Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Við 1. umr. málsins urðu nokkrar umræður um það mál sem hér er nú til 2. umr. Í þeirri umræðu kom fram hjá flestum ef ekki öllum þeim sem tóku til máls að þessi nýi sjóður sem hér er lagt til að taki við af Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins er í öllum aðalatriðum til mikilla bóta. Það er ljóst að sá sjóður sem nú starfar hefur ekki reynst megnugur þess að jafna sveiflur eins og til var stofnað þegar hann var settur á í upphafi. Stundum er meira að segja haldið fram að hann hafi þvert á móti haft öfug áhrif við það sem til var ætlast.
    Við 1. umr. málsins var bent mjög rækilega á þá stefnu Sjálfstfl. að heppilegast væri að breyta tekju- og eignarskattslögunum á þann veg að hægt væri fyrir fyrirtæki að mynda sveiflujöfnunarsjóði. Þannig gætu fyrirtæki þegar um hagnað væri að ræða lagt til hliðar fjármagn án þess að það yrði skattað fyrr en það væri tekið til nota í fyrirtækinu á þeim tíma sem illa áraði. Slíkir sjóðir eru mjög mikilvægir fyrir fyrirtækin og gera sama gagn og til er ætlast af þessum sjóði sem hér er til umræðu. Tekið skal fram að slíkir sveiflujöfnunarsjóðir í fyrirtækjunum þurfa alls ekki að útiloka það að starfandi séu verðjöfnunarsjóðir fyrir atvinnugreinar, ekki síst fyrir atvinnugreinar eins og sjávarútveginn, þar sem um er að ræða verulegar sveiflur á verðlagi eftir markaðsverði á hverjum tíma.
    Ég verð að segja það að eftir þær umræður sem fóru fram við 1. umr. málsins, finnst mér ekki nægilega skýrt koma fram af hálfu þeirra sem hér hafa mælt fyrir nál. hvers vegna ekki var tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram við 1. umr. málsins. Ég nefni til að mynda að þegar rætt var um 3. gr. var sú fyrirspurn gerð hvort sett yrði á stofn sérstök deild fyrir botnfiskafurðir. Þessu hefur nú verið svarað játandi með tillögu sem meiri hl. nefndarinnar hefur flutt. Í framhaldi af því var spurt: Hvernig hyggst
sjóðurinn jafna verð á botnfiski þegar ljóst er að verð á botnfiski sem seldur er úr landi til að mynda eða á fiskmörkuðum getur rokkað til og frá á sama deginum? Um þetta varð nokkur umræða án þess að nokkurt svar kæmi við 1. umr. málsins. Ég hélt að hv. nefnd mundi a.m.k. ræða málið á þann veg að það kæmi fram í framsögu þeirra sem hefðu með framsögu að gera af hálfu nefndarinnar því það er ákaflega mikilvægt að átta sig á því með glöggum hætti hvernig þetta kerfi kemur til með að virka í framkvæmd. Málið er auðvitað ákaflega viðkvæmt og mál sem ég efast ekki um að nefndin sem undirbjó frv. ræddi mjög ítarlega, ekki síst vegna þess að því hefur verið haldið fram, m.a. af hálfu þeirra sem sátu í nefndinni á vegum SÍF, að erfitt geti reynst fyrir t.d. íslenskar saltfiskafurðir að keppa við þá sem vinna úr útfluttum botnfiski nema að þeir sem flytja út ísvarinn fisk, óunninn fisk, séu látnir greiða í Verðjöfnunarsjóð með sama hætti og hinir. En á því eru viss vandkvæði sem margoft hefur verið bent á.
    Mér finnst ekki hafa komið nægilega skýrt fram

hér í umræðum hvernig hv. nefndin sem um þetta fjallaði hyggst leysa þetta vandamál. Hér er eingöngu sagt, eins og segir í brtt., að sjútvrh. taki að öðru leyti ákvörðun um skiptingu sjóðsins í deildir eftir tegundum og síðan á stjórn sjóðsins að gera tillögur til ráðherra um önnur efni.
    Ég held að það væri þess virði að reyna að fá svar hvað þetta snertir því um þetta eru menn spurðir. Það sem ég segi um þetta er alls ekki sagt til þess að tefja málið með einum eða öðrum hætti. Mér er hins vegar kunnugt um það að málið var tekið út úr nefndinni í svo miklum flýti að það gafst ekki tækifæri til þess í þingflokki sjálfstæðismanna að ræða þetta mál. Jafnframt minni ég á að það voru önnur atriði sem óskað var eftir að yrðu könnuð og þá sérstaklega eignarákvæðið í 7. gr. frv., þar sem uppi voru sjónarmið hjá vissum aðilum að heppilegra kynni að vera að innstæðurnar yrðu eign fyrirtækjanna sem hefðu lagt inn í Verðjöfnunarsjóðinn. Vissulega eru þar vandamál á ferðinni vegna skattalegra ákvæða og skal ekki úr því dregið að það kann að reynast erfitt að þeir sem leggja inn í sjóðinn séu eigendur innstæðnanna rétt eins og þegar lagt er til hliðar í banka eða í sérstaka sjóði innan fyrirtækjanna sjálfra. En ég sakna þess satt að segja að ekki skuli hafa komið fram í nál. hvort nefndin kannaði þetta og hver niðurstaðan var og á hvaða rökum hún byggist. Mér er vel kunnugt um að sú nefnd sem undirbjó frv. ræddi þetta og taldi þetta vera það eina sem hægt væri að komast að niðurstöðu um, en frekari skýringar voru ekki gefnar af hálfu hæstv. ráðherra við 1. umr. Hann er ekki hér við 2. umr. og gefst því ekki tækifæri til að spyrja hann, en þetta er eitt af þeim atriðum sem við 1. umr. komu fram og óskað var að nefndin kynnti sér sérstaklega.
    Ég get í þriðja lagi bent á jafnánægjulegt og það er að í ákvæði til bráðabirgða skuli vera tekið fram að innstæða á stofnfjárreikningi Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins skuli renna í óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins og að ríkissjóður taki á sig þær skuldir sem hvíla á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins vegna lántöku hjá Seðlabankanum frá
árinu 1981 og vegna tveggja stórra lána sem tekin voru á árinu 1988 og 1989. Ég benti á í mínu máli við 1. umr. málsins að þetta væri sjálfsagt, þetta væri eðlilegt, í framhaldi af yfirlýsingum hæstv. sjútvrh. Ég benti jafnframt á að til þess að þetta mál fengi eðlilega afgreiðslu þyrfti hæstv. fjmrh. að lýsa því yfir að þetta yrði gert í bókhaldi ríkisins, í reikningi ríkisins, því það hefur verið gagnrýnt að hæstv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir lántöku fyrir Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Síðan á lánið að greiðast einhvern tímann í framtíðinni þegar nýjar og aðrar ríkisstjórnir eru starfandi og þá kemur þetta til gjalda hjá ríkissjóði, smám saman eftir því sem lánið verður endurgreitt. Það stóð aldrei til að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins endurgreiddi þessi lán, en samt sem áður hefur hæstv. ríkisstjórnin aldrei viðurkennt að þetta sé skuld ríkissjóðs. Það var og er nauðsynlegt í þessari umræðu að þetta komi skýrt

fram því hæstv. fjmrh. hefur hér í ræðum á hv. Alþingi lýst því bókstaflega yfir að þetta sé ekki og verði ekki skuld ríkissjóðs. Hins vegar er það rétt að hæstv. sjútvrh. hefur margoft tekið fram að hann telji að ríkissjóður eigi að taka þessi lán yfir og gerði það strax haustið 1988, að ég held, þegar hann flutti ræðu á þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins.
    Ég er með þessu ekki að gagnrýna þessa ráðstöfun heldur einungis að benda á að afleiðingar slíkrar ráðstöfunar eru þær að hæstv. fjmrh. verður að viðurkenna að hér sé þá orðin skuld ríkisins og það eigi að skuldfæra þetta sem skuld ríkissjóðs en ekki með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur sífellt haldið fram að eigi að gera.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að ræða frv. frekar. Ég ætla ekki heldur að koma í veg fyrir það með neinum hætti að frv. geti fengið eðlilega afgreiðslu. En ég spyr: Er hugsanlegt að hv. nefnd, sem ég veit að kemur til með að hittast innan tíðar til þess að ræða tvö stór mál, geti hugsað sér, ef það hefur ekki enn verið gert, að ræða þau mál sem ég hef hér bent á að þurfi að ræðast betur og við þyrftum að fá betri skýringar á, þannig að 3. umr. fari fram eftir að slík umræða hefur farið fram í nefndinni? Hafi þessi mál hins vegar verið skoðuð ofan í kjölinn skal ég fallast á að málið fari ekki aftur til nefndar. En mér finnst að þegar beðið er um skýrar upplýsingar við 1. umr. málsins og hæstv. ráðherra svarar því ekki en vísar til nefndarinnar, þá sé það skylda nefndarhlutanna að skýra út hver niðurstaðan varð, nema hv. nefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki þurfi að skoða þetta frekar. Nú veit ég að einn hv. þm., Matthías Bjarnason, sem var fjarverandi þegar þetta mál var til 1. umr., þekkir þetta mál betur en flestir aðrir hv. þm. Og ég efast ekki um að hann geti gefið upplýsingar um þetta mál. Ef hann getur gert það hér og nú er það auðvitað vel þegið. Það var ekki hægt við 1. umr. málsins, en mér finnst að ég hafi ekki fengið nægilega skýr svör varðandi þessi örfáu atriði sem ég hér hef nefnt.
    Ég þarf ekki, virðulegur forseti, að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni en ég óska eftir því að einhver, annaðhvort sá sem starfaði í undirbúningsnefndinni eða þeir sem störfuðu í sjálfri þingnefndinni, gefi betri svör en komu fram í þeim nál. sem fluttar voru framsögur fyrir rétt í þessu.