Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 04. maí 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. í síðari deild frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Þetta frv. hefur verið alllengi hér til meðferðar á hv. Alþingi. Frv. var lagt fram á haustþinginu og upphaflega var stefnt að því að ljúka afgreiðslu þess fyrir jól en það kom fljótlega í ljós að um nokkur atriði frv. var mjög mikill ágreiningur sem leiddi til þess að afgreiðsla þess tafðist. Nú liggur fyrir að náðst hefur samkomulag í nokkrum veigamiklum atriðum og hefur það leitt til þess að málið liggur nú þannig fyrir að fulltrúar allra flokka, þ.e. þeirra flokka sem sæti eiga í hv. heilbr.- og trn., mæla með samþykkt frv., þó enn með breytingum frá því sem var í Ed.
    Ég vil aðeins með örfáum orðum, herra forseti, víkja að nokkrum meginatriðum í þessu máli sem tekist hefur verið á um í þinginu í vetur. Í fyrsta lagi, og það finnst mér mjög mikilvægt í þessu máli öllu saman, hefur náðst samkomulag um skipulag heilbrigðisþjónustu hér í Reykjavík, þ.e. heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Samkvæmt þeim lögum um heilbrigðisþjónustu sem hafa gilt hefur verið gert ráð fyrir að sama kerfi gilti um allt land varðandi heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og stefnt að því að heilsugæslustöðvar þjónuðu öllum landsmönnum. Samkvæmt núgildandi heilbrigðislögum var gert ráð fyrir að þetta gilti um Reykjavík einnig og borginni yrði skipt upp í heilsugæsluumdæmi og síðan ættu borgarbúar að skipta við heilsugæslustöðvar í sínu umdæmi. Það hefur dregist mjög mikið að þetta kerfi færi í gang, enda gríðarlega kostnaðarsamt að byggja heilsugæslustöðvar fyrir öll þau umdæmi sem hér ættu að vera í Reykjavík. Þess vegna hefur það ráð verið tekið að þessum ákvæðum frv. hefur verið frestað frá ári til árs hér á hv. Alþingi. Það hefur nánast verið fastur liður í störfum Alþingis rétt fyrir áramót að flutt væri frv. um að fresta gildistöku þessa kafla laganna um eitt ár í senn.
    Um þetta hefur verið mjög mikill ágreiningur hér í Reykjavík og borgarstjórn Reykjavíkur hefur verið mjög andvíg því að þetta sama kerfi gilti um Reykjavík og aðra staði á landinu. Ástæðan er einfaldlega sú að hér er völ á miklu
fjölbreyttari heilbrigðisþjónustu en víðast annars staðar. Reykvíkingar hafa ekki viljað láta taka frá sér það val sem þeir eiga í dag og Reykvíkingar hafa heldur ekki viljað leggja niður það fjölþætta kerfi heimilislækna sem er í borginni og að heimilislæknar yrðu þar með lagðir niður eða gerðir að ríkisstarfsmönnum inni á heilsugæslustöðvum. Um þetta hefur verið tekist á en niðurstaðan liggur fyrir í því frv. sem við höfum nú hér til meðhöndlunar og ég vil láta í ljós alveg sérstaka ánægju mína með það að núna er skýrt kveðið á um það að valið verður áfram íbúanna því að nú segir í þeirri grein þar sem fjallað er um skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi og kveðið með mjög ítarlegum hætti á um starfssvæði hverrar heilsugæslustöðvar fyrir sig, í frv. eins og það lítur út

núna:
    ,,Þrátt fyrir skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi geta íbúar borgarinnar jafnan valið sér heilsugæslulækni eða heimilislækni utan heilsugæslustöðva og leitað læknishjálpar þar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.``
    Ég vil láta í ljós sérstaka ánægju með þetta ákvæði og tel að í þessu samkomulagi felist að hér verði áfram starfandi heimilislæknar við hliðina á heilsugæslustöðvum.
    Ég hef aldrei verið í minnsta vafa um að það á eftir að taka langan tíma að byggja upp heilsugæslustöðvar hér í Reykjavík, þetta eru gríðarlega dýr fyrirtæki, og ég hef aldrei verið í neinum vafa um það heldur að þjónusta heimilislæknanna er miklu ódýrari sem leiðir af eðli máls. Þeir reka sjálfir sínar stofur og það þekkjum við nú bara úr hinu daglega lífi að þegar menn bera sjálfir persónulega fjárhagslega ábyrgð á sínum rekstri er auðvitað allt öðruvísi með hlutina farið en þegar ríkið rekur stofnanirnar og menn eru orðnir launaðir ríkisstarfsmenn. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við eigum að efla frekar heimilislæknakerfið hér í Reykjavík og okkur liggi ekkert á að koma í framkvæmd því ítarlega kerfi heilsugæslustöðva sem gert er ráð fyrir í frv. Mér er auðvitað ljóst að það þarf að vera lágmarksþjónusta í hinum ýmsu hverfum borgarinnar og ég nefni t.d. Grafarvoginn í því sambandi en ég held þó að við eigum að stefna að því í framtíðinni að efla heimilislæknakerfið.
    Annað atriði vil ég einnig nefna og það er varðandi stjórn Borgarspítalans. Um hana var ágreiningur einnig en nú hefur tekist um það samkomulag milli hæstv. heilbrrh. og borgaryfirvalda hvernig með stjórn Borgarspítalans skuli farið. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með það að um það skuli vera samkomulag og ég hef raunar ekkert meira um það að segja.
    Í þriðja lagi kom það upp þegar þetta mál var til 1. umr. hér í þessari hv. deild að orðalag frv. eins og það leit út mátti skilja á þann veg að stefnt væri að því að leggja niður Heilsuverndarstöðina í Reykjavík innan þeirra tímamarka, ég held það hafi verið árslok 1991, sem þar segir. Þetta kallaði á
mjög sterk viðbrögð, bæði frá ýmsum læknum hér í Reykjavík og frá starfsfólki Heilsuverndarstöðvarinnar. Hæstv. ráðherra gat þess strax, minnist ég, í sjónvarpsviðtali að þetta væri á misskilningi byggt, það ætti ekki að skilja orðalag frv. á þann veg. Ég fagna að sjálfsögðu þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra, fagna því að nú hefur náðst samkomulag um breytt orðalag á þessari grein sem tekur af öll tvímæli um það að ekki er gert ráð fyrir því að leggja þessa starfsemi niður.
    Í fjórða lagi, það sem ég vildi aðeins minnast á, er sú tillaga sem hér liggur fyrir frá hv. þingmönnum Reykn. sem gerir ráð fyrir breyttu stjórnarfyrirkomulagi á St. Jósefsspítala frá því sem verið hefur. Mér sýnist að það séu allir hv. þm. Reykn. að undanskildum hæstv. forsrh. sem undir

þessa brtt. rita. Ég er ekki alveg viss um að sú kenning sem haldið er á lofti í sambandi við stjórn þessara einstöku heilbrigðisstofnana út um landið, þegar menn endurtaka í sífellu að saman verði að fara fjárhagsleg ábyrgð og fjárhagsleg stjórnun, ég er ekki viss um að sú túlkun sé alls kostar rétt, að þar eigi ráðuneytið að fara með stjórn allra þessara stofnana. Ég held að sá miðstýringarhugsunarháttur sem birtist í því sé ekki skynsamlegur og ekki réttur og þess vegna eigi að dreifa valdi út til hinna einstöku stofnana og það eigi ekki aðeins að vera þá stjórnunarlegt vald heldur fjárhagsleg ábyrgð líka. Þess vegna vil ég láta þá skoðun mína í ljós að ég mun styðja þá tillögu sem hv. þm. Reykn. hafa flutt.