Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það er dæmigert fyrir íslensk stjórnmál og íslenska stjórnmálamenn hvernig umræðan hefur þróast. Það er greinilegt að ekki má nefna orðið heiðarlegur í tengslum við þá menn sem hafa braskað með völd á Íslandi með þeim hætti sem alþjóð veit. Þá stendur hæstv. forsrh. upp og lætur sér bregða mjög að einn hv. þm. skuli hafa leyft sér að höfða til heiðarleika hjá þingmönnum yfirleitt. Auðvitað verður, hæstv. forsrh., að koma fram í verkum manna hvort þeir eru heiðarlegir eða ekki. En menn verða að þola það þegar verið er að fjalla um íslensk stjórnmál, þegar verið er að fjalla um mál sem alþjóð veit að hefur verið braskað með utan þings sem innan, að orðið og hugtakið ,,heiðarlegur`` komi upp í umræðunni. Og menn verða líka að þora að horfa á sjálfa sig í þeirri stöðu og gera það upp við sjálfa sig hvað þeim finnst sjálfum vera heiðarlegt og leggja það þar með undir dóm annarra. Þess vegna þarf ég ekki að skilgreina orðið og hugtakið ,,heiðarlegur`` umfram það sem birtist í verkum manna.
    Ég segi fyrir mitt leyti að ef ég ætti að skilgreina verknað sem ég teldi óheiðarlegan þá mundi ég segja að það væri óheiðarlegt að kaupa pólitísk völd fyrir hvaða verð sem er. Ég bakka ekki með það að ég tel óheiðarlegt að kaupa sér stuðning manna eða flokka til þess að tryggja mér eða mínum völd við þær aðstæður þar sem slíkt getur orkað tvímælis. Vitað er að þegar Borgfl. gekk til liðs við stjórnina þá var það gert með þeim hætti að meira að segja var búið út ráðuneyti sem hafði ekki verkefni. Er heiðarlegt að nota fjármuni skattborgaranna til að stofna til ráðuneyta sem hafa ekki verkefni og greiða fyrir vinnu sem ekki er innt af hendi? Það er óheiðarlegt.
    Hæstv. forsrh. sagði: Þetta er mikilvægasta mál sem ég hef stutt á þingi. ( Forsrh.: Átt hlut að.) Átt hlut að að styðja á þingi, já. En ég vil minna hæstv. forsrh. á að þetta frv. er ekki þeirrar gerðar sem hann, hæstv.
ráðherra, hefur nú helst talað fyrir hér á hinu háa Alþingi. Því fer víðs fjarri. Ég hef fylgst nokkuð með málflutningi hans í þessum málum og forsögu hans í því. Þetta frv. er ekki óskafrv. hæstv. forsrh., Steingríms Hermannssonar. Alla vega ekki eins og hann hefur tjáð sig um þetta efni. Hæstv. forsrh. hefur gert miklu, miklu meiri kröfur varðandi útfærslu og framkvæmd þessara mála en þetta frv. gefur nokkurn tíma tækifæri til að innt verði af hendi. Mér finnst það, hæstv. ráðherra, jaðra við óheiðarleik að hann skuli í jafnmikilvægu máli og hann hefur lýst hér og við þekkjum öll hafa keypt það svo dýru verði að sitja við völd að hann skuli hafa samið við Borgfl. um þetta mál með þeim hætti sem birtist okkur hér. Það jaðrar við, hæstv. ráðherra, að hann sé ekki nægilega heiðarlegur vegna þessara samninga.
    Við vitum það allir hv. þm. og hæstv. forsrh. veit það einnig sjálfur að þetta frv. fullnægir ekki kröfum manna um framkvæmd þessara mála, vandaða framkvæmd í sambandi við umhverfismál. Og fyrst og

fremst vegna þess að það var strax í upphafi illa staðið að þessu máli, vegna þess að það var notað m.a. til þess að tryggja völd og það er ekki heiðarlegt.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, orðlengja þetta frekar en vísa til þess sem ég hef sagt áður og ég ítreka það að hv. þm. sem og aðrir verða að þola að menn tali um hvort eitthvað sé heiðarlegt eða óheiðarlegt. Ég hef skilgreint það og tjáð mig um það varðandi ákveðin atriði. Að öðru leyti verða hv. þm. að gera það upp við sig sjálfir hvað felst í hugtakinu heiðarlegur.