir að semja og selja. Ég held að einn stærsti hrossamarkaður þessa lands sé í höndum núv. hæstv. ríkisstjórnar og stjórnað af henni.