Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki upplýsingar um hve lengi þetta mál hefur verið til umfjöllunar í Nd. en mér segir svo hugur að ef allt er tínt saman muni nokkurra vikna verk felast þar að baki. Sú umræða ein mun kosta þjóðina ómældar milljónir fyrir utan það að verði frv. samþykkt mun það að sjálfsögðu, og ég segi því miður, hafa mjög vondar afleiðingar fyrir æskilegan framgang þessara mála, bæði ef maður lítur til þess út frá sjónarmiði æskilegrar heildarframkvæmdar og með tilliti til einstakra atriða við útfærslu þess. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að vera hér með langa ræðu um þetta mál. Bæði er skammur tími til þingslita sem og það atriði að við hér sem myndum minni hl. á hinu háa Alþingi vitum að það er gersamlega vonlaust fyrir okkur að taka málið upp með þeim hætti hér í Ed. sem æskilegt væri til þess að reyna að stöðva framgang þessa frv.
    Það er kannski orðið þannig í íslenskum stjórnmálum að þótt einstakir þingmenn sem teljast vera heiðarlegir menn, eins og hv. þm. Karvel Pálmason óumdeilt er, það á kannski ekki lengur við í íslenskum stjórnmálum að slíkir menn standi upp á hinu háa Alþingi og segi sínar skoðanir vegna þess að þeir eru orðnir svo margir hinir sem eru ákveðnir í því að hlusta ekki á heiðarlega menn eða heiðarlegan málflutning að út af fyrir sig er tilgangslaust að flytja ræður yfir slíku fólki. En þó er það nú þannig og hefur alltaf verið þar sem lýðræði og þingræði ríkir að dropinn holar steininn og fyrr en síðar sér fólkið hvað skiptir máli og hverjir eru heiðarlegir og æskilegir sem umboðsmenn þjóðarinnar bæði hér á Alþingi og í ríkisstjórn.
    Óneitanlega var sorglegt að hlusta á þegar hv. þm. Karvel Pálmason, 3. þm. Vestf., sem er flokksmaður í Alþfl., þessi reyndi þingmaður og forustumaður, lýsti vinnubrögðum og málatilbúnaði ríkisstjórnar og stuðningsmanna hennar með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. Það er ekki á hverjum degi sem maður heyrir þær lýsingar sem hv. þm. viðhafði þegar hann lýsti því hvernig núv. hv. stjórnarstuðningsmenn hafa staðið að þessu máli.
    Eitt atriði held ég sé mjög æskilegt að ítreka og væri æskilegt að það kæmist betur til þjóðarinnar þó það hafi að vísu gerst eins og maður sér á skoðanakönnunum þegar spurt er um álit fólks á hinum ýmsu flokkum, það atriði lýtur að hinum svonefnda Borgfl. Hv. þm. Karvel Pálmason vakti athygli á því að talsmenn þess flokks, þar á meðal hæstv. umhvrh., hv. 7. þm. Reykn., ættu að láta af þeim ósið sem m.a. kom fram í ræðu hans í eldhúsdagsumræðunum í gærkvöldi að tala um gamla svonefnda fjórflokkakerfið. Það voru orð að sönnu hjá hv. þm. Karveli Pálmasyni. Hafi verið um hrossakaup og verslun að ræða hjá fjórflokkunum svonefndu þá hefur enginn, hvorki flokkur né einstaklingur, slegið þau met að viðhafa pólitísk hrossakaup á lægsta plani, þá hefur enginn, hvorki flokkur né maður, gengið jafnlangt og Borgfl. og hæstv. umhvrh. Júlíus Sólnes.

Það þarf ekki að tíunda það frekar í ræðum á hinu háa Alþingi. Þetta veit íslenska þjóðin. Hún fylgist með því sem sagt er hér á hinu háa Alþingi þó menn haldi að hún sé orðin leið á að hlusta á það. Það kemur fram í fjölmiðlum, það kemur fram mjög skýrt í sjónvarpi og þarf því ekki að hafa um þetta mörg orð.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég bíði á meðan bjallan klingir í Nd. Það er afskaplega erfitt að flytja hér ræður á meðan djöflast er á bjöllum. ( Forseti: Þá hafa dyr lokast.) Já, það er greinilega, virðulegi forseti, mikið um að vera í Nd. og forseti Nd. ætlar greinilega að ná mönnum saman. En ég vil segja það samt, virðulegi forseti, að afskaplega er nú hvimleitt að flytja ræðu undir slíkri hljómlist sem bjalla Nd. er, en þar sem virðulegi forseti veit að við sjálfstæðismenn höfum nægan tíma til þess að fjalla um þessi mál, við getum beðið 2--3 mínútur, þá ætla ég bara að taka það rólega.
    Virðulegi forseti. Í sambandi við umhverfismálin má segja að allur málatilbúnaður varðandi frv. og framgang þess er háðung fyrir Alþingi Íslendinga. Segja má að þetta frv. sé minnisvarði um spillingu og niðurlægingu íslenskra stjórnmála sem nú um stund eru í heljargreipum, ég vil segja, valdasjúkra manna. Það voru orð að sönnu þegar hv. þm. Karvel Pálmason sagði hér áðan að umhverfismálin í höndum núv. ríkisstjórnar væru fórnarlamb pólitískra hrossakaupa með þeim afleiðingum að þetta frv. er óskapnaður og fullnægir ekki kröfum Íslendinga um vönduð vinnubrögð og vandaða framkvæmd við lausn umhverfismála. Það er kjarni málsins. Subbuskapur í umgengni ríkisstjórnar við menn og málefni birtist mjög vel í afgreiðslu þessa máls.
    Meiri hl. Alþingis, stjórnarliðar, hafa sameinast um að afgreiða þetta frv. þótt vitað sé að það muni ekki tryggja æskilega umhverfisvernd. Þetta lið, þetta samsafn pólitískra braskara hefur sýnt mátt sinn og megin við afgreiðslu ýmissa mála hér á þingi síðustu daga. Minni hl. hefur reynt að forða slysum og afgreiðslu vondra mála.
    Allir heiðarlegir þingmenn munu að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu frv. til að reyna að koma í veg fyrir að sett verði slæm lög sem spilli fyrir
æskilegri framkvæmd umhverfismála á Íslandi jafnframt því sem þeir mótmæla pólitískri spillingu sem felst að baki frv. og framgangi þess hér á þingi.
    Ég vil síðan að lokum segja það, virðulegi forseti, að full ástæða hefði verið til að halda hér lengri ræðu, en ég held að það sé best úr því sem komið er að undirstrika það að heiðarlegir þingmenn munu greiða atkvæði á móti pólitískri spillingu, á móti óheiðarlegum vinnubrögðum á bak við tjöldin í sambandi við framgang þessa máls.