Búnaðarmálasjóður
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. landbn. (Alexander Stefánsson):
    Herra forseti. Landbn. hefur fjallað um þetta mál. Í athugasemdum við frv. til laga á þskj. 915 segir, með leyfi forseta:
    ,,Á sl. tveimur árum hafa sjóðagjöld í landbúnaði verið til ítarlegrar umræðu, m.a. hefur umræðan annars vegar beinst að fjármögnun félagslegrar starfsemi í landbúnaði og hins vegar innheimtu á sjóðagjöldum til jöfnunar á framleiðslukostnaði með því að afla sameiginlega fjármuna til að standa undir fjármagnskostnaði í landbúnaði í stað þess að láta fjármagnskostnaðinn koma af fullum þunga á þá sem eru tiltölulega meira skuldsettir vegna nýlegra framkvæmda og hárra lána þess vegna. Frv. þetta byggist á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið um þessi mál. Þar er m.a. um að ræða tillögur og samþykktir búnaðarsambanda, búnaðarþings og aðalfundar Stéttarsambands bænda.``
    Það á sem sagt að fjármagna þetta frá stéttinni sjálfri.
    Nefndin hefur fjallað um frv. Nefndin fékk til viðræðna um efni frv. Jónas Jónsson búnaðarmálastjóra, Hauk Halldórsson, formann Stéttarsambands bænda, Leif Kr. Jóhannesson, forstöðumann Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og Guðmund Sigþórsson úr landbrn. Umsagnir um frv. bárust frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Stéttarsambandi bænda, búnaðarþingi 1990, Búnaðarsamtökum Vesturlands og Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frv.
    1. Lagt er til að heimild landbrh. til að ákveða með reglugerð sérstakt gjald af hvers konar greiðslum, sem eru látnar koma í stað framleiðslu, verði afnumin.
    2. Gerð er tillaga um breytta tekjuskiptingu af búnaðarsjóðsgjaldi þannig að tekjur búgreinafélaga og Stofnlánadeildar eru lækkaðar örlítið og mismunurinn látinn renna til Búnaðarfélags Íslands vegna félagslegrar starfssemi þess.
    3. Lagt er til að 5. gr. verði breytt þannig að heimild sú sem þar er veitt til gjaldtöku nái ekki til búgreinafélaga sauðfjár- og nautgriparæktar.
    4. Að lokum er lagt til að bætt verði við tveimur nýjum ákvæðum til bráðabirgða. Í því fyrra er ákvæði um yfirstjórn forfallaþjónustu bænda, en nauðsynlegt er að ákveða skipan hennar. Í því síðara er lagt til að Stofnlánadeild landbúnaðarins haldi óbreyttum tekjum til 30. nóv. nk. Er þetta gert til að fjárhagsáætlanir deildarinnar raskist sem minnst.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Málmfríður Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk þessari afgreiðslu málsins.
    Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn í landbn. Nd. Þetta er samkomulagsmál og það er mikilvægt að það komist í gegnum þetta þing. Ég vil geta þessa, vegna athugasemda sem komu fram í nefndinni. Með

því að fjárhagur búnaðarsambandanna styrkist mjög við þessa breytingu, þá verður að gera ráð fyrir því að búnaðarsamböndin veiti hinum einstöku búnaðarfélögum meiri þjónustu og fjárhagslega aðstoð eftir því sem fjárhagsaðstaðan batnar.
    Herra forseti. Ég legg svo til að með þessum tillögum, ef samþykktar verða, verði frv. vísað til 3. umr.