Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Nú er greinilega lokið löngu stríði hæstv. forsrh. fyrir því að koma á koppinn því ráðuneyti sem lengi hefur verið um rætt hér á Alþingi, en sem mér sýnist núna í raun að engu vera orðið. Í mínum huga er þetta meira og minna hégómamál fyrir tiltekinn einstakling sem þetta embætti hefur hlotið. Það er líka umhugsunarefni að skoða það að þegar forráðamenn stjórnvalda, ríkisstjórn, segir við almenning: Þið skuluð herða sultarólar vegna þrenginga í þjóðfélaginu, þá er báknið blásið út.
    Þau verkefni sem hefur verið um talað að því er þetta ráðuneyti varðar voru á öðrum stöðum og eru á öðrum stöðum. Hér er í raun og veru verið að koma á fót viðbót við kerfið og það hljómar ekki saman í mínum huga við það sem hæstv. ráðherrar hafa verið að básúna út, að það ætti að spara vegna erfiðleika í þjóðfélaginu. Hér er hreinn hégómaskapur á ferðinni. Hér hefur verið keypt stoð við hæstv. ríkisstjórn til þess að hún gæti lifað um tiltekinn tíma. Þessi kaupskapur hefur gengið lengi. Hann hefur gengið nánast allt frá því í fyrrasumar, en kaupin eru fyrir skattborgara ekki sem skyldi. Það verða menn að hafa í huga, ekki síst ráðamenn þjóðfélagsins. Þegar þeir prédika sparnað og herðingu sultarólar þá dugar ekki að eyða og spenna innan ríkiskerfisins eins og gert hefur verið og verið er að gera. Nú er komið í ljós að verslun hefur átt sér stað við Borgfl. Hann hefur verið keyptur inn í ríkisstjórn með tilteknum loforðum í upphafi sem að vísu hefur ekki verið öllum fullnægt en þeir láta sér nægja að hirða eftirhreyturnar af því sem lofað var. Þetta er auðvitað enn eitt dæmið um vesalmennskuna í stjórnmálum á Íslandi, braskaraháttinn, pólitískt plott þeirra sem vilja halda völdum þó þeir hafi ekki almenningshylli til þess. Það kann vel að vera að núv. hæstv. ráðherrum og ríkisstjórn þyki það gott að geta setið í stólunum í eitt ár til viðbótar, en þá verður skellurinn líka enn meiri.
    Það hlýtur að fylgja eðlilegri stjórnmálabaráttu í lýðræðislandi að það sé fólkið sem ákvarðar hverjir ráða ríkjum hverju sinni. Það kann að vera hægt að beita kaupskap, plotti, á tilteknum tíma en endanlega verður það kjósandinn sem ræður hverjir fara með völdin þegar kosningar eru afstaðnar. Mér finnst það miður að flokkur eins og Borgfl. sem taldi sig fyrir utan flokkspólitíska tryggingakerfið skuli vera orðinn sá harðasti í því kerfi að selja sig nánast fyrir hvað sem er. ( HBl: Mest fyrir lítið.) Mest fyrir lítið, það er rétt, menn láta sér nægja líklega sem minnst. (Gripið fram í.) Það er rétt, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, þingmaður Borgfl. Þið eruð nægjusamir í því að þið séuð keyptir. (Gripið fram í.) Þið eruð ekki dýrkeyptir í þessum efnum, það er greinilegt. En þið látið það nægja ykkur.
    Frá sjónarhorni almennings er það auðvitað alvarlegur hlutur að menn skuli láta hafa sig með þessum hætti til að selja samvisku sína fyrir nánast ekki neitt, til þess að geta talist um stundarsakir með tvo ráðherra, annan gersamlega áhrifalausan og

þingmennina í þingflokknum tiltölulega áhrifalausa að öðru leyti en því að vera strengjabrúður fyrir hæstv. forsrh. og aðra þá sem ráða ferðinni í ríkisstjórn. Það er undarlegt að þurfa að upplifa svona, ég tala nú ekki um af ungum þingmönnum með tiltölulega þokkalega menntun að baki að láta hafa sig í svona hluti. Ekki hefði ég á 25 ára aldri viljað ofurselja mig svona og taka slíkum sinnaskiptum eins og þessir hv. þm. hafa gert, selt sig nánast fyrir ekki neitt til að geta framlengt líf einnar ríkisstjórnar í eitt ár, hvort sem hún er vinsæl eða óvinsæl. En hæstv. forsrh. og sjútvrh. hefur tekist að þvæla þessum einstaklingum svo inn í málin að þeir eru í þannig sjálfheldu að þeir þora ekki út í kosningar. Þeir vilja heldur sitja lafandi með hæstv. ríkisstjórn í eitt ár í viðbót. Þetta er ömurlegur endir á flokki sem taldi sig vera að upphefja nýtt tímabil í íslenskum stjórnmálum. Endirinn verður auðvitað sá að með slíku háttalagi eru menn að framkvæma sjálfsdauða í íslenskri pólitík, öðruvísi getur ekki farið. Almenningur í landinu mun ekki líða stjórnmálamönnum að haga sér með þessum hætti nema því aðeins að fólk sé orðið svo blandað þessari pólitík sem Borgfl. hefur innleitt í íslensk stjórnmál að það vilji nánast hafa það svo að menn selji sig hverjum sem er, hvenær sem er og hvar sem er. ( MF: Það hafa nú margir gert.) Það er rétt, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir. Það hafa margir gert og kannski ekki síst í flokki hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Kannski hefur hún reynsluna af því og talar þannig. Reynslan kennir fólki auðvitað að hugsa og kannski er reynslan þar mest. Kannski má um það deila en það er enginn vafi á því að svona frammísetningar eru ekki settar fram nema því aðeins að fólk hafi eigin reynslu af því að það sé selt og keypt á hverjum tíma eftir því sem valdhöfunum þóknast í hvert skipti. Það kann að vera afskaplega þægilegt að geta verið undir væng stjórnvalda hverju sinni, skoðanalaus með öllu, strengjabrúða með öllu, gera eins og mönnum er sagt að gera hverju sinni og þannig stutt að því að valdakerfið, hvort sem það er réttlátt eða ranglátt, geti náð fram sínum málum með þessum hætti. En það hljóta að koma þeir tímar í lýðræðisríki að slíkum mönnum verður ýtt til
hliðar og auðvitað er það skýringin að hv. þm. Borgfl. hafa ekki þorað annað en að leggjast undir væng stjórnvalda vegna þess að þeir hafa ekki þorað til kosninga. Málið er ósköp einfalt. Þeir hafa ekki þorað að leggja sín mál undir dóm kjósenda. Þeir vilja bíða undir verndarvængnum þangað til kannski að á næsta ári til kosninga gerist eitthvað sem bjargar þeim fyrir horn. Þetta er auðvitað ljóst.
    Hæstv. umhvrh. hefur svoleiðis gerbreyst á nokkrum mánuðum frá því að vera óbreyttur þingmaður til þess að verða hæstv. hagstofuráðherra og síðan hæstv. umhvrh. með engin verkefni þar til kannski einhvern tíma á þessu ári að hann fær einhver verkefni. En best væri auðvitað að hann hefði engin verkefni. Þau verkefni sem umhvrn. á að fá að því er nú skilst, eru svo hverfandi að þau skipta engu máli. Þau gætu verið innan annarra ráðuneyta eins og þau

hafa verið. Þess vegna er þetta algert hégómamál. Það er verið að þjóna hégóma tiltekins einstaklings sem vill vera þetta hvort sem hann gerir gagn eða ekki.
    Og það er undir þessu merki sem þingmenn Borgfl. ganga. Þetta þóttist ég sjá strax fyrir tæpri viku þegar hv. þm. Borgfl. Guðmundur Ágústsson nánast gerbreytti sinni skoðun í afstöðu til kvótamálsins. Ég þykist vita að allir þeir sem sátu í sjútvn. Ed. muni það að allt fram á síðustu daga talaði þessi hv. þm. í þeim tón að hann væri gersamlega andvígur því frv. sem þá var verið að ræða og þeim brtt. frá hæstv. ráðherrum sem voru komnar inn, tillögum sem gerbreyttu málinu í grundvallaratriðum. Ég veit ekki hvort maður er að uppljóstra neinum leyndarmálum en þegar þessi hv. þm. talaði um það varðandi eftirlitið, að því ætti að koma fyrir hjá Landhelgisgæslunni, þá rakkaði hæstv. sjútvrh. þetta niður á sömu stundu. Hann rakkaði þetta sjónarmið hv. þm. Guðmundar Ágústssonar niður á sömu stundu og maðurinn bakkaði. Hv. þm. bakkaði. Það sýnir sig, það er ekkert nei við því. Á þessum sama fundi lýsti hæstv. sjútvrh. því yfir að hann teldi rétt að lögin um upptöku á ólöglegum sjávarafla yrðu endurskoðuð. En það er ekki í samræmi við það að afhenda Landhelgisgæslunni yfirráðin í þessu, síður en svo. Og að telja að þetta hafi getað valdið straumhvörfum hjá hv. þm. Guðmundi Ágústssyni frá því að vera gersamlega andvígur kvótamálinu til þess að nánast að slitni ekki slefan milli hv. þm. og hæstv. ráðherra í þessu máli. Ég segi enn, það er með ólíkindum að þurfa að upplifa svona, ekki hvað síst þegar ungir og upprennandi menn eiga hlut að máli.
    Mér finnst það augljóst og kannski þýðir ekkert að vera að tala um það meira, að Borgfl. hefur verið margkeyptur. Ég veit ekki upphæðirnar í þeim efnum en hann hefur verið margkeyptur. Í fyrsta lagi til fylgilags við hæstv. ríkisstjórn með tveimur ráðherrum og til þess að tryggja að hvað sem á dyndi mundu ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar ná fram að ganga þó þær gengju gersamlega á svig við afstöðu þingmanna Borgfl. allt til þessa. Þetta er með eindæmum. Hvernig verður lýðræðið framkvæmt með slíkum fulltrúum hér á hv. Alþingi? Ég sé ekki annað fyrir mér ef þetta ræður ferðinni en menn selji sig hér sitt á hvað burt séð frá sannfæringu og leggist undir verndarvæng stjórnvalda hverju sinni og þjónki þeim með þeim hætti sem ráðherrarnir vilja. Það er ekki það lýðræði sem ég vil upplifa.
    Ég skal ekki, herra forseti, lengja öllu meira umræðuna nú. Mér sýnist að Sjálfstfl. hafi tekist að gera nánast ekki neitt úr verkefnum umhverfismálaráðuneytis annað en það að ráðherrann situr og það er kannski nóg. Kannski má ég vel við una að öðrum hafi tekist það sem ég hefði gjarnan viljað taka þátt í sjálfur því ég hef aldrei haft trú á því að umhverfismálaráðuneyti með þeim hætti sem hefur verið talað um þjónaði neinum öðrum tilgangi frekar en það sem hefur verið gert í viðkomandi ráðuneytum og umhverfismálin heyra undir mörg ráðuneyti enn sem fyrr. Það er bara kostnaðurinn sem

eykst vegna stofnunar ráðuneytis. Vel kann að vera að íslenskir skattborgarar telji ekki ofgert við ríkissjóð í þessum efnum eða hæstv. umhvrh. að því er varðar skattlagningu vegna þessa. Ég hygg þó að miklu af þeim fjármunum sem þarna átti að eyða, ég segi, átti að eyða vegna þess að tekist hefur að koma í veg fyrir að miklu af því sem átti að eyða verði eytt. En íslenskum skattborgurum hefði komið betur að láta þá fjármuni fara til annarra og þarfari hluta en gert var ráð fyrir í upphafi með þetta mál.
    Mér sýnist á öllu þó enginn hafi tjáð mér það að Sjálfstfl. hafi tekist að koma málunum þannig fyrir að hæstv. umhvrh. sé nánast verkefnalaus fram til
hausts. En af hverju taka menn ekki af skarið og leggja þetta niður alveg? Af hverju þennan hégómaskap gagnvart einum einstaklingi?
    Ég vil láta það koma fram að ég er algerlega andvígur frv., mun greiða atkvæði gegn því hér í þessari hv. deild. Ég tel að peningum skattborgara verði betur fyrir komið með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir þó svo tekist hafi að draga úr því sem átti að gera í þessum efnum og umhverfisráðherrann standi nánast uppi verkefnalaus. Hæstv. forsrh. hefur tekist að láta hæstv. umhvrh. sitja nánast ónýttan, a.m.k. til hausts. Mér finnst það lítilþægni af stjórnmálamanni að taka það í mál bara vegna hégómagirni að setjast að í ráðuneyti og hafa engin verkefni.
    Ég vænti þess að hæstv. umhvrh. láti nú í sér heyra um þessi mál hér. Í gær fór hér fram umræða um kvótamálin í 14--16 klukkutíma og þessi hæstv. ráðherra sem barðist harðast gegn kvótanum 1987, vildi fella hann niður 1989, flytur núna frv. um að viðhalda honum í verra formi en hann var áður, hann lét ekki í sér heyra. En ég held að ekki þýði að haga sér með þeim hætti við hv. kjósendur. Þar hygg ég að menn verði að segja sínar skoðanir og í þessu tilviki verða borgaraflokksmenn að fara í marga hringi til að koma á framfæri sínum skoðunum í þessum málum því að þær hafa verið svo margar nánast eins og hver dagur hefur leitt í ljós.
    Trúlega munu verða hér umræður um málið eftir að það er farið til nefndar þó svo að ég geri ráð fyrir að sjálfstæðismenn hafi endanlega fallist á að hleypa málinu í gegn vegna þess að það hefur ekkert upp á sig. Hæstv. ráðherra hefur engin verkefni. Hann situr verkefnalaus. Hann getur keyrt bílinn sem búið er að kaupa fyrir ráðuneytið, en önnur verkefni hefur hann lítil sem engin og í því vilja menn halda honum. Það er með ólíkindum að upplifa slíkt hér á Alþingi, að menn skuli vera svo lítilþægir sem þetta dæmi glögglega lýsir.