Stjórn fiskveiða
Föstudaginn 04. maí 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Ég vísa til þess sem hæstv. sjútvrh. hefur sagt um meðferð málsins. Ég skil mætavel þá gagnrýni sem hér kemur fram, en læt ekki fleiri orð falla um það.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurði hvort fallist hefði verið á tillögu hans um fiskvinnslustefnu eingöngu til að fá hann til að styðja ríkisstjórnina. Svo er alls ekki. Ég er mjög hlynntur þeirri tillögu og sagði það þá. ( SV : En hvað þá?) Ég fæ ekki allt fram sem ég vil heldur. Staðreyndin er sú að það er búið að ræða þetta, m.a. í þeirri nefnd sem allir hafa átt fulltrúa í og hér hefur verið nefnd. Ég gæti staðið hér upp og gert brtt. við kvótafrv., ég gæti það mjög auðveldlega. Við verðum hins vegar stundum að sætta okkur við það sem meiri hlutinn ákveður í þessu sambandi. Nú er búið að ræða um fiskvinnslustefnu reyndar víðar. M.a. er ekki langt síðan aðilar sjávarútvegsins héldu ágæta ráðstefnu um fiskvinnslustefnu. Og ég held að tal um fiskvinnslustefnu sé spor í rétta átt. Hins vegar vil ég láta það koma fram hér að þegar ég hef rætt við nokkra aðila um slík mál hafa sumir þeirra sagt: Ja, þetta er hlutur sem við, samtök í fiskvinnslu, eigum að sjá um, ekki stjórnvöld. Og það er töluvert til í því. Ég bendi líka á að það hafa verið tekin skref eins og aflamiðlunin. Ein meginrökin fyrir aflamiðluninni eru að hafa meiri fisk innan lands til vinnslu. Ég tek undir það með hv. þm. að það er mjög mikilvægt mál almennt að hafa meiri fisk til vinnslu hér heima. Það hefur ekki náðst samstaða um og ég reyndar efast um að leiðin sé að skipta kvótanum á vinnslustöðvar og skip. Ég veit ekki hvort það út af fyrir sig mundi tryggja fiskvinnslustefnu. Málið er mikilvægt og ég veit að það verður unnið að því áfram.