Tekjuskattur og eignarskattur
Föstudaginn 04. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til 1. umr. er, eins og fram kom hjá hv. frsm. fjh.- og viðskn., frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Þetta frv. er byggt á öðru frv. sem sent var hv. fjh.- og viðskn. Það frv. var flutt af þeim sem hér stendur ásamt hv. þm. Inga Birni Albertssyni. Eins og ég gerði grein fyrir þá var 1. gr. frumvarpstextans var gölluð. Ég gaf viðhlítandi skýringu á því. Þess vegna er eðlilegt að í starfi nefndarinnar hafi verið gerðar verulegar breytingar á 1. gr. frv. Því til viðbótar hefur það einnig gerst að nefndin hefur, með samþykki, vitund og vilja flm. upphaflega frv., bætt við frv. annarri grein. Sú grein fjallar um eignarskattsálagningu.
    Ég tel fulla ástæðu til að segja það hér skýrt og skorinort að þessi grein, eins og hún er í frv., rýrir í engu þann rétt sem varð til með lagabreytingu sem gerð var á síðasta þingi þegar fjallað var um eignarskatta vegna breytingar á eignarskattsstofni og eignarskattsálagningu. Þá var gerð sú mikilvæga breyting á lögunum um tekju- og eignarskatt að heimilt var að reikna eignarskatt eftirlifandi maka sem situr í óskiptu búi eins og hjá hjónum væri næstu fimm ár eftir lát maka. Þetta var ákaflega mikilvægt mál og hv. Alþingi samþykkti það á sínum tíma þegar ljóst var að um stórhækkaða eignarskatta yrði að ræða, sérstaklega hjá eftirlifandi mökum. Eignarskattshækkunin var stundum kölluð ekknaskatturinn og var þetta ákvæði til komið til þess að reyna að milda áhrif þeirra eignarskattsbreytinga sem áttu sér stað fyrir rúmu ári síðan. Síðan hafa sem betur fer verið gerðar breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt sem draga úr skattlagningunni, þótt ekki sé enn komið í hið fyrra horf.
    Í 2. gr. þessa frv. er hins vegar ný regla sem vel getur staðið ásamt þeirri breytingu sem gerð var á 81. gr. á sl. ári. Þessi 2. gr. gerir ráð fyrir því
að á dánarári maka eða sambúðaraðila, eins og sambúðaraðili er skilgreindur skv. 63. gr. laganna, megi haga eignarskattsálagningu eftirlifandi maka eins og um hjón væri að ræða. Og þá gildir þetta aðeins á dánarári maka. Ýmsum kann að þykja í fljótu bragði að hér sé um að ræða takmörkun á réttindum sem þegar hafa fengist samkvæmt 2. málsgr. 81. gr. Sé þessi nýja grein, 2. gr. frv., skoðuð, kemur í ljós að þar er ekki sett sem skilyrði að eftirlifandi maki sitji í óskiptu búi. Verði þetta frv. samþykkt þýðir þetta einfaldlega það að eftirlifandi maki, sem þannig kann að vera ástatt um að hann sitji alls ekki í óskiptu búi, t.d. vegna þess að lögerfingjar eru ekki fyrir hendi aðrir en eftirlifandi maki, á rétt á því á dánarárinu að vera skattlagður eins og um hjón væri að ræða. Þetta er auðvitað mikilvægt í ljósi þess að einmitt þegar svo stendur á má búast við að gjaldþol breytist. Það er ekki alltaf nóg að eiga eignir, menn sem greiða skatta og annað þurfa að hafa handbært fé. Það kann að þurfa að líða nokkur tími þar til hægt er að gera þær

ráðstafanir, ekki síst ef um sviplegt fráfall er að ræða. Ég held að óhætt sé að slá því föstu að í langsamlega flestum tilvikum gera menn slíkar ráðstafanir ekki með tilliti til dánardægurs, jafnvel þótt menn viti að eitt sinn skal hver deyja.
    Virðulegur forseti. Ég tel fulla ástæðu til að þakka hv. fjh.- og viðskn. og reyndar hæstv. ráðherra fyrir að hafa veitt þessu máli brautargengi. Fyrr í vetur var flutt fsp. um þetta mál. Það var hv. varaþm. Kolbrún Jónsdóttir sem flutti þá fsp. Henni var síðan fylgt eftir af hv. 11. þm. Reykn. Hreggviði Jónssyni. Við þær umræður lýsti hæstv. ráðherra því yfir að hann væri tilbúinn að gera breytingar á þessum lagaákvæðum. Nú hafa þær komið fram í frumvarpsformi. Það er von mín, um leið og ég ítreka þakkir til þeirra sem um þetta mál hafa fjallað, að þetta frv. verði að lögum enda er hér um mikið sanngirnismál að ræða.