Atvinnuleysistryggingar
Föstudaginn 04. maí 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 64/1981, með síðari breytingum, en mál þetta er þannig unnið að haustið 1988 var skipuð nefnd til þess að fara yfir lögin og gera á þeim ákveðnar breytingar. Það var reyndar að undirlagi stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs sem þetta var gert. Sæti í þessari nefnd áttu auk fulltrúa frá heilbrrn. fulltrúar frá Alþýðusambandinu, Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og síðan var starfsmaður Atvinnuleysistryggingasjóðs einn af nefndarmönnum.
    Um málið varð því miður ekki fullkomin samstaða í þessari nefnd þannig að hún klofnaði. Ágreiningurinn var um 3. gr. laganna sem er hér 1. gr. í frv. þar sem þessi ágreiningsefni koma fram. Hluti nefndarinnar taldi rétt að útvíkka ákvæðin um aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði þannig að ekki væri skylda að menn væru í stéttarfélögum til þess að eiga rétt á atvinnuleysistryggingabótum, en hluti nefndarmanna vildi hins vegar að aðild að stéttarfélögum væri áfram höfð að skilyrði. Hins vegar yrði greinin útvíkkuð verulega á þann hátt að öll þau stéttarfélög sem nú við gildistöku laganna eru í samningum við Atvinnuleysistryggingasjóð, svo og önnur stéttarfélög sem síðar kunna að ná samningum við sjóðinn, ættu rétt á bótum, eða aðildarmenn þessara stéttarfélaga. Þannig er þetta frv. lagt fram eins og fulltrúar ráðuneytis, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Alþýðusambands Íslands vildu að það hljóðaði.
    Fulltrúar Vinnuveitendasambands og Vinnumálasambands töldu að hér væri um réttarbót að ræða þar sem frv. gerði þó ráð fyrir möguleikum á aðild miklu
fleiri einstaklinga að sjóðnum í gegnum sín stéttarfélög en áður var þannig að það væri þó stigið skref verulega í áttina þó að ekki væri náð þeim tilgangi sem þeir vildu hafa að leiðarljósi, þ.e. að aðild að stéttarfélögum væri felld niður sem lagaskylda.
    Þetta var meginágreiningsefnið. Málið hefur fengið allítarlega umræðu og umfjöllun í Nd. þannig að ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, að eyða löngum tíma í þessa framsögu. Þetta kemur fram í nefndarálitum mjög ítarlega þannig að nefndarmenn í hv. heilbr.- og trn. geta kynnt sér málavöxtu þar gaumgæfilega án þess að eytt sé löngum tíma hér frá störfum hv. deildar í framsöguræðuna.
    Um önnur atriði frv. varð samkomulag í nefndinni sem samdi frv. og einnig í hv. heilbr.- og trn. Nd.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég síðan til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar.