Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. minni hl. sjútvn. (Kristinn Pétursson):
    Hæstv. forseti. Ég skal verða snöggur því að ég veit að það er knappt um tímann. En það féll niður hjá mér áðan, ég ætlaði að spyrja hæstv. sjútvrh. að því í sambandi við þá skuld sem núna er í Verðjöfnunarsjóði. Í lögunum frá 1988 sem mynduðu þessa skuld í fyrsta skipti stendur, með leyfi forseta, að lánið skuli endurgreiðast af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi aðilum á næstu þremur árum eftir að það er tekið. Það sem þá kann að verða ógreitt fellur á ríkissjóð. En með samþykkt þessa nýja frv. er ljóst að það verður ekki um neinar tekjur að ræða hjá þessum sjóði til að greiða þessa skuld. Mig langar því að vita hvort ekki sé þá meiningin jafnframt að ganga frá þessari skuld endanlega í ríkisbókhaldinu þannig að ekki verði um það að ræða að þessu verði kastað inn í framtíðina heldur verði hér um heilsteyptar ákvarðanir að ræða. Ég hef alltaf verið andvígur því að gera þetta svona af þeirri einföldu ástæðu að tveir aðilar geti ekki átt sama hlutinn og fiskvinnslan er öllsömul búin að bóka þetta sem eign hjá sér og þar af leiðandi getur ekki ríkissjóður átt þetta líka. En þessi er nú spurningin, hvort ekki sé þá meiningin, verði þetta samþykkt, að afgreiða þetta mál í eitt skipti fyrir öll.