Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. beindi til mín orðum áðan og nú sé ég ekki hvort hann er hér. ( Forseti: Ég mun láta leita hans.) Ég mun þá hinkra eftir því. Ég ætlaði aðeins að segja örfá orð til viðbótar.
    Virðulegur forseti. Vegna orða hæstv. forsrh. hér áðan vildi ég bara láta koma fram að hafi mér orðið á í messunni í því sem ég sagði varðandi Hollustuvernd og Geislavarnir er það auðvitað ekki til annars en að staðfesta þann flýti sem hér er á þar sem við erum nú að fjalla um þetta mál án þess einu sinni að hafa fengið þingskjölin úr hv. Nd. En ég hef þau nú og ég fagna því að tillit skyldi vera tekið til tillagna Kvennalistans.
    Það sem ég lagði áherslu á í máli mínu áðan og vil ítreka hér aftur er sú skoðun okkar kvennalistakvenna að nauðsynlegt sé að koma á fót raunverulegu umhverfisráðuneyti málefnisins vegna og því höfum við frá upphafi talið nauðsynlegt að slíkt ráðuneyti hafi ákveðin verkefni og þann sess í stjórnkerfinu sem því ber. Við munum því að sjálfsögðu taka málefnalega afstöðu, eins og ævinlega í öllum málum, til þeirra breytinga sem nú hafa verið gerðar og styðja þá viðleitni sem hér er gerð til þess að koma á fót raunverulegu eða burðugra umhverfisráðuneyti en fyrirhugað var. Ég endurtek þó það sem ég sagði áðan, að við hefðum kosið að sjá stærri og fleiri skref tekin og mun ég af því tilefni bera fram brtt. um bæði Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins, að þær falli einnig undir umhvrn.