Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Miklu sviptingaþingi er að ljúka. Margt hefur borið við sem hefur vakið athygli í fjölmiðlum en það sem hefur borið hæst síðustu dagana eru hamfarir íhaldsins gegn ráðuneyti umhverfismála. Þar hefur verið á ferðinni eindæma pólitísk þröngsýni og hatursviðbrögð gagnvart ríkisstjórninni í heild og sérstaklega þeim manni sem gegnir starfi umhvrh. Ég hef setið á tólf þingum og hef aldrei kynnst jafnmálefnasnauðri stjórnarandstöðu allan þann tíma og birst hefur í framgöngu íhaldsins gegn umhverfisfrv. undanfarnar vikur. En þessi viðbrögð eru líklega tímanna tákn. Annars vegar eru stjórnvöld sem reyna að sækja fram á forsendum framtíðar og vinstri stefnu til betra mannlífs í þessu landi þar sem umhverfismálin munu setja vaxandi svip á umræðurnar. Umhverfismálin munu ráða úrslitum um þróun stjórnmálanna á næstu áratugum og það er til marks um steinrunninn afturhaldshugsunarhátt þegar íhaldið leggst gegn ákvörðun um stofnun umhvrn. Það sýnir að íhaldið er samt við sig, þar er á ferðinni í einni för svartasta afturhald landsins og þótt víðar væri leitað, a.m.k. hér norðan við Balkanskaga.
    Eftir erfiðleika og stöðnun í efnahagslífinu er nú loksins að rofa til eins og formaður Sjálfstfl. gat um í fyrstu ræðu sinni hér í kvöld. Verkefni ríkisstjórnarinnar hefur verið að þurrka út afleiðingarnar af vaxtaokri frjálshyggjunnar sem hefur brotið niður hundruð fyrirtækja og heimila og þúsundir og aftur þúsundir einstaklinga. Nú er landið að rísa og annar tími blasir við. Þrátt fyrir erfiðleikana að undanförnu hefur þó tekist að knýja fram margháttaðar breytingar, t.d. í mennta- og menningarmálum, sem geta markað tímamót. Framlög til menningarmála eru hærri nú að raunvirði á þessu ári en þau hafa áður verið. Framlög til lánamála námsmanna hafa aldrei verið hærri en þau eru á þessu ári og 9. apríl sl. gaf ég út reglugerð um hækkun námslána
í haust sem þurrkar út síðustu leifarnar af ráðsmennsku Sjálfstfl. í lánamálum íslenskra námsmanna. Mörg verkefni á sviðum menningarmála hafa verið erfið eins og endurreisn Þjóðleikhússins. Þar hefur gengið maður undir manns hönd til þess að reyna að rægja og eyðileggja framkvæmdina. En ég er sannfærður um að þegar framkvæmdunum þar er lokið munu allir vilja þá Lilju kveðið hafa og þeir sem hæst hafa látið munu iðrast fyrirgangsins.
    Það sem mestu skiptir á sviði skólamála eru ákvarðanir um nýja stefnu í málefnum Háskólans með lagasetningu um stóraukið sjálfstæði Háskólans, ákvarðanir um nýtt inntak framhaldsskólans og lagasetning um tíu ára grunnskóla sem afgreidd er á þinginu þessa sólarhringa. Það hafa verið sett ný lög um Námsgagnastofnun, sett hafa verið lög um skákskóla og launasjóð stórmeistara. Og fleira liggur fyrir, frv. um Kvikmyndastofnun, Þjóðleikhús, frv. til útvarpslaga og þar liggur fyrir stefna okkar um

sjálfstæði menningarstofnana, bæði fjárhagslegt og faglegt. Þau þessara mála sem ekki verða afgreidd á þessu þingi verða afgreidd á næsta þingi og tekin þar til meðferðar. Hið sama er að segja um frv. sem þegar liggur fyrir þessu þingi um vernd barna og ungmenna, frv. til nýrra æskulýðslaga, frv. um fullorðinnafræðslu, um listaháskóla, listamannalaun og náttúrufræðirannsókir.
    Alls hafa um 20 mál verið lögð fyrir þingið í vetur á vegum menntmrn. og hefur um helmingur þeirra hlotið einhverja afgreiðslu. Það hefur verið vel unnið og það er í góðu samræmi við stefnu Alþb. þar sem mennta- og menningarmál eiga að vera í fyrirrúmi. Menningin er undirstaða sjálfstæðisins og börnin eru framtíðin. Sú ákvörðun að lengja skóladag yngstu barnanna skiptir mjög miklu máli í þessu efni. Lengingin verður strax í haust og kemur fram í 1., 2. og 3. bekk grunnskólans og fjármunir vegna lengingarinnar eru tryggðir á fjárlögum ársins 1990. Hér er um að ræða fyrsta skrefið í þá átt sem menntmrn. hefur mótað í stefnu sinni, að öll börn geti átt kost á allt að 35 stunda skólaviku. Mótun þessarar stefnu flytur skólann ofar á forgangslista þjóðfélagsins, en barnaskólar hér á landi hafa á mörgum sviðum verið mörgum árum á eftir þróuninni í grannlöndum okkar.
    Hér í þinginu liggur einnig frv. um leikskóla. Þar er sýnt fram á leiðir til að opna leikskólarými fyrir fjögur börn af hverjum fimm á tíu ára áætlunartímabili og hvernig þær leiðir á að fjármagna. Ég tel að þetta frv. og stefna þess hljóti að verða eitt aðalkosningamálið í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Það er úrslitaatriði að við búum betur að börnum okkar. Þjóðfélagið hefur vanrækt börnin herfilega og annað hvert barn á varla nokkurt annað úrræði en götuna. Því ófremdarástandi verður að linna.
    En virðulegi forseti, þó að margt hafi gengið allvel þá hefur stjórnarsamstarfið auðvitað ekki verið dans á rósum. Þátttakendur í þessu stjórnarsamstarfi eru fjórir ólíkir stjórnmálaflokkar. Alþb. er afgerandi lengst til vinstri þeirra flokka sem í stjórninni eru og í stjórnarsamstarfinu hafa orðið átök um ýmis mál eins og eðlilegt er. Þau hafa ekki aðeins verið í álmáli og efnahagsbandalagsmáli, sem landbrh. gerði hér grein fyrir áðan, þau
hafa einnig komið fram í mennta- og menningarmálum. Á þessum sviðum hafa iðulega birst ótrúleg þröngsýnisviðhorf þar sem menn spara eyrinn en kasta krónunni. Ég ætla ekki að segja neinar sögur af því núna en ég geri það strax og ég fæ tækifæri til því þessi afturhalds- og þröngsýnisviðhorf mega ekki liggja í þagnargildi, þau þurfa að birtast þjóðinni allri í aðvörunarskyni.
    Góðir tilheyrendur. Sviptingarnar í utanríkismálum hafa verið ævintýralegar á þessum vetri. Almiðstýrt efnahagskerfi Austur-Evrópu er hrunið til grunna. Svo hlaut að fara. Vonandi tekst að reisa á rústum þess lýðræðislegt stjórnskipulag jafnréttis- og mannúðarsjónarmiða. En um leið og þetta kerfi hrynur eystra gerbreytist heimsmyndin. Þeir sem hafa verið

að berjast fyrir varaherflugvelli hér á landi hafa orðið að athlægi í augum allrar þjóðarinnar í dag þegar það liggur fyrir að sjálfur páfinn, Ameríkaninn sjálfur, telur ekki þörf á þessu trúboði hér á landi meir. Og í þokkabót er því reyndar lýst yfir vestur í Bandaríkjunum að almennt verði dregið úr hernaðarumsvifum Bandaríkjamanna erlendis. Þannig hrynja hervirki kalda stríðsins til grunna lið fyrir lið. En á Alþingi Íslendinga eru menn sem enn halda dauðahaldi í kaldastríðsvofuna. Nýjasta dæmið er einmitt þessi varaherflugvöllur.
    Nýlega, þegar rætt var um þingslitin milli stjórnar og stjórnarandstöðu, var varaflugvöllurinn eina, aleina áherslumál Sjálfstfl. sem brýnt var að fá afgreitt. Rétt í þann mund sem Sjálfstfl. ætlaði að fara að búa sig til málþófs enn þá einu sinni hér í þinginu út af varaherflugvellinum tilkynntu Bandaríkjamenn að þeir hefðu ekki lengur áhuga á þessum framkvæmdum. Þannig dagar Sjálfstfl. uppi eins og nátttröll í vorinu. Það væri réttast að láta gera líkan af varaflugvellinum og geyma það í sögusafni Alþingis þegar það verður sett upp til marks um helfrosin viðhorf grárrar forneskjunnar, rétt eins og torfljárinn og töðumeisinn á Þjóðminjasafninu. En nú er sem betur fer vor í lofti.
    Þeir sem ætluðu að eyðileggja umhverfismálin koma sínum málum ekki fram. Unnt er að taka ný mál til framkvæmdar á næstu mánuðum á grundvelli þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur framkvæmt. En til þess að vel takist verða viðhorf Alþb. að styrkjast til sóknar í sveitarstjórnarkosningunum eftir þrjár vikur. Grundvallaratriðin í stjórnmálunum eru: Umhverfisvernd, sjálfstæði þjóðarinnar, lýðræði, jöfnuður, mannúð. Þessi grundvallaratriði eiga sér hvergi betri samnefnara en í sjónarmiðum Alþb. Það skiptir því miklu að listar Alþb. komi sterkir út úr kosningunum, listar sem Alþb. ber fram í
hverju byggðarlagi eða listar sem flokkurinn styður. Úrslitin í Reykjavík skipta þar verulegu máli. Ég skora á félaga mína í Reykjavík og stuðningsmenn Alþb. um land allt að nota hverja einustu stund fram að kosningum til þess að breyta vonum andstæðinga okkar í vonbrigði. Nú kemur vor eftir langan og kaldan vetur frjálshyggjunnar. Það vor þarf að nota til þess að hlúa að nýjum grösum nýrra viðhorfa og víðsýni, að hugsjónum sem byggjast á mannúð og jafnrétti sjálfstæðs íslensks þjóðfélags, en hafna kröfunum um að reyra Ísland fast við hinar stóru, köldu blokkir og hafna sjónarmiðum hinnar köldu gróða- og tæknihyggju en reisa í öndvegi menntir og menningu, manninn sjálfan, líf hans og lífsviðhorf. --- Góðar stundir og gleðilega kosningabaráttu.