Landsvirkjun
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Herra forseti. Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns vil ég aðeins segja það að í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar eru skýr ákvæði um að orkukostnaður verði jafnaður. Ég býst við að öllum hér sé ljóst að mikill mismunur er um landið en það er líka ljóst að orka til upphitunar er mjög misdýr eftir aðstæðum hverju sinni. Auðvitað þarf að stefna að því að landsmenn allir búi við sama orkuverð líkt og sama olíuverð. En það sem rak mig í ræðustólinn var nokkuð sem mér fannst sneið til verkalýðshreyfingarinnar.
    Ég vil árétta það, sem mönnum á að vera ljóst, að verkalýðshreyfingin hefur hvað eftir annað lagt á það ofurþunga áherslu að lífskjör verði jöfnuð í landinu, m.a. hvað varðar orkukostnað, og fengið digrar yfirlýsingar frá ríkisstjórnum um slíka hluti og tekist að ná árangri í þessum hlutum. Verkalýðshreyfingin mun ekki í framtíðinni frekar en fyrr vera deig í þessum málum, öðru nær. Ég býst við að öðruvísi væri umhorfs í þjóðfélaginu ef áhrifa hennar hefði ekki gætt í því að jafna lífskjörin í landinu, ekki aðeins hvað varðar krónutölu heldur alla aðstöðu aðra undir þeim merkjum að fleira sé kjör en króna.