Yfirstjórn umhverfismála
Föstudaginn 04. maí 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Frv. það til laga um umhverfismál sem hér er til umræðu hefur tekið töluverðan tíma hjá þinginu. Um það hafa verið harðar deilur og ekki óeðlilegt að svo sé um svo viðamikið verkefni og svo stórt. Sannleikurinn er sá að ég hafði hugsað mér að flytja allítarlega ræðu um þetta mál. Nú hefur orðið sú lending að náðst hefur samkomulag sem gengur út á það að þetta mál verði afgreitt mjög snöggt í gegnum þingið. Fagna ég því út af fyrir sig að það skuli hafa tekist.
    Ég vil þó lítillega láta það koma fram hér að það er ekki óeðlilegt að þetta mál valdi deilum og að það séu erfiðleikar við að koma svo stórum málaflokki saman. Ég vil að öðru leyti ekki segja mikið meira nú nema það að ég hefði óskað eftir því að farið væri hægar í sakirnar en áætlað er í þessum málum.