Stjórn fiskveiða
Fimmtudaginn 03. maí 1990


     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vona að það sé nú ekki mín persóna sem ræður því að fundum er fram haldið hér í Nd. Alþingis. Ég ætla að vona að það sé mikilvægi málsins sem um er fjallað sem ræður því, en ekki persónulegar óskir þess þingmanns sem hér stendur.
    Það er vonum seinna að þetta frv. kemur til umræðu í þessari deild og það jafnvel þó frv. liggi ekki á borðum þingmanna. Nú kann vel að vera að það sé ekkert nýnæmi að svo sé en augljóst er þó að það er talandi dæmi um það óðagot sem ríkir í afgreiðslu þessa mikilvæga máls sem hefur svo afdrifaríkar afleiðingar fyrir alla afkomu íslensku þjóðarinnar.
    Hverju sá háttur sem við neyðumst nú til að beygja okkur undir er að kenna er ekki gott að segja. Það er skylt að taka það fram að hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála skipaði nefnd strax í júlí 1988 og var það samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða sem samþykkt voru í janúar sama ár. Sú nefnd tók til starfa og var ætlað mjög umfangsmikið og viðamikið verkefni en var síðan ætlað að skila áliti ekki seinna en á haustdögum 1989. Nú háttaði svo til að það tókst ekki og það var ekki fyrr en í janúar sem nefndin skilaði niðurstöðum. Hvort það var vísbending um að málið sé svo umfangsmikið og svo flókið og um það ríki svo ólík sjónarmið að nefndin hafi þurft allan þennan tíma eða hvort ekki hefur verið ýtt nógu mikið á, skal ósagt látið, en staðreyndin er sú að frv. kom ekki hér inn í þingið fyrr en, ég held ég muni það rétt, í mars.
    Svo ég staldri aðeins í byrjun við störf umræddrar nefndar þá var henni ætlað, eins og ég sagði, mjög umfangsmikið verkefni og var því ákveðið að skipta henni niður í vinnuhópa. Með tilliti til þess sem við kvennalistakonur höfum haft til málanna að leggja í umræðu um þetta frv. og reyndar í umræðu um stjórn fiskveiða fyrir tveimur árum, þá fékk einn hópurinn það verkefni að gera athugun á því hverjir gætu verið handhafar veiðiheimilda og til hve langs tíma og með hvaða takmörkunum slíkt forræði skyldi vera.
    Það er skemmst frá að segja að fjölmargir aðilar skila sérálitum, bókunum, með áliti nefndarinnar, þar á meðal fulltrúar Kvennalistans í nefndinni. Það munu hafa verið tíu aðilar af þrettán sem gerðu sérbókanir sem lýstu með einum eða öðrum hætti stuðningi við einhvers konar byggðakvóta. Síðan kemur málið til umfjöllunar í þingi og fer til sjútvn. Ed. Sá háttur var hafður á til hagræðingar og væntanlega flýtis og til þess að tvívinnsla yrði ekki of mikil að sjávarútvegsnefndir beggja deilda héldu þó nokkra sameiginlega fundi og voru þá líklega störf þeirrar nefndar sem sjútvrh. skipaði að mestu leyti endurtekin. Þangað mættu flestir þeir sömu aðilar sem mættu til viðtals við nefndina og það kann vel að vera að það séu eðlileg vinnubrögð. Þó segir mér svo hugur um að fæstir sem þarna voru hafi í rauninni þurft á þessum upplýsingum að halda eða viðræðum við þessa menn sem kallaðir voru til, heldur hafi þetta verið

birtingarmynd þess flótta sem menn eru á frá þessu verkefni, að takast á við þetta stóra hagsmunamál og skiptast raunverulega á skoðunum um það hvernig því skuli hagað. Þessum sífelldu viðræðum við utanaðkomandi aðila, með fullri virðingu fyrir því sem þeir höfðu fram að færa, ég er ekki að dæma það ómarktækt, var haldið áfram þangað til allt var komið í eindaga og svo seinir voru menn til að breytingartillögur komu ekki fram fyrr en á síðustu stundu og sáralítil, nánast engin, skoðanaskipti fóru fram innan nefndanna um raunverulegar hugmyndir manna um stjórn fiskveiða. Þetta er þeim mun alvarlegra sem það liggur fyrir að mjög skiptar skoðanir eru um þessi mál. Ekki bara hér innan þingsins heldur út um allt land eru afskaplega skiptar skoðanir um hver sé best og réttlátust tilhögun þessara mála. Það er alvarlegt ef sú umræða nær ekki eyrum ráðamanna. Þeir virðast svo gjörsamlega lokaðir að það er ekki einu sinni á dagskrá að ræða tillögur eða taka þær til athugunar, þó að menn gangi ekki svo langt að fara fram á að þær séu samþykktar en að þær séu a.m.k. athugaðar eða ræddar af fullri sanngirni og skynsemi. Það hlýtur að vera affarasælast að stjórn þessara mála sé í sæmilegri sátt við þegna þessa lands því að þeir eiga þessa auðlind sem um er fjallað sameiginlega skv. 1. gr. frv. og skiptir því verulegu máli hvað fólkinu í landinu finnst um tilhögun málanna.
    Í minnispunktum sem lagðir voru fram á fundi beggja nefnda voru teknar saman í stuttu máli niðurstöður nokkurra sem sendu umsagnir um frv. Þar kemur mjög víða fram, með mismunandi orðalagi, stuðningur við aðra tilhögun úthlutunarkvóta en nú er og er þar byggðakvóti með einu eða öðru móti nefndur aftur og aftur. Það mun hafa verið svo þegar leiðir nefndanna skildu og nefnd Ed. sat ein á fundum að sama háttalag var á, harla lítil umfjöllun varð víst um raunverulegt inntak frv. og gætti þess verulega í umræðum í Ed. að menn eru fyrst og fremst að marka sér sína sérstöðu, sína afstöðu til stjórnar eða stjórnarandstöðu, en ekki að fjalla raunverulega um þau mál sem hér er tekið á.
    Ég hef ekki fyrr átt sæti í sjútvn Nd., á þar raunar ekki sæti en fæ að sitja sem áheyrnarfulltrúi, og ég verð að segja það að mér hefur fundist það nokkuð ævintýraleg upplifun oft og tíðum að vera viðstödd þessa stundum mjög
hávaðasömu og vægast sagt líflegu fundi. Hefur mér oft fundist að hljóðar mætti fara en af meiri skynsemi.
    Ég ætla þá að víkja í nokkrum orðum að þeirri bókun sem fulltrúar Kvennalistans í margnefndri nefnd sjútvrh. lögðu fram með niðurstöðum nefndarinnar. Þar er auðvitað lýst stuðningi við 1. gr. frv. um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu ,,sameign íslensku þjóðarinnar``. ,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.`` En þar sleppir nú samstöðunni að mestu leyti því að við eigum ákaflega erfitt með að sjá hvernig aðrar greinar frv. samræmast þessari fyrstu og höfum því í

framhaldi af því gert, eins og vonandi öllum er kunnugt, mjög ítarlegar brtt. við frv. í Ed. og munum að sjálfsögðu flytja þær aftur í Nd. í þeirri von að menn íhugi þær a.m.k. og beri saman og reyni að hugsa til enda það mismunandi fyrirkomulag sem lagt er til. Við gerum okkur auðvitað ekki vonir um það nú að þær verði samþykktar en við þykjumst þess fullvissar að að því muni koma. Við teljum að sú þróun sem átt hefur sér
stað sl. tvö ár sýni það með óyggjandi hætti að þróunin stefnir í þá átt sem við kvennalistakonur höfum lagt til. Konur eru vanar því að bíða lengi og þreyja þorrann og góuna. Það munum við líka gera í þessu máli, halda áfram að reyna að koma okkar sjónarmiðum á framfæri í vissu þess að um síðir verði þau nú ofan á.
    Við höfum viljað gera nokkur atriði að megininntaki fiskveiðistjórnunar. Fæst þeirra koma fram í frv. eins og það liggur nú fyrir Alþingi. Þó ber að geta þess sem til bóta er og má þar t.d. nefna breytt mörk fiskveiðiárs sem stuðla að hagkvæmni í vinnslu og draga úr aflatoppum að sumrinu og geta hamlað gegn ársbundnu atvinnuleysi. Okkur þykir nú sem fyrr nóg um ofríki hæstv. sjútvrh. og leggjum því margt til til að draga úr hans valdi og dreifa ábyrgð og valdi víðar og er það auðvitað í réttu samræmi við aðrar valddreifingarhugmyndir okkar kvennalistakvenna.
    Svo að ég víki aðeins að þeim meginmarkmiðum sem við viljum leggja áherslu á, þá eru þau nokkur og ekki svo gott að gera upp á milli þeirra því að öll eru þau mikilvæg.
    Í fyrsta lagi viljum við auðvitað hindra ofveiði og vernda og byggja upp fiskstofna landsins. Þetta hefur ekki náðst með því stjórnarfyrirkomulagi sem nú er á fiskveiðum. Farið er fram úr því aflamagni sem Hafrannsóknastofnun leggur til ár hvert, og ekki sér fyrir endann á því hvernig fer ef niðurstöður þeirra sem best vita í þessari grein eru sífellt hafðar að litlu eða engu. Við viljum leggja til að sjútvrh. verði ekki heimilt að víkja meira en 2% frá tillögum Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla á ári hverju. Við teljum fullkomlega réttmætt að binda þetta við svona lítið frávik vegna þess að með aukinni reynslu og getu þeirra vísindamanna sem um fjalla verður nauðsynin brýnni á að fara að þeirra tillögum og virða þeirra niðurstöður en halda ekki að embættismenn eða framkvæmdarvaldið eða hagsmunaaðilar viti betur. Þar verða önnur sjónarmið því miður oft ofan á og því verður að fara að niðurstöðum þeirrar stofnunar sem um þessi mál á að fjalla.
    Í öðru lagi hljótum við að stefna að aukinni hagkvæmni og minni tilkostnaði, bæði við veiðar og vinnslu. Það markmið hefur heldur ekki náðst með núverandi fyrirkomulagi. Skipum fjölgar, þau verða sífellt stærri, búin betri tækjum og þar af leiðandi afkastameiri og sókn þeirra í fiskstofnana er of hörð og með of miklum tilkostnaði.
    Í þriðja lagi er auðvitað nauðsyn á að bæta

meðferð sjávarafla. Þar ættum við að vera fyrirmynd annarra ef við viljum rísa undir nafni að vera matvöruframleiðsluþjóð. Vissulega hefur meðferð batnað með aukinni þekkingu og fyrst og fremst auknum skilningi þeirra sem nýta aflann, en hins vegar er því ekki að neita að enn eigum við langt í land með að viðunandi árangri sé náð. Meðferð afla er auðvitað samofin nýtingu hans. Þar er kannski alvarlegt mál á ferðinni hvernig nýtingu afla er varið. Um það eru ótal dæmi. Stundum er um að ræða slæma nýtingu þess afla sem um borð kemur eða í land kemur. Má þar t.d. nefna þá nýtingu sem sagt er að sé á frystitogurum, að þar nýtist rétt u.þ.b. 30% aflans og er það auðvitað alls óviðunandi. Mörg fleiri dæmi mætti tína til sönnunar. Við hirðum ekki um að nýta verðmæt hráefni sem nýta mætti til vinnslu, í ýmsa þarfaframleiðslu eins og lýsis svo að eitthvað sé nefnt. Það mætti nefna mörg dæmi um það hversu langt við erum frá því að nýta sjávaraflann vel. Við heyrum oft sögur og þar eru ekki síst sjómenn að verki, því miður, sem viðurkenna það blygðunarlaust að þeir hendi þúsundum, jafnvel tugþúsundum, tonna í sjóinn á ári hverju og veiði auk þess fisk í stórum stíl sem er langt undir leyfilegum mörkum.
    Í fimmta lagi ber að stefna að bættum kjörum þeirra sem vinna við sjávarútveg. Það fólk býr við slæmar vinnuaðstæður sem stofna oft heilsu þess og öryggi í hættu og bágborin laun. Ég kalla það ekki laun þó menn, eða konur oftast, geti fengið fleiri krónur í launaumslagið vegna þess að þær eru lamdar áfram af bónussvipunni. Ég vil halda mig við þau laun sem þær fá samkvæmt töxtum. Slys og atvinnusjúkdómar eru tíðari í þessari atvinnugrein en
víðast annars staðar. Þarna ber að reyna að bæta úr auk þess að bæta kjör og við höfum einmitt lagt til að hluta þess fjár sem verður til umráða í þeim veiðileyfasjóði sem við viljum að verði stofnaður verði einmitt varið til þess að bæta aðstöðu fiskvinnslufólks og e.t.v. að verðlauna sérstaklega þau fyrirtæki sem standa sig sérstaklega vel í því.
    Í sjötta lagi má svo auðvitað tala um sanngjarna dreifingu arðs og atvinnu í þessum atvinnuvegi. Misjafnlega hefur til tekist en allt of mörg dæmi eru því miður um það að skip hafi verið seld milli byggðarlaga á margföldu verði vegna þess að það er ekki bara verið að selja tæki til veiðanna heldur er líka verið að selja óveiddan fiskinn í sjónum og það er auðvitað með öllu óviðunandi að einstaklingar eða útgerðarfyrirtæki geti auðgast með þeim hætti að selja það sem samkvæmt 1. gr. þessara frumvarpsdraga er sameign íslensku þjóðarinnar. Því er höfuðnauðsyn að rjúfa þessi óeðlilegu og sterku tengsl milli kvóta og skipa.
    Það má líka nefna varðandi atvinnu og dreifingu arðs að í skjóli þessa kerfis sem nú ríkir eða nú er við lýði hefur það mjög færst í vöxt að siglt væri með fisk ýmist til ferskfisksölu eða til vinnslu erlendis. Auk þess að draga úr atvinnu hér innan lands og veikja stöðu fiskvinnslunnar og fiskvinnslufólks er verið að renna stoðum undir

atvinnu erlendis. Það ástand sem nú hefur skapast þegar fjölmargir, bæði í Bretlandi og Þýskalandi, hafa vinnu af vinnslu íslenskra sjávarafurða hefur vísast þegar veikt hugsanlega samningsstöðu okkar við EB. Þeir hafa komist upp á bragðið með það hversu arðvænlegt og gott það er að fá frá okkur hráefni til vinnslu í eigin landi og þann ávinning munu þeir eflaust ekki láta af höndum átakalaust.
    Nokkrar raddir hafa verið uppi um það að undanförnu að útgerðarmenn hafi hugsanlega í skjóli hefða áunnið sér einhvers konar eignarrétt á kvótanum og leiti nú m.a. lagastuðnings við þá söguskýringu. Það verður auðvitað strax að taka af öll tvímæli um að þetta má ekki og getur ekki gerst. Í því sambandi verður að minna á að það eru ekki útgerðarmenn einir sem hafa sótt sjóinn. Þeir hafa í flestum tilfellum auðvitað sent aðra til að draga fiskinn úr sjónum. Fólk hefur unnið þennan fisk í landi og gert hann verðmætari og öll þjóðin hefur lagt til útgerðar og fiskvinnslu eða til sjávarútvegsins í heild með því að greiða skatta því að hluti þess fjár sem næst með skattheimtu er og hefur oft með einu eða öðru móti verið notaður til stuðnings sjávarútvegi og auk þess hefur sama skattfé verið notað til að efla rannsóknir ýmiss konar í þágu greinarinnar og flestar þær gengisfellingar sem yfir okkur hafa gengið, öll jafnt, hafa verið í þágu sjávarútvegs svo að það er hrein firra að útgerðarmenn einir hafi lagt hér eitthvað af mörkum og hafi þar af leiðandi skapað sér einhvern rétt umfram aðra.
    Ég hef þegar lýst því að við kvennalistakonur í hv. Nd. munum að sjálfsögðu flytja þær tillögur okkar sem fluttar voru í Ed. aftur og ætla ég nú ekki að lýsa þeim í smáatriðum. Frv. eins og það mundi líta út að öllum okkar brtt. samþykktum hefur verið lagt fram sem fskj. við nál. 2. minni hl. sjútvn. í hv. Ed. En ég ætla ekki að ljúka máli mínu án þess að minnast á megininntak þessara brtt.
    Það er í fyrsta lagi að sjútvrh. verði ekki heimilt að víkja meira en 2% frá tillögum Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla á ári hverju. Ég þarf ekki að útskýra þetta nánar þar sem ég hef þegar fjallað um nauðsyn og réttmæti tillögunnar.
    Í öðru lagi munum við leggja til að 80% heildaraflans verði úthlutað til sveitarfélaga með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára og reiknuðu meðaltali aflakvóta skipa skrásettra í sveitarfélaginu á sama tímabili. Síðan fylgja nánari útfærslur um hvernig sveitarstjórnum er heimilt að fara með þennan kvóta. Þess misskilnings hefur nokkuð gætt að sveitarstjórnir sjálfar mundu einar sitja að kvótanum, jafnvel í svo ríkum mæli að maður sér nánast fyrir sér sveitarstjórann ýta úr vör og sveitarstjórnina setjast undir árar. Svo er auðvitað ekki. Sveitarstjórninni er heimilt að leigja eða framselja kvóta til þeirra aðila sem hún telur hæfasta og færasta til með fjölmörgum skilmálum eða heimildum sem sveitarstjórnum er gert að framfylgja samkvæmt okkar brtt.

    Í þriðja lagi vil ég nefna að 20% heildaraflans renni í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og verði til sölu, leigu eða sérstakrar ráðstöfunar til sveitarfélaga. Tekjum af sölu eða leigu veiðiheimilda verði varið til fræðslu sem nýtist sjávarútvegi, fyrirbyggjandi aðgerða vegna atvinnusjúkdóma fiskvinnslufólks, rannsókna tengdra sjávarútvegi og verðlauna til handhafa veiðiheimilda fyrir lofsverðan aðbúnað starfsfólks eða sérstaka frammistöðu við nýtingu og meðferð aflans. Þessar tillögur eru síðan nánar útfærðar í brtt.
    Í fjórða lagi að eftirlit með nýtingu fiskstofna verði fært frá hagnýtingarráðuneyti atvinnugreinarinnar til umhvrn.
    Við teljum að með þessu fyrirkomulagi sem hér er lagt til yrði rofið hið óeðlilega samband sem nú er milli skips og veiðiheimilda, að þetta
fyrirkomulag taki fullt tillit til byggðasjónarmiða og það dragi úr ofstjórn og miðstýringu og það muni hvetja til betri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans og búa betur að fólki í sjávarútvegi og þar með verði þeim markmiðum náð sem ég lýsti hér áðan að við hefðum haft að leiðarljósi við samningu þessara brtt.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla nánar um þetta við 1. umr. málsins, en taldi þó rétt að nefna okkar tillögur vegna þess tómlætis sem þær hafa mætt sem stafar e.t.v. bæði af tímaleysi og áhugaleysi. Grunar mig að seinni skýringin sé e.t.v. þyngri á metunum. Og ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að það er alvarlegt ef kjörnir fulltrúar þjóðarinnar gefa sér ekki tíma eða hafa ekki vilja eða nennu til að kynna sér af kostgæfni allar þær tillögur sem koma fram um fyrirkomulag stjórnunar fiskveiða. Það er siðferðileg skylda þeirra að gera það, auðvitað í öllum málum em ekki síst í þessu stærsta og brýnasta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar.