Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. minni hl. sjútvn. (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir minnihlutaáliti sjútvn. Nd. um frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins.
    ,,Það frv., sem hér er til umræðu, er afrakstur af starfi nefndar sem skipuð var til að endurskoða lög um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins í kjölfar lagafrv. sem flutt var af þingmönnum Sjálfstfl. undir forustu Matthíasar Bjarnasonar. Meginefni þessa frv. var tvennt:
    1. Að breyta yfirstjórn sjóðsins.
    2. Að hver framleiðandi fiskafurða, sem fluttar eru úr landi, skuli hafa sérreikning hjá Verðjöfnunarsjóði.
    Það frv., sem hér er til umræðu, gengur mjög til þessarar áttar og er í raun stuðningur við meginefni frv. Matthíasar Bjarnasonar. Á hinn bóginn er ljóst að fleira þarf að koma til svo að markmiðum frv. um sveiflujöfnun verði náð. Í því sambandi skal tvennt nefnt:
    1. Með breytingu á skattalögum þarf að veita almenna heimild til myndunar sveiflujöfnunarsjóðs innan fyrirtækjanna sjálfra.
    2. Reisa þarf strangar skorður við seðlaprentunarvaldi þannig að ábyrgðarlaus peningamálastefna ríkisvaldsins stefni ekki markmiðum um sveiflujöfnun í voða.
    Í þessu sambandi skal bent á að veruleg hætta er fram undan vegna óábyrgrar peningamálastefnu stjórnvalda. Síðustu 12 mánuði hefur peningamagn í umferð aukist um 42% og erlendar lántökur um 51%.
    Þensla í efnahagslífinu verður því aðeins stöðvuð að ríkisvaldið láti af tilefnislausri seðlaprentun og útþynningu á gjaldmiðli landsins. Ljóst er samkvæmt framansögðu að samræmdar aðgerðir á öllum sviðum peningamála þurfa að koma til eigi að nást árangur með lagasetningu sem þessari.
    Minni hl. nefndarinnar er samþykkur meginmarkmiðum frv. en telur að skorti heildarstefnu í peningamálum eigi frv. að skila tilætluðum árangri og gerir því þann fyrirvara við samþykkt frv. að gerð verði grein fyrir þeirri heildarstefnu og þeim aðhaldsaðgerðum sem stjórnvöld hyggjast grípa til á öllum sviðum peningamála á næstunni.``
    Ég vil enn fremur, hæstv. forseti, minna á nokkur atriði hér sem eru náskyld þessu máli en hafa ekki fengið kannski beina umfjöllun að þessu sinni, t.d. orkufrekur iðnaður. Ekki er um að ræða verðjöfnun á orkufrekum iðnaði þó verið sé að tala um verðjöfnun í sjávarútvegi og spurning hvers vegna það sé ekki hægt. Það er líka annað sem er náskylt þessu. Það er frv. hæstv. fjvn. sem var lagt fram hér fyrir jól en hefur ekki fengist rætt nema við 1. umr. og var vísað til nefndar og situr þar fastfrosið. Það liggur í fjh.- og viðskn.
    Kjarni málsins er að fjárlög verði líka virt sem lög frá Alþingi og öllum ráðuneytum og ríkisstofnunum verði kennt í alvörunni að deila með tólf því það eru tólf mánuðir í árinu og því er þetta frv. mikilvægt.

    Ég ítreka að það er heildarstefnan í peningamálum sem ræður mestu um árangur í stjórn peningamála en ekki einstaka afkróaðir kimar eins og Verðjöfnunarsjóður þó það geti að sjálfsögðu hjálpað við að koma í veg fyrir hagsveiflur og stuðla að sparnaði.
    Ég tel að þetta mál sé mjög mikilvægt. Það mikilvægasta af því er að heildarstjórn í peningamálum sé þannig að samræmi sé í þessum hlutum.