Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes):
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir tæplega ári síðan stóðum við þingmenn Borgfl. frammi fyrir örlagaríkri ákvörðun, þeirri ákvörðun hvort við ættum að ganga til liðs við þáv. stjórnarflokka og mynda ríkisstjórn með traustum þingmeirihluta eða hjálpa sjálfstæðismönnum á þingi við að knýja fram kosningar svo þeir gætu aftur tekið völdin í sínar hendur. Þegar horft er yfir farinn veg er enginn vafi í mínum huga að við tókum rétta ákvörðun. Efnahagsmál þjóðarinnar eru sem óðast að komast í gott horf. Verðbólgan, hinn mikli ógnvaldur á Íslandi, virðist loks vera að láta í minni pokann. Vextir fara lækkandi og það hillir undir að við losnum við lánskjaravísitöluna sem í mínum huga er niðurlægingartákn fyrir þá óstjórn sem hér hefur verið til margra ára. Ekkert annað Evrópuríki notar verðtryggingu á fjármagn eins og við gerum. Svo þykjumst við ætla að fara í víðtækt samstarf á sviði peningamála og fjármagnsþjónustu innan evrópska efnahagssvæðisins. Ætli það væri ekki rétt að taka upp nútímalegri aðferðir í forstokkuðu bankakerfi okkar fyrst?
    Friður ríkir á vinnumarkaði um kjarasáttina sem náðist í vetur á þeim grundvelli sem skapaðist við það að þingmenn Borgfl. tóku rétta ákvörðun. Það er meira að segja aftur orðinn valkostur hjá venjulegum fjölskyldum að kaupa lambakjöt í matinn öðru hverju sem annars var horfið af borðum heimilanna í forsætisráðherratíð Þorsteins Pálssonar.
    Virðulegi forseti. Hin leiðin var að hjálpa Sjálfstfl. að ná völdum á nýjan leik eftir kosningar sem líklega hefðu átt sér stað vorið 1989. Ég þarf varla að lýsa því fyrir þeim sem á mál mitt hlýða hvernig ástandið væri nú ef svo hefði farið. Að vanda hefðu menn lofað út og suður, opnað allar flóðgáttir ríkissjóðs. Eftir 2--3 mánaða samningaþóf hefði ný ríkisstjórn undir forustu sjálfstæðismanna tekið við völdum og sama fjármálaóstjórnin haldið innreið sína. Sennilega væri nú allt í steik og 100% verðbólga ef Borgfl. hefði ekki
haft þrek til þess að taka þá ákvörðun að ganga til núverandi stjórnarsamstarfs. Þar þurfti þrek til því að önnur eins ófrægingar- og áhróðursherferð sem síðan hefur verið rekin í fjölmiðlum gegn Borgfl. og formanni hans, í öllum þeim fjölmiðlum sem stjórnarandstaðan hefur haft umráð yfir, er með ólíkindum. Lýðræðið og þingræðið hefur verið fótum troðið í þeirri herferð.
    Hæstv. forseti. Miklar hræringar og umrót eru nú í íslenskum stjórnmálum. Sú uppstokkun á flokkakerfinu og breytingar á hefðbundnu stjórnmálamunstri sem kennd hefur verið við gamla fjórflokkinn er komin á fulla ferð. Þótt margar tilraunir hafi verið gerðar á árunum eftir stríð til að rjúfa valdaeinokun gömlu flokkanna er enginn vafi að framboð Borgfl. í alþingiskosningunum 1987 er þar þyngst á metunum. Að vanda hafa gömlu flokkarnir, dyggilega studdir af fjölmiðlum sínum, reynt að drepa

þessa stjórnmálahreyfingu sem hinar fyrri sem hafa lagt til atlögu við fjórflokkinn. Atburðirnar í Austur-Evrópu hafa hins vegar í einni svipan gerbreytt ástandinu. Skyndilega eru sósíalistaflokkar Evrópu úreltir. Fólkið hefur einfaldlega hafnað öfgakenningum kommúnista og sósíalista um alla Evrópu. Þetta flýtir fyrir þeirri nauðsynlegu þróun að stokka upp gamalt og úr sér gengið flokkakerfi. Hagsmunagæslan, kjördæmapotið og valdabaráttan drepur hvern vott af frjórri hugsun. Því er orðið lífsspursmál að nýjar stjórnmálahreyfingar nái öruggri fótfestu í íslenskum stjórnmálum. Annars hjökkum við áfram í sama farinu og búum við endalausa umræðu og kjaftæði um efnahagsmál þjóðarinnar.
    Ég ætla að biðja ykkur, landsmenn góðir, að hugleiða með mér þá framtíðarsýn sem ég sé fyrir mér í íslenskum stjórnmálum. Jafnaðarmannaflokkurinn er á leiðinni, á því er enginn vafi. Hann mun væntanlega taka við stórum hluta Alþb., Alþfl. og jafnvel hluta af kjósendum Framsfl. Stóri miðflokkurinn, rétt hægra megin við miðjuna, er einnig á leiðinni. Hann mun taka til sín stóran hluta kjósenda Sjálfstfl. Hin umburðarlyndu og frjálslyndu öfl stærsta hluta Framsfl., Borgfl. og fleiri slíkar hreyfingar sem hafa líkar skoðanir sem ég hef trú á að fari saman við vilja og skoðanir mikils hluta þjóðarinnar. Afgangurinn af Sjálfstfl. mun svo mynda litla hægri flokkinn, sem að sjálfsögðu verður að vera til staðar. Einhver verður að gæta hagsmuna fjölskyldnanna fimmtán, stórfyrirtækjanna og útgerðarkónganna. Þessi uppstokkun á íslenskri pólitík er óumflýjanleg og hún mun skapa þá festu í þjóðmálum sem við erum öll að leita eftir. Hún kann að taka sinn tíma því gömlu flokkarnir munu ekki gefa eftir valdaaðstöðu sína í þjóðfélaginu baráttulaust.
    En hver eiga að vera aðalstefnumál stóra miðflokksins? Ég held að við í Borgfl. höfum megnað að setja þau fram á einfaldan og skiljanlegan hátt. Í fyrsta lagi verður að draga úr miðstýringunni. Það verður að efla sjálfsstjórn landshlutanna. Fólk verður að hafa umráð og vald yfir eigin örlögum. Heimamenn eiga að stýra skólamálum, heilbrigðis- og samgöngumálum og ráðstafa sjálfir fjármunum til þeirra verkefna. Jafnframt verður að ætlast til þess að þeir beri fulla ábyrgð á atvinnulífinu hver á sínum stað.
    Í öðru lagi þarf að auka á frjálsræði í verslun og viðskiptum og afnema allar óþarfa hömlur sem standa atvinnulífinu fyrir þrifum. Við getum ekki einangrað okkur hér á eyju langt norður í hafi og neitað að viðhafa þær leikreglur sem fylgja nútímaviðskiptum. Ef við ætlum að spjara okkur í samkeppninni við aðrar þjóðir verðum við að gefa fyrirtækjum og einstaklingum fullt athafnafrelsi til að leita hagstæðustu kjara í bankaviðskiptum og fjármagnsþjónustu, svo að dæmi séu tekin hvar sem þau finnast.
    Skriffinnsku- og haftakerfi, sem veitir úreltu bankakerfi einokunaraðstöðu, gengur ekki lengur upp. Þjóð eins og Íslendingar sem lifir algerlega af

útflutnings- og innflutningsverslun má ekki reisa haftamúra kringum svo mikilvæga starfsemi.
    Í þriðja lagi vil ég minna á þann mikilvæga þátt stefnuskrár okkar sem felst í kjörorðunum ,,mannúð og mildi``. Í þessu litla þjóðfélagi er hver einstaklingur svo verðmætur að enginn má verða undir í lífsbaráttunni. Stuðningur okkar við þá sem minna mega sín í þjóðfélaginu, sjúka, aldraða, fatlaða, verður áfram hornsteinn stefnuskrár okkar.
    Hæstv. forseti. Á þingi eru nú miklar deilur um frv. til laga um stjórn fiskveiða. Okkur borgaraflokksmönnum er núið um nasir að við höfum kúvent í afstöðu okkar til kvótans og selt sál okkar djöflinum í þeim efnum. Vissulega erum við ekki vinir kvótans og teljum áfram að annað og heppilegra form stjórnunar á hinni takmörkuðu auðlind hafsins væri heppilegra. Hins vegar heimiluðum við það á sínum tíma að frv. yrði lagt fram sem stjfrv. með ákveðnum skilyrðum sem við settum, m.a. þeim að við mundum áskilja okkur rétt til þess að flytja og styðja hvers kyns brtt. Í nokkrum veigamiklum atriðum var komið til móts við sjónarmið Borgfl. M.a. var samþykkt við afgreiðslu málsins í Ed. í gær að fela nefnd að endurskoða eftirlits- og stjórnunarþátt veiðanna og athuga með hvaða hætti megi aðskilja eftirlit og úrskurðarvald frá sjútvrn. Sömuleiðis var samþykkt að láta fara fram athugun á öðrum leiðum til fiskveiðistjórnunar.
    Þarna er fengin viðurkenning á því í fyrsta sinn í langan tíma að til séu aðrir kostir en kvótinn og hagkvæmni hinna mismunandi aðferða verði könnuð. Við höfum tekið undir þau sjónarmið að nauðsynlegt sé að geta með einhverjum hætti komið til aðstoðar byggðarlögum þar sem vandræðaástand og atvinnuleysi hefur skapast vegna samdráttar í sjávarútvegi. Við erum ekki fylgjandi sérstökum byggðakvóta eða fiskvinnslukvóta. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa möguleika á því að geta veitt aðstoð, t.d. með því að geta úthlutað tímabundið aflaheimildum til slíkra byggðarlaga eins og nú er gert ráð fyrir gegnum Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Byggðakvóti yrði einungis til að frysta byggðina eins og hún er nú og stöðva alla eðlilega byggðaþróun. Réttast er að sjálfsögðu að taka upp svæðisbundinn aflakvóta, þ.e. að landshlutarnir fái hver sinn hlut af heildaraflamarki ársins. Landshlutastjórnirnar ráðstafi svo sínum hluta eins og þeim sýnist á sama hátt og þær ráðstafa fjármagni til skólamála, heilbrigðis- og samgöngumála, eins og ég talaði um áðan. Þær gætu selt kvótann, gefið hann, haft frjálsan aðgang til veiða innan kvótarammans, allt eftir vilja heimamanna. Með þessum hætti er forræðið í höndum heimamanna en ekki í höndum miðstýringarmanna í Reykjavík. Sjútvrn. á hins vegar að ákveða heildaraflamark ársins og skipta því niður milli landshlutanna. Það á enn fremur að sinna því meginverkefni að stuðla að skynsamlegri nýtingu og verndun fiskstofnanna.
    Hæstv. forseti. Við hverfum ekki frá kvótakerfinu yfir í annað kerfi, t.d. það sem hér hefur verið lýst, í einu vetfangi. Þess vegna var það ásættanlegt fyrir

okkur að fyrstu skörðin í kvótamúrinn eru tekin með brtt. sem við áttum aðild að.
    Hæstv. forseti. Í dag var ég viðstaddur ánægjulega athöfn er Stálfélagið hf. hóf starfsemi sína með því að fyrstu bílhræin voru keyrð í gegnum tætara verksmiðjunnar. Bílhræ og ónýtar vélar á víðavangi munu vonandi brátt heyra fortíðinni til. Þetta er stórt átak á sviði umhverfisverndar sem ástæða er til að fagna sérstaklega.
    Sem umhverfisráðherra hef ég í dag enn fremur skipað sorphirðu- og endurvinnslunefnd sem er ætlað að kanna ástand sorphirðu um allt land og gera tillögur um úrbætur í því efni. Mun nefndin taka mið af nýjustu tækni og aðferðum sem nágrannalöndin hafa tekið upp en því miður erum við Íslendingar miklir eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum. Á sumum sviðum er ástand umhverfismála á Íslandi mörgum árum á eftir því sem gerist í nágrannalöndunum. Á sama hátt er verið að undirbúa úttekt á holræsamálum um allt land og aðgerðir í þeim efnum. Ekki er vanþörf á því að ástandið víða um land er vægast sagt hörmulegt. Það er því mikil ábyrgð þeirra sem vísvitandi hafa reynt að tefja þessa vinnu ráðuneytisins og virðist vera það mikið kappsmál að hið íslenska umhverfisráðuneyti verði sem næst verkefnalaust. Mér eru slík vinnubrögð lítt skiljanleg, enda erfitt að skýra þau út fyrir þeim fjölmörgu áhugasömu umhverfisverndarsinnum utan lands sem innan. Umhverfismál eru málefni framtíðarinnar. Um þau mun allt snúast á næstu áratugum. Æðstu
stjórnmálamenn heimsins koma nú reglulega saman til að ræða umhverfisvernd á alheimsgrundvelli. Ef Íslendingar ætla að vera áfram í samfélagi vestrænna þjóða, daga ekki uppi sem óhreint barn sem ekki hefur verið kennt að þvo sér, gengur ekki að ræða umhverfismál á þann fáránlega hátt sem gert hefur verið á Alþingi í vetur.
    Þökk sé þeim sem hlýddu. Gleðilegt sumar.