Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Nú líður að lokum þessa þings og því gott tilefni að líta um öxl og leggja mat á verk stjórnvalda á þessu þingi. Það er erfitt að gera upp á milli verkanna, skattar hækkaðir, lífskjör skert, virðisaukaskattur --- matarskattur innifalinn, lögfestur, svo að eitthvað sé talið. Síðan var verkið kórónað með samningum í byrjun febrúar í eldheitum faðmlögum við aðila vinnumarkaðarins og mátti vart á milli sjá hver undi þeim ástaratlotum best. Árangur þessara samninga er svo áður óþekkt jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar.
    Hyggjum nánar að þessu jafnvægi. Verðbólga hefur náðst niður, í bili a.m.k. Vextir hafa lækkað og atvinnuleysi minna en svartsýnustu spár sögðu. Atvinnuleysi er þó miklu meira en þekkst hefur lengi, vextir eru enn þá háir og strax teknar að heyrast raddir um nauðsyn þess að hækka þá og það sem mestu máli skiptir, jafnvægisleysið í efnahagsmálum heimilanna er algert.
    Það er alvarlegt að með þessum samningum er ástarþríhyrningurinn, ríkisstjórn, vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin, að slá því föstu að verðbólgubálið hafi verið kynt með launaseðlum láglaunafólks og nú þegar það lætur loks af kröfunum, þá vanti eldsneyti á bálið. Verðbólgan var, er og verður láglaunafólkinu að kenna, líklega því fólki sem hefur 40--60 þús. kr. á mánuði í laun. Hvernig á að hefja nýja sókn, eins og Ásmundur Stefánsson kaus að kalla það í ræðu 1. maí, undir þessum krossi? Það var þó athyglisvert að nýkjörinn verkalýðsleiðtogi, Sigríður Kristinsdóttir, hóf ræðu sína við sama tækifæri á því að tala um laun kvenna, stöðu þeirra og kjör. Þar kvað heldur en ekki við nýjan tón. Ekki minnist ég þess að verkalýðsleiðtogar hafi við sömu tækifæri eða svipuð hafið mál sitt á kvennamálum. Þau koma oftast með slaufunum og blómabúkettunum síðast með málunum: Auk þess þarf ... o.s.frv. Segi menn svo að það skipti ekki máli hvort karl eða kona heldur um
stjórnvölinn og skyldu konur um allt land minnast þessara upphafsorða næst þegar þær ganga til atkvæða í sínu verkalýðsfélagi eða stofna sitt eigið.
    En hverjir eru það sem verða að láta sér nægja 40--60 þús. kr. mánaðarlaun, svo að maður tali nú bara um þá allægstu? Það er auðvitað öllum ljóst að yfirgnæfandi meiri hluti þessa fólks er konur. Ýmsir hafa bent á að hagvöxtur hér á landi undanfarin ár hefur ekki síst verið konum að þakka. Ekki hefur sá hagvöxtur ratað í þeirra pyngjur. Þess í stað er ábyrgð þeirra á óstjórn efnahagsmála staðfest og það í nafni einhverrar þjóðarsáttar. Þjóðarsáttin er ekki á ábyrgð almennings í þessu landi. Hún er einhvers konar fjallatoppasátt. Svo hátt geta menn hreykt sér að þeir heyri ekki til þeirra sem búa niðri í dölunum. En þeir létu skilaboðin berast niður fjallshlíðarnar: Ef þið hlýðið ekki koma skriður, verðbólguskriður, atvinnuleysisskriður, kreppuskriður. Hvað segir fólkið þá? Hlýðir, og ekki síst konur sem aldrei hafa vanist því að setja sjálfar sig efst á blað. Þær eru langvanar

því að setja annarra velferð ofar sinni eigin. En þetta mega og geta konur ekki lengur. Þeirra velferð er samofin velferð fjölskyldna og barna þessa lands. Þær eru fyrirvinnur engu síður en karlar. Leyfist mér að minna á að um það bil 10 þús. börn á aldrinum 0--16 ára eru á framfæri einstæðra mæðra. Eru þá ótaldar hinar sem deila framfærsluskyldu með öðrum aðila.
    Auk almennra launahækkana láglaunafólks hlýtur aðalkrafan að vera stytting vinnutíma. Þó að stefnt sé að lengri skóladegi, þó að byggðir verði fleiri leikskólar, þó að reynt sé að finna sérúrræði fyrir aldraða og fatlaða verður að stytta vinnutíma alls þorra fólks. Fjölskyldan verður að fá andrými. Við getum ekki haft börnin okkar á stofnunum tíu tíma á dag. Við getum ekki ýtt öllum þeim sem ekki eru fullfærir til þátttöku til hliðar. Afleiðingarnar verða skelfilegar ef við sjáum okkur ekki um hönd og tökum nýjan kúrs. Það eru þegar alvarlegar blikur á lofti.
    Sú velsæld sem keypt er þrældómi, óhóflegum fjarvistum foreldra frá heimili, börnum og fjölskyldu, því verði að geta ekki verið félagsvera og því að lifa menningarsnauðu fjölmiðlalífi, sú velsæld snýst fyrr en varir upp í andhverfu sína, vesöld. Til að forða því verður fólk að leggja á brattann og steypa af tindastólum þeim sem heyra ekki lengur í fólkinu í landinu. Í þeirri fjallgöngu ættu konur að vera í fararbroddi og það geta þær ef þær þekkja sinn vitjunartíma.
    Í dagblaðinu Tímanum var frétt 1. maí undir fyrirsögninni ,,Byggðaþróun í Noregi veltur á kvenþjóðinni``. Þar segir m.a. frá því að yfirvöld í Noregi hafi áttað sig á því að forsenda þess að halda byggðajafnvægi sé að hyggja sérstaklega að málefnum kvenna. Þar á bæ eru menn farnir að átta sig á því að lífið gangi ekki án kvenna. Það var vonum seinna. Þar fá þróunarverkefni sem miða að því að bæta atvinnumöguleika kvenna forgang og þau styrkt sérstaklega. Svona langt eru íslenskir ráðamenn ekki komnir. Ekki fær tillaga Kvennalistans á Alþingi um að 1 / 5 af árlegum framlögum ríkisins til Byggðastofnunar skyldi varið til uppbyggingar atvinnu fyrir konur neinar undirtektir. Gott ef hún þótti ekki hlægileg mismunun. Sömu sögu er að segja um tillögu
Kvennalistans um að á fjárlögum yrði varið 200 millj. kr. til átaks í atvinnumálum kvenna. Sú tillaga þótti að vísu ekki hlægileg heldur í hæsta máta ósvífin, þó sú upphæð sé ekki há mæld á milljarðamælikvarða stórvirkjana og álvera. Nei, hér dettur mönnum ekkert í hug annað en að stofna nefndir. Forsrh. skipaði eina slíka sem skyldi gera tillögur um atvinnuuppbyggingu og núv. umhverfisráðherra, þáv. hagstofuráðherra, skipaði aðra hugarflugsnefnd, eins og hann kallaði það, til álíka verka. Þarflaust er að taka fram að þessar nefndir voru algerlega lausar við mismunun. Í þeim sitja bara karlar.
    Hvað sitja Íslendingar svo uppi með sem úrræðið eina? Álver. Það nýjasta í dýrðaróði iðnrh. er að þar séu á ferðinni gullin atvinnutækifæri fyrir konur. Hið

ljósa man mun í framtíðinni framleiða hið ljósa ál í hreinlegu umhverfi, tæru lofti og á háum launum, að sögn hans. Trúir ráðherra þessu sjálfur eða er þetta bara nýjasta ábreiðan til að breiða yfir allan ófögnuðinn: Erlendu skuldasöfnunina, þensluna sem af hlytist, mengunina og þá staðreynd að þau rándýru atvinnutækifæri sem skapast leysa ekki atvinnuleysið um allt land nema ekki standi til að hætta fyrr en allt landið er undirlagt? Þá getum við líka gleymt draumnum um hreint land sem framleiðir úrvalsmatvörur úr afurðum lands og sjávar. Það er til nóg af mengaðri matvöru í heiminum. Gleymt draumnum um hreint land sem laðar að ferðamenn. Varla fara þeir að leggja leið sína til Íslands til að anda að sér menguðu lofti, borða mengaðan fisk og kjöt og glápa á virkjanir, álver og rafmagnslínur. Þeir hafa svo mikið af öllu þessu heima að eitt helsta baráttumál fólks um allan hinn vestræna heim er umhverfisvernd. E.t.v. er afrakstur þeirrar baráttu m.a. sá að álfurstar sýna nú aftur áhuga á Íslandi. Þeim er hvergi orðið vært heima fyrir lengur. Þegar við bætist svo ódýr orka, ódýrt vinnuafl og auðsveipir ráðamenn er von að þeir líti hingað hýru auga.
    En hvað þá? er spurt. Við eitthvað verður fólk að vinna. Fyrir utan fullvinnslu á sjávarafurðum okkar er margt fleira í boði en svo gersamlega eru menn slegnir álblindu að þeir hvorki sjá né heyra. Þess vegna er ekki leitað annarra úrræða. Ef ráðamenn þögguðu nú augnablik niður í öllum ráðgjöfunum og sérfræðingunum og legðu eyrun við mundu þeir fljótlega uppgötva að það úir og grúir af hugmyndum um atvinnu og nýsköpun um allt land. Þetta sannreyndum við kvennalistakonur á ferðum okkar um landið í sumar. Þetta höfum við margreynt á fundum með konum víðs vegar um landið. Sýningin Drekinn á Egilsstöðum sl. sumar, sem var árangur sameiginlegs átaksverkefnis á Austfjörðum, talar líka sínu máli. Ég nefni ágæta ráðstefnu sem haldin var í Bifröst í Borgarfirði sl. laugardag svo að eitthvað sé talið. Það skortir ekkert á hugmyndir en eitthvað hamlar framkvæmd. M.a. fjárskortur en e.t.v. ekki síður skortur á frumkvæði í héraði. Það skyldi þó ekki stafa af oftrú á ráðabruggi þeirra fyrir sunnan?
    Ef menn reyna að loka eyrum fyrir glamri og glæsiorðaflaumi þar sem allt er kennt við eitthvað stórt og hlusta á sína innri rödd, þá vill auðvitað enginn maður að álversdraumurinn rætist. Hvaða Íslendingur á sér þá framtíðarsýn að virkja allt hið lifandi vatn, klæða landið áli og ætla svo börnum sínum að borga skuldirnar, m.a. með því að vinna í álverum? Auðvitað vill þetta ekki nokkur maður ef hann horfir langt yfir skammt.
    Virðulegi forseti. Þó ég segði í upphafi að nú væri tími til að horfa um öxl, e.t.v. reiður, ætla ég að enda á því að horfa fram á veginn. Fáir taka undir það að Íslendingar eigi að ganga í EB. Þó er unnið að því leynt og ljóst að tengja Ísland stórríkinu föstum böndum. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið ásamt öðrum EFTA-ríkjum að ganga til samninga við EB um evrópskt efnahagssvæði. Þar eru lögð til

grundvallar lög og reglur EB. Áður en ég vík að því stjórnkerfi ætla ég að fara örfáum orðum um hver tilgangurinn er með EB. Allt er þar gert í nafni frelsis og ágóða, opnunar og haftaleysis. Þessi gömlu nýlenduveldi eru að finna sér aðra aðferð til að nýta sér önnur lönd en þau viðhöfðu áður. Tilgangurinn er sá sami: að komast yfir hráefni og fullvinna þau innan múranna sem verið er að reisa. Þeir eru ekki sjáanlegir en áhrifaríkir. Áður fóru þessar þjóðir með her til annarra landa, sóttu hráefnið í hendur innfæddra með hervaldi þegar verst lét, fluttu það heim, unnu það og auðguðust af. Nýtísku aðferðir eru aðrar. Nú reisa menn um sig tollmúra. Nú skal viðskiptaþvingunum beitt í stað vopna. Þetta er ekkert annað en ný nýlendustefna í dulargervi.
    Hvar standa Íslendingar í þessu dæmi? Ef af samningum verður dæmast Íslendingar til að verða fyrst og fremst hráefnisframleiðendur og orkubú. Erlendir aðilar munu ná undirtökum í íslensku atvinnulífi, ósérhæft vinnuafl flykkist til landsins og hætta á atgervisflótta úr landi svo eitthvað sé talið. Einstaklingum munu eflaust skapast aukin tækifæri á erlendri grund. En hvað yrði um íslenska þjóð? Því hvers megum við okkar í því miðstýrða ofurvaldi sem EB-löndum er gert og EFTA-löndum verður gert að beygja sig undir? Lýðræðiskjörin þjóðþing mega sín lítils ef ákvarðanir þeirra brjóta í bága við lög og vilja stórríkisins. Þar ræður fámennisstjórn og dómstóll þess ákveður m.a. hvaða lögum þurfi að breyta í aðildarríkjum til samræmis við lög stórríkisins. Ég óttast að með þátttöku í samningum EFTA og EB séu Íslendingar
að kalla yfir sig Gamla sáttmála hinn nýja. Er svo miklu fórnandi fyrir efnahagslegan ávinning?
    Hvað er þá til ráða? Valið stendur um að einangrast innan Evrópu eða utan. Einangrun utan Evrópu getum við rofið. Það eru ekki mörg ár síðan menn höfðu af því sárar áhyggjur að við seldum allt of mikið til Ameríku, viðskiptin við Evrópu væru allt of lítil. Svo fljótt skipast veður í lofti og svo fljótir eru menn að gleyma að nú er talað um það eins og heimsendi ef við misstum markaði okkar í Evrópu um einhvern tíma. En heimurinn er sem betur fer stærri en EB og Bandaríkin. Nýir markaðir hljóta að opnast í Austur-Evrópu og þess utan eru nokkrar heimsálfur. Hjólin snúast nú með meiri hraða en nokkurn óraði fyrir fyrir ári síðan. Fyrr en varir verður Evrópa að láta af einangrunarstefnu sinni. Hún þarf á okkar afurðum að halda og við á tengslum við hana. Við viljum halda áfram mikilvægri samvinnu, einkum á sviði vísinda og menningar, við Evrópu sem við tilheyrum bæði menningar- og sögulega.
    Það kann að verða einhver bið á því að leiðin opnist til beinna tvíhliða samninga milli Íslands og EB. Þeir samningar mega ekki verða með einhverjum afarkostum, heldur milli tveggja jafnrétthárra aðila. Við þurfum e.t.v. að taka á þolinmæðinni, erfiðleikar kunna að steðja að en einhverju þarf til að kosta ef við viljum vera sjálfstæð þjóð og það fara e.t.v. að verða síðustu forvöð að gera það upp hvort við viljum

það. Ef við viljum það þurfum við að stórefla íslenska menningu, byggja á góðri menntun, rannsóknum, hugviti og handverki, framleiðslu úrvalsmatvöru og ganga um landið eins og góð húsmóðir um eldhúsið sitt. Þá getum við mætt hverjum sem er sem upprétt þjóð í stað þess að liggja sífellt hundflöt fyrir höfðingjanna dyrum. Mörgum finnst þetta eflaust gamaldags úrtölutal, gott ef ekki í ætt við kúskinnsskó. En það verður þá bara að hafa það. Ég skirrist ekki við að liggja undir því ámæli að vera gamaldags og púkó og því til sönnunar ætla ég, með leyfi forseta, að ljúka þessu með orðum sem sett voru á blað árið 1944. Það gerði einn merkasti vísindamaður Íslendinga fyrr og síðar, dr. Björn heitinn Sigurðsson, sem jafnan var kenndur við Keldur. Hann segir:
    ,,Hin eilífa raunarolla, um að landið sé lélegt og erfiðleikar þjóðlífsins ósigrandi, verður að hljóðna. Við verðum að leggja fram vitsmuni okkar í ríkari mæli en áður í hlutfalli við stritið sem við höfum einkum byggt afkomu okkar á hingað til. Okkur skortir e.t.v. ekkert fremur en sjálfstraust til þeirra starfa sem fram undan eru. Margir Íslendingar hafa lært það af stórþjóðum að líta niður á allar smáþjóðir og sjálfa sig um leið. Flest annað hefðum við fremur mátt af stórþjóðum læra, því aldrei munum við duga betur en við treystum okkur sjálfir til.``
    Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.