Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. meiri hl. sjútvn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. sjútvn. um frv. til laga um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Nefndin fjallaði um frv. og fékk til viðræðna um það Þórarin V. Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, Hannes G. Sigurðsson, hagfræðing Vinnuveitendasambandsins, Ásgeir Daníelsson, hagfræðing hjá Þjóðhagsstofnun, Sigurð Stefánsson endurskoðanda, Benedikt Valsson, hagfræðing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna, Svein Hjört Hjartarson, hagfræðing Landssambands íslenskra útvegsmanna, Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda, Friðrik Pálsson, forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Óskar Vigfússon, forseta Sjómannasambands Íslands, Hólmgeir Jónsson, hagfræðing Sjómannasambandsins, Ólaf Klemensson og Eirík Guðnason frá Seðlabanka Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Þjóðhagsstofnun og Sjómannasambandi Íslands.
    Það komu því fjöldamargir gestir á fund nefndarinnar og sögðu sitt álit á frv. Að loknum vandlegum umræðum sem ég held að allir hafi verið sammála um sem í þessari nefnd sátu lagði meiri hl. nefndarinnar til að frv. yrði samþykkt með breytingum sem fluttar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Þessar brtt. sem birtar eru á þskj. 1097 eru í fyrsta lagi við 2. gr. þar sem fjallað er um skipan stjórnar sjóðsins. Breytingin felst í því að
hagsmunaaðilar koma sér saman um tilnefningu á tveimur fulltrúum í stjórn sjóðsins. Síðan er b-liður, nýr, þar sem segir svo að náist ekki samkomulag þessara hagsmunaaðila um sameiginlega tilnefningu fulltrúa í þessa stjórn þá komi ráðherra til með að skipa þá fulltrúa án tilnefningar.
    Í öðru lagi, sem er mjög mikilvæg breyting við 3. gr., að í stað 2. málsl. komi tveir nýir málsliðir er orðist svo: ,,Við sjóðinn skal starfa sérstök deild fyrir botnfiskafurðir``, þ.e. að fyrir botnfiskafurðir allar starfi ein deild en ekki að botnfiskafurðum sé skipt upp í mismunandi deildir. Þetta var sameiginleg niðurstaða nefndarinnar allrar í raun og veru og samstaða um hana. Að öðru leyti er tekið til um að sjútvrh. taki ákvörðun um skiptingu sjóðsins í deildir eftir tegundum afurða samkvæmt tillögum sjóðstjórnar.
    Í þriðja lagi er breyting við 1. málsl. 6. gr. en þar ákvað nefndin að halda sig við gildandi lög um það hlutfall af andvirði sjávarafurða sem inn- og útgreiðslur skuli miðast við, þ.e. að sjútvrh. taki þá ákvörðun að fenginni tillögu sjóðstjórnar. Þetta er smávægileg breyting í raun og veru og er nákvæmlega í takt við það sem gildandi lög hafa sagt til um.
    Hv. þm. Hreggviður Jónsson, nýorðinn þingmaður Sjálfstfl., var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls. Þórhildur Þorleifsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk álitinu. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að

frv. verði samþykkt með þessum breytingum. Undir þetta álit skrifa Geir Gunnarsson, Alexander Stefánsson, Guðni Ágústsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.