Þórhildur Þorleifsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er alveg skiljanlegt að þingmönnum þyki það óviðunandi að vera boðaðir til nefndafunda á sama tíma og mikilvæg mál eru hér á dagskrá í deildinni. Hitt er líka með öllu óviðunandi ef forsetar þingsins, nefndaformenn og aðrir þeir sem málum ráða hér á Alþingi geta ekki samræmt störf sín og komið sér saman þannig að upplýsingar komi ekki sín úr hvorri áttinni og séu sífellt misvísandi. Ég á sæti í hv. fjh.- og viðskn. Nefndarfundur var boðaður þar klukkan eitt. Fyrir líklega einum og hálfum klukkutíma er tilkynnt að þeim fundi verði frestað þar til fundi sé lokið í þessari hv. deild. Nú koma aðrir þingmenn og tala um að annar háttur sé hafður á í sínum nefndum og hafa ekki betri upplýsingar um fyrrnefnda fjh.- og viðskn. en raun ber vitni. Ég vil fara fram á það við forseta að staðið verði við þá ákvörðun að láta þennan fund halda áfram og jafnframt kem ég því á framfæri að menn verði að reyna að samræma störf sín hér svo að maður geti treyst einhverjum hlut frá mínútu til mínútu.