Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Í raun og veru þarf ég ekki að taka það fram að ég hlýt að styðja þetta frv. Ég hef átt aðild að því að flytja frv. um breytingar á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins oftar en einu sinni og hér varð töluvert upphlaup, sennilega af mínum völdum, í lok síðasta þings og í framhaldi af því samþykkt þáltill. um að endurskoða þessi lög. Ég var einn af, ef ég man rétt, sextán nefndarmönnum og hef starfað í nefndinni. En það er rétt eins og hv. 1. þm. Reykv. tók fram að nefndin lauk störfum nokkuð fljótlega og eftir að ég var farinn úr landi svo ég get ekki sagt frá því sem gerðist á síðustu fundum nefndarinnar. Ég vísa því þeim málum og þeim fyrirspurnum hv. 1. þm. Reykv. til sjútvrh. sem vafalaust mun svara þeim spurningum.
    En ég vil benda á það að flest eða öll þau atriði sem hv. 1. þm. Reykv. gat um komu til mjög ítarlegrar umræðu í nefndinni á þeim fundum sem ég sat. Það sem mér finnst mjög mikils virði er að lögfesta þetta frv. Hins vegar ætla ég ekki að fullyrða að frv. sé gallalaust frekar en önnur mannanna verk og þá er tími til þess að gera breytingar í skjóli fenginnar reynslu. En mér finnst brýna nauðsyn bera til að Alþingi staðfesti það að allir eru óánægðir, hver og einn einasti aðili er óánægður með lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins eins og þau eru og eru búnir að vera óánægðir með þessi lög og framkvæmd þeirra í mörg ár. Sumar og mikilvægustu deildirnar hafa í raun og veru verið gagnslausar að öllu leyti, eins og frystideildin. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að gera þessa grundvallarbreytingu og því fyrr því betra. Ég hefði talið að það hefði átt að vera búið að gera hana fyrir löngu og því fagna ég því að frv. er flutt.
    Það hafa orðið miklar sveiflur hjá mönnum í sjávarútvegi. Þeir sem voru með og kröfðust þessarar lögfestingar á sínum tíma eru flestir hverjir búnir að snúast nokkrum sinnum. Mér finnst að við þessa grundvallarbreytingu þá snerti
þetta mál ekki svo mjög seljendur fisks, allt öðruvísi en áður var. Það er því fyrst og fremst fiskvinnslan. Það kom fram mjög skýrt í nefndinni að það væri ótækt að gera greinunum mishátt undir höfði þannig að það væri ekki hægt og ekki líðandi fyrir þá sem væru að kaupa fisk og salta og selja úr landi að aðrir þyrftu ekki að greiða neitt, eins og af óunnum fiski. Svo það var alltaf lagt til grundvallar að þetta næði til allra. En höfuðbreytingin er sú að það er verið að draga úr miðstýringunni með frv. Það er verið að leggja af þá kvöð að fiskframleiðendur eigi að leggja í sameiginlegan sjóð sem þeir fá ekkert meira úr en hinir sem eru að byrja og kannski verður verðfall þannig að þeir sem ekkert hafa lagt inn fá peningana sem hinir hafa verið að skapa sjóðnum. Á þessu er grundvallarbreyting.
    Og svo er aftur hitt sem hv. 1. þm. Reykv. gat réttilega um. Hér eru tekin öll tvímæli af í sambandi við lántökur Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins hjá

Seðlabankanum sem var hluti af þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin gerði fyrir tæpur tveimur árum. Sjútvrh. lýsti þá fljótlega yfir, ég held það hafi verið á þingi Sjómannasambands Íslands en ekki Farmannasambandsins, ef ég man rétt, að hann liti svo á að þetta ætti ekki að endurgreiða. Hins vegar heyrði maður hjá fjmrh. annað. Ég fagna því að hér kemur tvímælalaust fram lagaákvæði svo mér finnst að eiginlega þurfi ekki að spyrja hæstv. fjmrh. að því sem mér fannst hv. 1. þm. Suðurl. hafa einhverjar miklar áhyggjur af. Hann verður bara að hlýða Alþingi þegar Alþingi hefur afgreitt þetta mál og þá er þessari óvissu rutt úr vegi. Þetta vildi ég að kæmi fram.
    Ég er algjörlega ósammála einu sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan. Hann sagði að hann teldi að það hefði verið rétt að leysa þessi mál með sveiflureikningum eða í gegnum skattakerfið. Ég er svo sannfærður um að ef sú aðferð hefði verið tekin upp hefði það aldrei gengið í gegn. Aðrar atvinnugreinar hefðu aldrei léð máls á því að veita sjávarútveginum þessa umbun í gegnum skattakerfið. Hins vegar getur Alþingi alveg tvímælalaust staðið á því að hér er verið að gera breytingu á kerfi sem er búið að vera í gildi í fjöldamörg ár í þessari atvinnugrein. Þess vegna er það að mínum dómi sjálfsagt og eðlilegt að sjávarútvegurinn njóti þessa með þessari breytingu.
    Ég get á ýmsan hátt tekið undir með hv. 1. þm. Reykv. um það að alltaf geta komið í ljós ýmsir annmarkar. Allt þetta var rætt allítarlega en af því að ég var ekki á síðustu, að ég held, tveimur fundum nefndarinnar vil ég ekki gefa þar neinar yfirlýsingar heldur tel ég það hlutverk sjútvrh. að skýra frá því því að hann fékk endanlegt nál.