Sjómannalög
Föstudaginn 04. maí 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Virðulegi forseti. Þar sem hv. 1. þm. Reykv. kom inn á mál sem lágu fyrir heilbr.- og trn. varðandi alþjóðlega samninga sem Ísland hefur staðið að og vék sérstaklega að máli um atvinnuleysistryggingar, vil ég segja að það er rétt að það komu fram athugasemdir frá sérfræðinganefnd Evrópuráðsins sem bárust Alþjóðavinnumálastofnuninni. Til að athugasemdir þessar verði löggildar athugasemdir samkvæmt alþjóðarétti þurfa a.m.k. 3 / 4 af embættismannanefndinni, sem tekur við þessum athugasemdum, að samþykkja athugasemdir sérfræðinganefndarinnar. Það gerðist ekki. Það hefur sem sagt engin löggild athugasemd vegna brota Íslands á félagsmálasáttmála Evrópu komið fram.
    Mér skilst hins vegar að varðandi það mál sem hér liggur fyrir hafi a.m.k. 15 sinnum komið fram athugasemdir vegna brota á þessu atriði sem nú er loksins tekið fyrir. Því virðist mér gegna hér svolítið öðru máli en í því dæmi sem hv. 1. þm. Reykv. tók til varðandi það mál sem lá fyrir heilbr.- og trn. Það skal sagt enn fremur að í því tilfelli komu fram mjög sterkar athugasemdir frá hagsmunasamtökum íslenskum, Alþýðusambandi Íslands og öðrum launþegasamtökum, varðandi það mál sem lá fyrir heilbr.- og trn. Meiri hl. nefndarinnar sá því ekki ástæðu til að afgreiða málið að svo stöddu heldur lagði eindregið til að viðkomandi ráðherrar, félmrh. og heilbr.- og trmrh., beittu sér fyrir viðræðum aðila vinnumarkaðarins til að finna einhverja lausn á málinu og e.t.v. að mæta óskum og athugasemdum sérfræðinganefndarinnar frá Alþjóðavinnumálastofnuninni.
    Annað mál lá líka fyrir heilbr.- og trn. sem er ákaflega svipaðs eðlis. Það varðaði Norðurlandasamning sem gerður hafði verið um gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum, á veitingu sérfræðileyfa til lækna. Í því tilfelli komu fram mjög sterkar athugasemdir frá læknafélögunum og frá læknadeild Háskóla Íslands varðandi það mál. Nefndin sjálf treysti sér því ekki að svo stöddu til að ræða það mál til hlítar enda þótt samningurinn sem þar lá að baki væri ótvíræður. Nefndin mun leggja til, og það kemur fram þegar það mál verður á dagskrá, að þau atriði frv. verði dregin til baka til nánari athugunar. Ég tel því að meðferð heilbr.- og trn. á þessum tveimur málum sé nokkuð önnur og þar liggi aðrar ástæður að baki en í því máli sem hér liggur fyrir.