Geir H. Haarde:
    Virðulegur forseti. Góðir áheyrendur. Það er nokkur lenska í þessu landi að gera lítið úr störfum Alþingis og hafa störf ríkisstjórna og ráðamanna sífellt í flimtingum. Þannig á það ekki að vera. Æðsta stjórn ríkisins er ekkert grín eða gamanmál. Það er mikilvægt að hún farist vel úr hendi þeirra sem fyrir er trúað. Það getur skipt sköpum um heill okkar litlu þjóðar og framfarir í landinu sem og um álit og traust íslenska ríkisins út á við.
    Ég hygg að allir Íslendingar vilji innst inni geta trúað því að þeir sem veljast til forustu í landsmálum, hvar í flokki sem þeir standa, séu ábyrgir einstaklingar sem hægt sé að treysta, menn sem hafi hagsmuni þjóðarinnar og ekkert annað að leiðarljósi. Íslenska þjóðin stendur saman þegar á reynir og vill geta fylkt sér að baki forustumanna sinna þegar því er að skipta. Það er þess vegna dapurlegt þegar ráðamenn sjálfir grafa undan trausti almennings á stjórnarfarinu eða verða að athlægi vegna ummæla sinna eða athafna. Þá dvínar virðing manna og traust og sú grínímynd sem fjölmiðlar draga stundum upp situr ein eftir.
    Því miður hefur virðingu fyrir stjórnarfarsreglum og þar með stjórnvöldum farið hnignandi í tíð núv. ríkisstjórnar eins og þeirrar sem mynduð var á undan henni í pólitísku samsæri gegn Sjálfstfl. í september 1988. Og það er forsrh. hæstv. ekki sæmandi að tala enn þann dag í dag eins og hann hafi nánast ekki setið í ríkisstjórninni sem þá fór frá völdum.
    Á þessum vetri hafa menn orðið vitni að því hvernig þjösnað hefur verið í gegnum Alþingi breytingum á sjálfu Stjórnarráði Íslands. Breytingum sem eingöngu eru til komnar í valdabraski stjórnarflokkanna og liður í að tryggja ríkisstjórninni nægilega mörg atkvæði á Alþingi. Það er grundvallaratriði að lög um undirstöðustofnanir stjórnkerfisins fái að standa upp úr dægurþrasi stjórnmálanna og séu ekki notuð sem skiptimynt í atkvæðaviðskiptum hér á Alþingi.
    Nú síðustu dægrin hefur sjónarspil í röðum stjórnarliðsins átt sér stað á bak við tjöldin þar sem atkvæði einstakra stjórnarþingmanna virðast vera föl hæstbjóðanda. Að hluta til er hér um að ræða framhald á braskinu með Stjórnarráðið og að hluta til önnur mál, svo sem kvótakerfið í fiskveiðum. Ekki er fengin endanleg niðurstaða á þessum hrossamarkaði ríkisstjórnarinnar, en auðvitað næst þar eitthvert samkomulag. Menn sem ekki hafa grundvallarsannfæringu í málum geta komið sér saman um hvað sem er. Og oft tala þeir hæst um hugsjónir sem engin hafa pólitísku prinsippin. Leiðtogar stjórnarflokkanna hafa margsýnt á stuttum valdaferli sínum að þeir eiga aldrei í vandræðum með að ná saman, þeir eru alltaf til í að semja um hvað sem er, bara eitthvað, alveg sama hvað það er, til þess að halda völdunum áfram. Og það verður vissulega fróðlegt að hlýða á sögur Svavars Gestssonar úr stjórnarsamstarfinu þegar hann leysir frá skjóðunni, eins og hann lofaði áheyrendum fyrr í kvöld.

    Ýmsir halda að stjórnmál snúist um það eitt að karpa um efnahagsmál og setja um þau lög hér á hinu háa Alþingi. Það er auðvitað misskilningur. Fyrir efnahagsmálunum er best séð ef stjórnmálamennirnir láta þau sem mest í friði. Í stjórnmálunum er hins vegar ekki síst tekist á um tiltrú manna á þeim hugsjónum sem stjórnmálamenn segjast berjast fyrir. Þegar þeir komast í valdastöður reynir á hvort þeir eru traustsins verðir og hvað er að marka það sem þeir hafa sagt á leið sinni til valda. Sú leið getur verið misjafnlega löng og krókótt. Stundum liggur hún inn um bakdyr Alþingis alla leið í sæti fjármálaráðherrans. Hæstv. núv. fjmrh. er, eins og hæstv. utanrrh., iðinn við að ferðast um landið í nafni ráðuneytis síns og halda pólitíska áróðursfundi fyrir það flokksbrot á vinstri vængnum þar sem hann hefur nú hreiðrað um sig. Stundum eru þeir saman á ferð, stundum einir. Eflaust gerir hæstv. fjmrh. á þessum fundum sínum rækilega grein fyrir skattahækkunum sínum og frumkvæði því sem hann hefur haft um að setja lög um að m.a. hópur húsbyggjenda og íbúðarkaupenda séu sviptir húsnæðisbótum með afturvirkum hætti. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að tiltekinn hópur fólks sem taldi sig í góðri trú eiga rétt á slíkum bótum hefur verið sviptur þeim með afturvirkum hætti. Frv. okkar sjálfstæðismanna um að hnekkja þessari ósvinnu hefur dagað uppi hér í þinginu. Vonandi verður einhver til þess að taka það mál upp fyrir dómstólum.
    Það eru ekki mörg þingmál, virðulegur forseti, sem standa upp úr eftir þinghald vetrarins. Stærsta málefni þingsins, frv. um stjórn fiskveiða, hefur illu heilli orðið leiksoppur á hinu pólitíska innanhússuppboði ríkisstjórnarinnar. Og það er fleira kyndugt í kýrhaus ríkisstjórnarinnar. Þessa dagana er verið að reyna að troða í gegnum þingið frv. um breytingar á verkamannabústaðakerfinu þótt á því séu hinir ótrúlegustu annmarkar. Með því frv. er m.a. ætlunin að svipta sveitarfélög yfirráðarétti að hluta til yfir íbúðum sem þau eiga og leigja sínum skjólstæðingum. Félagsmálaráð Reykjavíkurborgar hefur í dag mótmælt þessum áformum samhljóða. Enn fremur er ætlunin að afnema hin svokölluðu viðbótarlán úr Byggingarsjóði verkamanna sem
þeir hafa átt kost á sem búa við sérstaklega erfiðar fjölskyldu- og fjárhagsaðstæður en eru að reyna að koma sér upp eigin þaki yfir höfuðið. Við sjálfstæðismenn höfum talið að það væri ekki síst þessu fólki sem verkamannabústaðakerfinu var ætlað að koma til aðstoðar. En þinglið hinna svokölluðu félagshyggjuflokka, undir forustu félmrh., hefur hafnað samstarfi um að fá þessum ákvæðum breytt í fyrra horf.
    Það var fróðlegt, virðulegur forseti, að hlýða á ráðherrana tala um skýrslu OECD og stæra sig af þeim árangri sem náðst hefur. Og það er fróðlegt að heyra þá tala um hæstv. forsrh. sem líka bar höfuðábyrgð á stjórn efnahagsmála í ríkisstjórninni 1985--1987. En sannleikurinn er sá að með samningunum sem tókust nú í febrúar tóku launafólk

og atvinnurekendur ráðin af hæstv. ríkisstjórn og höfnuðu áframhaldandi forsögn fjmrh. og forsrh. Stjórnarframkvæmd í efnahagsmálum er nú að verulegu leyti komin í hendur launanefndar úti í bæ sem samtök aðila vinnumarkaðarins ásamt efnahagsstofnunum ríkisins skipa. Launanefndin, eða launráðið svokallaða, hefur tekið við hinu raunverulega frumkvæði og forustu í efnahagsmálum af ríkisstjórninni og verða margir mér sammála um að segja: sem betur fer.
    Virðulegur forseti. Nú eru aðeins rúmar þrjár vikur til kosninga í bæjum og sveitarstjórnum. Í Reykjavík hafa sameiningartilraunir vinstrimanna mistekist og hinn nýi vettvangur reynst lítið annað en nýr vígvöllur glundroðamanna. Alþb. er lagst banaleguna í kjölfar frelsunar alþýðunnar í Austur-Evrópu og verður fáum harmdauði. Ágreiningurinn þar á bæ hefur komið glöggt fram í kvöld og var fróðlegt að fylgjast með svipbrigðum formanns Alþb. þegar samráðherrar hans úr Alþb. hvöttu menn til að kjósa G-listann í kosningunum. Hvergi hafa kostir þess að fela einum stjórnmálaflokki óskoraða ábyrgð komið betur í ljós en hér í höfuðborginni. Ljóst er að Sjálfstfl. hefur byr í seglin í komandi kosningum. Það er kannski þess vegna, og sennilega þess vegna, sem hv. þm. Guðni Ágústsson og aðrir ræðumenn hér hafa ráðist á Sjálfstfl. í þessum umræðum af jafnmikilli heift og jafnmiklu offorsi og þeir hafa gert. Þeir eru hræddir, þeir eru lafhræddir við yfirvofandi sigur Sjálfstfl. í kosningunum. Það veltur á miklu að stuðningsmenn Sjálfstfl. verði ekki andvaraleysinu að bráð, láti það ekki ná tökum á sér.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson vék að þolinmæði forsrh. í ræðu sinni. Ég segi, góðir áheyrendur, þolinmæði þjóðarinnar í garð þessarar ríkisstjórnar er þrotin. Forsrh. hótaði því í ræðu sinni að ríkisstjórnin sæti út kjörtímabilið. Ég segi: Við skulum veita ríkisstjórnarflokkunum þá ráðningu í komandi kosningum sem þeir hafa svo rækilega til unnið.