Landsvirkjun
Föstudaginn 04. maí 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég hefði að vísu talið æskilegra að frv. sem hér er verið að fjalla um hefði verið samþykkt hér í deildinni en að sá kostur sem hér er lagt til að verði tekinn, að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. En eins og frsm. nefndi er komið svo gott sem að lokastarfsdegi þingsins og ekki tími til þess nú að taka frekar á málinu og fagna ég þeirri lausn að vísa málinu til ríkisstjórnar með þeirri áskorun að málið verði tekið þar til umfjöllunar. Svo fagna ég því að komið hefur yfirlýsing frá hæstv. iðnrh. um að ríkisstjórnin muni vinna að þessu máli og hann hafi nú undirstrikað enn á ný þá stefnu ríkisstjórnarinnar að jafna orkuverð.
    Það hefur verið beðið eftir því í mörg ár að verulegt átak á þessu sviði kæmi fram. Ekki er svo sem hægt að bera á móti því að staðan hefur heldur skánað frá því hún var verst en þá var hún náttúrlega algerlega óviðunandi og er reyndar í sumum tilfellum enn óviðunandi, t.d. í sambandi við hitunarkostnað. Mjög mikill munur er á því hvar fólk býr á landinu í sambandi við þennan þátt. Reikningar þess fólks sem er í viðskiptum við Rafmagnsveitur ríkisins til upphitunar húsa eru svo mikið, mikið hærri en t.d. reikningar þeir sem fólk hér á Reykjavíkursvæðinu þarf að borga og á mörgum svæðum öðrum. Þarna er gífurlegur mismunur á framfærslukostnaði sem er nauðsynlegt að verði lagfærður. Við hér á hv. Alþingi eigum að beita okkur fyrir því og vitaskuld á verkalýðshreyfingin að beita sér fyrir því að slík mismunun eigi sér ekki stað. Það hefði verið eðlilegt að við undirskrift núllsamninganna í vetur hefði verið tekið tillit til þessa þáttar ekki síður en margra annarra þátta sem verkalýðshreyfingin knúði þar fram.
    Um þann þátt sem hæstv. forseti okkar nefndi, að nú sé tækifæri til að breyta samkomulagi við Landsvirkjun um sölu orku, vil ég alveg sérstaklega undirstrika samþykki mitt við þeirri tillögu sem þar kom fram, að nota nú tækifærið þegar
veita á Landsvirkjun heimild til stórvirkjana og stórframkvæmda og sölu á mikilli orku til álframleiðslu hér á landi og semja um það að orkukostnaður landsmanna allra á þessu sviði verði jafnaður.