Sjómannalög
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. samgn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá samgn. um frv. til laga um breytingu á sjómannalögum, nr. 35/1985. Nál. er svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Hún vill taka sérstaklega fram að þrátt fyrir að þessi grein sé felld brott úr sjómannalögum hefur skipstjóri enn óskorað agavald til að halda uppi góðri reglu á skipi, t.d. ef skip er í háska statt, sbr. heimild í 70. gr. laganna. Í 87. gr. laganna er almennt refsiákvæði sem nær til sjómanna sem gerast sekir um yfirsjón í skyldustörfum sínum og í 82. gr. eru lögð viðurlög við því að ráðast á skipstjóra. Nefndin telur að með þessum ákvæðum sé tryggt að góð regla haldist um borð í íslenskum skipum, svo framarlega sem hægt er að tryggja slíkt með lögum. Er því óhætt að fella brott 81. gr. laganna eins og lagt er til í þessu frv. Þá er gerð sú tæknilega breyting að fella út tilvísun 74. gr. laganna í 81. gr., en í 74. gr. eru ákvæði um málssókn.
    Nefndin leggur því til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:
    Á undan 1. gr. komi ný grein er orðist svo:
    1. málsl. 1. mgr. 74. gr. orðist svo: Yfirsjónir þær, sem ræðir um í 1. mgr. 80. gr., skulu eigi sæta opinberri málssókn nema skipstjóri eða útgerðarmaður krefjist þess.
    Matthías Á. Mathiesen og Friðjón Þórðarson voru fjarstaddir afgreiðslu málsins.``
    Undir þetta rita Hjörleifur Guttormsson, Guðni Ágústsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Árni Gunnarsson.