Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Davíð Á. Gunnarsson, forstjóra ríkisspítala, Skúla G. Johnsen borgarlækni og Dögg Pálsdóttur, deildarstjóra í heilbr.- og trmrn. Enn fremur bárust nefndinni umsagnir frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar og stjórnarnefnd ríkisspítala.
    Nefndin leggur til að 4. gr. verði breytt þannig að verkefni heilbrigðismálaráðs verði eftirlit með, en ekki að hafa með stjórn heilbrigðismála í héraði að gera. Einnig er lagt til að heilbrigðismálaráð skipuleggi ekki rekstur heilbrigðisstofnana í héraði þar sem slíkt er frekar í verkahring stjórna einstakra stofnana, eftir því sem heilbr.- og trmrn. ákveður. Þá leggur nefndin til að í 1. málsl. síðustu mgr. 10. gr. frv. verði tekið fram til öryggis að íbúar Seltjarnarness geti valið sér heimilislækni eða heilsugæslulækni á sama hátt og íbúar Reykjavíkurborgar.
    Nefndin fellst á þær breytingar sem gerðar voru í meðförum Ed. að einni undanskilinni. Gerð er tillaga um breytingu á ákvæði til bráðabirgða þannig að það sé hafið yfir efa að ekki sé ætlunin að leggja Heilsuverndarstöðina í Reykjavík niður, heldur að henni sé ætlað framtíðarhlutverk í tengslum við
heilsugæslustarf í Reykjavík, samkvæmt þeim lögum sem hér er fjallað um og samkvæmt þeim tillögum sem stjórn hennar kemur til með að gera.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj., sem er þskj. 1179, en nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja aðrar brtt. eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.
    Undir þetta nál. skrifa allir nefndarmenn heilbr.- og trn., Anna Ólafsdóttir Björnsson, Geir Gunnarsson, Sólveig Pétursdóttir, Geir H. Haarde, Guðmundur G. Þórarinsson, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Jón Sæmundur Sigurjónsson.