Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Ég ætla nú ekki að hefja ræðu mína eða eyða hluta af henni í að mæla hér fyrir málum sem þingflokkur Frjálslynda hægri flokksins hefur flutt hér á þingi eins og menn hafa gjarnan notað tíma sinn í hér í kvöld. Ég vil heldur fá að koma aðeins inn á hinn mikla kjark hæstv. utanrrh. þegar hann lýsir því yfir að hann vilji leggja störf ríkisstjórnarinnar í dóm áhorfenda. Ég kalla það kjark vegna þess að störf ríkisstjórnarinnar eru lögð fyrir dóm fólksins í landinu með reglulegu millibili og birtast í skoðanakönnunum blaðanna með sex til átta vikna millibili og þar hefur ítrekað verið kveðinn upp sami dómur: Alversta og óvinsælasta ríkisstjórn allra tíma. Ef hæstv. utanrrh. er að kalla á enn eina skoðanakönnunina þá er ég alveg viss um að þeir aðilar sem að slíku standa eru reiðubúnir að verða við þeirri ósk. En dómurinn liggur fyrir, þeir hafa verið dæmdir óhæfir.
    Hæstv. utanrrh. eyddi hér hluta af sinni ræðu í að fara með tölur og útfæra þær. Ég ætla að leyfa mér að gera slíkt hið sama. Ég kemst kannski ekki alveg að jafnhagstæðum niðurstöðum og hæstv. utanrrh. en það mun koma í ljós.
    Fyrir réttu ári síðan, eða þann 27. apríl 1989, voru eldhúsdagsumræður. Í ræðu sinni við það tækifæri sagði hæstv. fjmrh. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Niðurstaðan úr rekstri ríkisins á fyrstu þremur mánuðum ársins sýnir það að ríkissjóður hefur skilað á þessum fyrstu þremur mánuðum 800 millj. kr. umfram í jákvæðari niðurstöðu en áætlanir sögðu til um, þ.e. tekjurnar hafa verið um 800 millj. kr. meiri á sama tíma og útgjöld hafa staðið í stað.``
    Þetta var niðurstaðan eftir þriggja mánaða fjármálastjórn Ólafs Grímssonar á hans fyrsta heila fjárlagaári, en það var einmitt árið sem átti að marka þáttaskil í fjármálastjórn íslenska ríkisins. Það muna auðvitað allir að þau fjárlög áttu að skila rúmlega 600 millj. kr. í tekjuafgang. Samkvæmt því sem
hæstv. fjmrh. sagði hér í umræðunni í fyrra og ég var að vitna til, þá var útgjaldastaðan góð. En það sem síðan skeður á þeim níu mánuðum sem eftir lifðu af fyrsta heila fjárlagaári Ólafs Grímssonar leiðir hins vegar í ljós að á þeim tíma fara útgjöld ört vaxandi og á endanum eru þau orðin 9000 millj. kr. eða níu milljarðar króna umfram heimildir. Með öðrum orðum, 1000 millj. kr. --- einn milljarður kr. --- og það allt í heimildaleysi á einum mánuði. Allt peningar sem ég og þú höfum unnið fyrir og greitt til ríkisins í formi skatta. Óráðsía og bruðl fjmrh. er með ólíkindum. Og hver á síðan að borga brúsann? Það erum við unga fólkið og komandi kynslóð. Það er hlaðið á okkur byrðum með hverjum degi sem þessi ríkisstjórn situr.
    En við skulum líta aðeins betur á stærðargráðu hins heimildarlausa peningaausturs Ólafs Grímssonar. Ég sagði að hann samsvaraði einum milljarði kr. á mánuði og það gerði hann. Það þýðir 250 millj. kr. á viku. Hjá öllu venjulegu fólki er vinnuvikan 40 stundir. Það þýðir að í 40 stunda vinnviku Ólafs

Grímssonar eyðir hann peningunum okkar, mín og þín og barnanna okkar, sem svarar 625 þús. kr. á hverri klukkustund, sem gerir síðan 10.417 kr. á hverri mínútu. Og við getum haldið áfram. Það gerir 173.60 kr. á hverri sekúndu. --- Og nú spyr ég ykkur sem á mig hlýðið: Er það svona fjármálastjórn sem þið viljið? Ég spyr ykkur sem vinnið í frystihúsunum og eruð með 260 kr. á tímann og virkilega vinnið fyrir þeim launum, er þetta það sem þið viljið að sé gert fyrir sameiginlega eign okkar, án allra heimilda? Viljið þið mann sem eyðir á einni og hálfri sekúndu samsvarandi og tekur ykkur heila klukkustund að vinna fyrir? Svari hver fyrir sig. En slíkan fjármálastjóra hygg ég að ekkert fyrirtæki mundi vilja hafa í þjónustu sinni og væri reyndar hvert einasta löngu búið að segja slíkum starfskrafti upp sem ekki gerði neitt annað en að sólunda fjármagni fyrirtækisins, fjármagni sem ekki væri í rauninni til. Með slíkar staðreyndir í huga og margt fleira sem ekki er tími til að ræða í þessum takmarkaða ræðutíma er ég ekkert hissa á því að í fundaherferð sinni um landið, sem Ólafur Grímsson fer nú þessa dagana, á okkar kostnað, mín og þín, vill hann ræða við fólkið í landinu um nútíð og framtíð en alls ekki fortíð. Það undrar mig ekki, en það staðfestir einnig að ef til vill er vottur af sektarkennd í brjósti Ólafs Grímssonar og það er vel ef svo er.
    Hæstv. forseti. Það er margstaðfest að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum hefur ekki traust þjóðarinnar. Því er vert að íhuga þá valkosti sem kjósendur hafa. Þeir valkostir eru ekki ýkja spennandi. Ég hef hér lítillega farið yfir fjármálastjórn varaþingmanns Alþb. og formanns þess. Sá flokkur er, eins og alþjóð veit, margklofinn og býður nú fram undir tveim listabókstöfum í komandi borgarstjórnarkosningum. Það er reyndar aðeins tímaspursmál hvenær Alþb. heyrir sögunni til eins og nú eru örlög annarra kommúnistaflokka víða um heim. Auðvitað tala verk ráðherranna. Ólafi Grímssyni, hæstv. fjmrh., þykir það t.d. ekkert tiltökumál að ríkið skuli eyða 940 millj. kr., tæpum milljarði kr., í ferða- og risnukostnað á síðasta ári, telur það meira að segja lítið. Svavar Gestsson, hæstv. menntmrh., sker niður framlög til framtíðar landsins, námsmanna, en er þess í stað tilbúinn að eyða hundruðum milljóna í viðgerð og
breytingar á Þjóðleikhúsinu. Hæstv. samgrh., Steingrímur Sigfússon, blæs á vegáætlun og sker niður framlög til vegamála, eins stærsta þáttarins í byggðastefnunni. Er það gert, að því sagt er, vegna þröngrar stöðu ríkissjóðs. Gott ef rétt væri. En nei, það er ekki svo. Það er gert fyrst og síðast til að geta gefið út kosningaloforð um jarðgangagerð út um hvippinn og hvappinn sem næsta ríkisstjórn má síðan glíma við að fjármagna, eins og í öðru ávísað á framtíðina, gefinn út innistæðulaus tékki. Og nú verða allaballar, svona eins og í eftirrétt, að gleypa eitt stykki álver ef þeir ætla að verma ráðherrastólana út kjörtímabilið. Og það mun ekki standa í þeim frekar en önnur stefnumál sem kokgleypt hafa verið.
    Þessi flokkur, sem ég hef hér eytt nokkru af

ræðutíma mínum í, er sá flokkur sem ræður ferðinni í ríkisstjórn Íslands og þess vegna ekki óeðlilegt að um hann sé nokkuð fjallað. En sá flokkur sem ber flokka helst ábyrgð á stöðu mála í dag er að sjálfsögðu Framsfl. sem hefur verið sleitulaust við stjórnvölinn í um 20 ár. Sá flokkur má ekki sýknt og heilagt komast upp með það að vísa öllu sem úrskeiðis fer yfir á samstarfsflokka sína. Framsfl. er það afl sem tafið hefur eðlilega þróun í atvinnulífi landsmanna. Flokkurinn sem á sök á hinni gríðarlegu miðstýringu sem hér er á öllum sviðum. Flokkurinn sem er fyrst og síðast ábyrgur fyrir öllu sjóðasukkinu sem hér viðgengst með tilheyrandi fyrirgreiðslupólitík og svínaríi. Flokkur millifærslukerfa þar sem peningar eru færðir úr einum vasa í annan með ærnum kostnaði, þar sem sjóðir eru notaðir til þess að hygla pólitískum gæðingum og fjármagn skattborgaranna er sett í óarðbærar framkvæmdir og vonlausan atvinnurekstur. Þetta er sá flokkur sem íslenska þjóðin hefur alls ekki efni á að hafa við stjórnvölinn öllu lengur.
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Það var eitt sinn til flokkur sem hét Alþfl. og voru liðsmenn hans stundum kallaðir kratar. Sé grannt skoðað og vel leitað má finna nokkra slíka en þó ekki marga og sennilega enga í Reykjavík. Sú var tíðin að sá flokkur bauð fram til borgarstjórnarkosninga. Nú heyrir það sögunni til þó enn megi finna eitt og eitt framboð krata úti á landsbyggðinni, en þeim fer ört fækkandi og virðast þeir fyrrverandi kratar flestir vera að leita sér að nýjum vettvangi. Á þann flokk er ekki vert að eyða fleiri orðum.
    Er ég þá kominn að hópi manna sem seldu sál sína fyrir ráðherrastóla og feita bita í nefndum og ráðum. Flestir hafa þeir fengið uppgert kaupverð sitt nema ef vera skyldi einn. Hafa innheimtuaðgerðir hans borið lítinn árangur og er nú svo komið að hann hótar að draga lið sitt til baka verði ekki nú þegar gert upp við hann. Gallinn er bara sá að hinir í hópnum eru alls ekkert á því að fylgja þessum eina ef hann léti nú verða af því að draga sig í hlé. Sennilega verður það því niðurstaðan að upphaflegt kaupverð verður lækkað allverulega. En þessi hópur manna er auðvitað ekki valkostur fyrir kjósendur. Einnota hlutir eru aðeins einnota.
    Þetta eru þeir flokkar sem standa að núverandi ríkisstjórn og nú má spyrja: Hverju hefur þessi ríkisstjórn áorkað? Hefur hún lækkað skatta? Nei, þvert á móti. Enda sagði hæstv. fjmrh. í þessari umræðu í fyrra: ,,Vissulega urðum við að leggja á nýja skatta til þess að snúa hallarekstrinum við.`` Það var nefnilega það. Það sem fjmrh. kallar ,,að snúa hallarekstrinum við`` er níu milljarða kr. halli á ríkissjóði. Ef þetta er ekki að missa allt niður um sig þá er ekkert að missa niður um sig.
    Já, ég var að spyrja hverju ríkisstjórnin hefði áorkað. Hefur atvinnuvegunum vegnað betur? Nei, yfir höfuð ekki. Hefur kaupmáttur launa vaxið? Nei, þvert á móti. Hefur atvinna aukist? Nei, ekki aldeilis, atvinnuleysi hér er nú að verða eins mikið, ef ekki

meira, og það var á sjötta áratugnum. Skammtímalausnir og að ýta vandanum á undan sér þannig að hann leggist á aðra eru meginmarkmið þessarar ríkisstjórnar. Hún er aðeins að hugsa um eigin eftirmála, ekki þjóðarhag.
    Hæstv. forseti. Mér er tjáð að svo mikill skjálfti sé nú í stjórnarliðinu, eins og við höfum reyndar orðið vör við að undanförnu, að sá skjálfti komi fram á jarðskjálftamælum og mælist í Richter-stigum. Enda er það alveg ljóst að tímar þessa samstarfs eru liðnir og nú aðeins spurning hvort þessi ríkisstjórn nær að lafa saman út kjörtímabilið eða ekki. Um það er vonlaust að spá, en eftir að hafa horft upp á hverja uppákomuna á fætur annarri milli stjórnarliða yrði ég ekki hissa á því að til kosninga gæti komið fyrr en menn grunar.
    Þá bið ég fólk að gera sér grein fyrir því sem ég hef hér rakið og íhuga hinn valkostinn, hægri stefnuna. Það er sú stefna ein sem getur orðið þessari þjóð og sjálfstæði hennar til bjargar. Þjóðin verður að hafna með afgerandi hætti vinstri stefnu Alþb., Alþfl., Kvennalista og Borgfl. Þjóðin verður einnig að refsa og hafna Framsfl., flokki vinstra miðjumoðs og tækifærismennsku. Þjóðin verður að velja hægri stefnu og það veit ég að hún gerir.
    Ég hvet alla til þess að taka þátt í sveitarstjórnarkosningunum sem brátt fara í hönd og sýna þar hvað þjóðin vill. Sýna að hún vill hægri stefnu. Við
frjálslyndir hægrimenn munum alla tíð berjast gegn hörmungarstefnu vinstri flokkanna. Stefnu hafta og banna, stefnu eignaupptöku, stefnu miðstýringar, stefnu ríkisforsjár í einu og öllu, stefnu margsköttunar, stefnu kommúnismans. Við í Frjálslynda hægriflokknum viljum vinna með hag fólksins í landinu að leiðarljósi. Það höfum við gert og munum halda því áfram.
    Góðir Íslendingar. Gleðilegt sumar.