Atkvæðagreiðslur
Föstudaginn 04. maí 1990


     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég hef eina athugasemd fram að færa við það sem hæstv. forseti sagði, að ætlast til þess að þingmenn haldi áfram í nótt eftir fund í Sþ. í kvöld. Það verður ekki tveggja tíma matarhlé hjá öllum því sumir eru boðaðir á nefndarfundi, svo að það er nú verið að keyra hratt þessi trippi hér á Alþingi. Ég tel fráleitt að tala um næturfund og það nótt eftir nótt. Ég sé ekkert athugavert við það þó það dragist fram á mánudag, annað eins hefur skeð, að ljúka þingstörfum og gera það með skaplegum hætti.
    Ég vil láta það koma fram að forseti þessarar deildar hefur alltaf sýnt einstaka sanngirni og góða samvinnu við þingmenn. Og ég óska eftir því að hann hugleiði þetta sem ég hef nú þegar sagt.