Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég ætlaði að vekja athygli á því að við þingmenn Framsfl. munum víst liggja undir nokkru ámæli fyrir að ákveðið mál í samgn. sé ekki tekið til umræðu. Ég hef verið boðaður á fund í samgn. klukkan eitt og sá sem ítrekaði það boð sagði að hér yrði slitið fundi klukkan eitt. Ég tel ekki við það búandi að vera kallaður til nefndarstarfa á sama tíma og þessi umræða fer hér fram því að ég hygg að ekki sé hægt um það að deila að hér er verið að tala um slíkt stórmál að ekki er við það búandi að menn þurfi að sitja á nefndarfundum á sama tíma og þessu máli er ætlað að vera hér á dagskrá í Nd.