Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það er vont að fá ekki meiri tíma til að fara ofan í mál sem þetta sem er allt svo stórt í heilu lagi, bæði stjórnun fiskveiða og þessi svokallaði Hagræðingarsjóður. Annars er þetta misnotkun á orði að mínu mati því hagræðing þýðir að eitthvað eigi að vera til hagsbóta en ég get ekki séð að neinar sannanir liggi fyrir um það að þetta verði til hagsbóta fyrir neina sérstaka því það dettur enginn fiskur ofan úr loftinu þó að þessi Hagræðingarsjóður eigi að fá einhvern kvóta. Kjarni málsins er sá að hér er um pólitísk hrossakaup að ræða á elleftu stundu í þessu mikilvæga máli. Auðvitað er ljóst að þau tonn sem þessi væntanlegi sjóður fær til úthlutunar eru tekin frá öðrum aðilum. Það er því alls staðar verið að skapa smávandamál á mörgum stöðum jafnframt því að eitthvert vandamál á síðan að leysast eftir einhverjum pólitískum leiðum sem er ekki æskilegt.
    Varðandi allt tal um allt of stóran flota vil ég líkja því að einhverju leyti við heilaþvott. Menn eru að verða heilaþvegnir af reiknimeisturum sem eru alltaf að reikna það út að flotinn sé svo og svo mikið of stór án þess að skoða málið nógu gaumgæfilega. Hvað erum við t.d. búin að stækka flotann mikið bara til þess að geta farið betur með aflann? Áður var fiskinum hrúgað í hauga í lestum. Nú er hann settur í kassa og settur ís á hann, það er sett kæling á hann o.s.frv. Hvað þarf margar rúmlestir til þess að geta gert þetta? Það er engin afkastaaukning flota að geyma fisk við þær aðstæður að hráefnið eyðileggist ekki. Þetta er náttúrlega einn misskilningur.
    Annar misskilningur er sá að allri áhöfninni er ekki hrúgað í eina stíu eins og áður var. Það eru komnir rúmgóðir eldhús- og svefnklefar og jafnvel gufubað o.s.frv. Það er engin sóknaraukning fólgin í mannsæmandi íbúðum. Og stóraukið vélarrými og tæknibúnaður þarf mikið pláss. Það er engin sóknaraukning beint í því. Ég dreg þess vegna í efa þetta tal allt saman um allt of stóran flota.
Mér finnst þetta bera keim af einhverjum frasa án þess að menn hugsi málið rétt. T.d. í frystitogurunum þarf pláss og ég veit eftir samtöl við ágætt fólk um borð í þessum skipum að þeir togarar eru orðnir allt of litlir. Það er t.d. ekkert pláss í þeim fyrir mjölverksmiðjur o.s.frv. til þess að nýta allt hráefnið sem kemur um borð, bein og úrgang. Það er ekki hægt að koma því fyrir og það má ekki stækka skipin. Menn verða því bara að fleygja þessu. Þetta er ekki einhlítt mál með allt of stóran flota. Svona einhliða vísindareikningur er ekki mjög góður að mínu mati.
    Ég held að allt of mikil áhersla hafi verið lögð á þessa umræðu um allt of stóran flota og við einbeitt okkur að því að búa til skömmtunarkerfi í staðinn fyrir það að eyða verulegum fjármunum í að finna hvað er að í hafinu, eins og ég sagði hér í umræðunum um kvótakerfið í gær. Það er einmitt það sem okkur vantar að vita. Fæðukerfið virðist hafa

eitthvað brostið, alla vega kom það í ljós í síðasta togararallýi að þorskurinn er 5--10% léttari en hann átti að vera miðað við árið í fyrra. Það bendir eindregið til þess að eitthvað sé að í fæðukerfinu. Ef farið hefði verið að ráðum ágætra vísindamanna og þorskstofninn hafður stærri, hvað hefði hann þá minnkað mikið meira? Þessi vísindi stangast nefnilega á, eins og ég var að segja hér í gær, og við eigum að beina kröftum okkar og verja meiri fjármunum í það að leita skýringa á hvað er að fara úr skorðum í hafinu. Það er ekki nóg að beina augum sínum eingöngu að því að búa hér til einhvers konar skömmtunarkerfi öllum til bölvunar.
    Það er engin trygging fyrir því þó menn setji kíkinn fyrir blinda augað að verið sé að laga jafnvægi í byggðinni eða það sé einhver byggðastefna þó að einhver ágætur ráðherra hafi einhver tonn til þess að úthluta hingað og þangað. Það er engin lausn á vandamáli sem þessu.
    Það kom hér fram fyrr í morgun að svokölluð fiskvinnslustefna er ekki til. Það er ekki talað um fiskvinnsluna eða fiskverkafólkið. Þetta fólk hefur unnið við sjávarútveg lengi og það er eins og þetta fólk sé ekki til. Með þessu öllu saman virðist eiga bara að grisja byggð gegnum peninga og það er náttúrlega út af fyrir sig nokkuð merkilegt að ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju skuli setja slíkt á fót. Það er alveg rétt að þetta kann að verða vísir að auðlindaskattinum margfræga sem byggist á eintómri fræðimennsku. Mann hefur lengst af langað til að segja ekkert einasta orð í sambandi við allt það tal um auðlindaskatt og alla þá útreikninga því það er svo greinilegt að það er reiknað út af fólki sem ekki skilur neitt annað en þríliður. Það er hægt að reikna ýmislegt í þríliðu. Ef allt of mikið væri af verslunum hér á höfuðborgarsvæðinu ætti þá að reikna það út í þríliðu að hægt væri að lækka vöruverð með því bara að ryðja einhverjum af þeim um koll? Stofna úreldingarsjóð af því það væri allt of mikið af verslunum. Á hvaða leið erum við í þessari umræðu? Í mínum huga væri miklu nær að stofna úreldingarsjóð fyrir ónothæfa stjórnmálamenn. ( ÓÞÞ: Hvort sagðirðu ónotaða eða ónothæfa?) Ónothæfa, sem geta ekkert annað en smíðað einhverja forsjárhyggju sem er verið að leggja af fyrir austan tjald.