Flugmálaáætlun 1990--1993
Föstudaginn 04. maí 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég vil í fáeinum orðum þakka hv. fjvn. hennar störf að þessu máli. Þetta er fyrsta reglulega endurskoðun 10 ára flugmálaáætlunar eins og lög gera í raun ráð fyrir að fram fari á tveggja ára fresti og ég vil lýsa ánægju minni með að tekist hefur samkomulag í fjvn. um það mál og þær tillögur sem hér eru til afgreiðslu. ( EgJ: Það er nú skilyrt eins og þú sérð á fylgiskjölum.) Hvað sem um það allt saman má segja birtist hér eitt sameiginlegt nál. og sameiginlegar brtt. fjvn. og hef ég ekkert nema gott um þær að segja og er fyllilega sáttur við bæði tillögurnar og meðhöndlun fjvn. á þessu máli að öllu leyti.
    Ég vil auðvitað sérstaklega þakka hv. formanni fjvn. fyrir ítarlega og vandaða framsöguræðu um málefni Húsavíkurflugvallar sem var fróðleg og upplýsandi og þykir mér að sönnu vænt um að fjvn. hefur tekið af dýrmætum tíma sínum í að kynna sér svo rækilega og vandlega ofan í kjölinn málefni Húsavíkurflugvallar í Aðaldalshrauni. Um það sem var nú tilefni umfjöllunarinnar, þ.e. þá tillögu sem fólst í þáltill. eins og hún var fram borin á Alþingi, að Húsavíkurflugvöllur mundi færast upp um flokk, úr flokki áætlunarflugvalla II í flokk I, er það að segja að það er allt rétt sem um það var sagt, að sú tillaga er ættuð úr samgrn. Reyndar hefur legið fyrir á þeim bæ ósk heimamanna um að Húsavíkurflugvöllur yrði færður upp um þriggja ára skeið eða svo, ef ég man rétt, ítrekaðar bréfaskriftir. Hafa heimamenn m.a. bent á að á þessu svæði séu margir af mikilvægustu ferðamannastöðum landsins, þar á meðal sá sem að öllum öðrum ólöstuðum dregur líklega flesta ferðamenn til landsins, Mývatn. Enn fremur hafa þeir bent á mikilvægi þess að á norðaustanverðu landinu yrði a.m.k. einn flugvöllur þannig í stakk búinn að í fyllingu tímans gætu um hann farið vöruflutningar, útflutningur eða söfnun á ferskum matvælum til annarra flugvalla með stærri flugvélum. Ýmislegt fleira
mætti þarna til nefna, svo sem að nýjar flugvélategundir opna nú þann möguleika að styttri flugbrautir bjóði upp á áætlunarflug eða vöruflutningaflug með stærri flugvélum. Nýjar flugvélategundir geta athafnað sig á styttri flugbrautum og má til gamans nefna að þær nýju flugvélar sem Flugleiðir hafa verið að taka á móti núna í dag og fyrir stuttu síðan geta þegar búið verður að leggja bundið slitlag á flugbrautina á Þingeyri tekið sig þaðan á loft með helming íbúanna og flogið til annarra heimsálfa án millilendingar. Þannig hefur nú tæknin breytt aðstæðum að mun styttri flugbrautir duga núna fyrir fullvaxnar millilandaflugvélar.
    Í þriðja lagi háttar þannig til á Húsavíkurflugvelli í Aðaldalshrauni að þar er fyrir hendi jarðnæði eða land í eigu ríkisins og er mjög einfalt og ódýrt að koma við þeirri lengingu flugbrautarinnar sem gerir það að verkum að stærri flugvélar geta athafnað sig

frá flugvellinum. Það sem hér ræður flokkuninni er eins og jafnan flugbrautarlengdin ein, en þannig er flugmálaáætlunin og flokkunin upp byggð að það er flugbrautarlengdin sem ræður því í hvaða flokk flugvalla flugvellir lenda. Og þar sem stefnt er á það með þessari stefnumörkun að Húsavíkurflugvöllur færist í þann lengdarflokk sem fyllir flokk I þótti eðlilegt --- og eru fyrir því fordæmi, sbr. til að mynda Egilsstaðaflugvöll sem var þegar í upphafi flugmálaáætlunar settur í flokk I af því að þá hafði verið tekin ákvörðun um að hann skyldi byggður upp í þá stærð að nokkrum árum liðnum. Hér er því í raun og veru hvað Húsavíkurflugvöll snertir fylgt því hinu sama fordæmi og átti við um Egilsstaðaflugvöll á sínum tíma.
    Ég vona að þetta skýri málið af hálfu samgrn. eða af minni hálfu og er mér sama hvorum aðilanum er eignuð sú tillaga að færa Húsavíkurflugvöll þarna upp.
    Ég vil enn fremur geta þess að í samgrn. hefur nokkuð verið horft til þeirrar þróunar sem líkleg er í okkar flugmálum á næstu árum sem eðlilegt má telja þegar verið er að marka stefnu eins og hér er gert. Það liggur í hlutarins eðli að það eru fyrst og fremst flugvellirnir sem fjærst liggja Reykjavík, flugvellirnir um norðaustanvert landið og svo kannski á Vestfjörðum, sem munu þrátt fyrir batnandi samgöngur á landi halda sínum hlut og jafnvel búa við vaxandi flugumferð á næstu árum. Þeirrar þróunar gætir nú þegar að á þeim flugvöllum sem nær liggja Reykjavík dregst flugumferð saman eftir því sem samgöngur á landi batna og þarf auðvitað ekki að útskýra fyrir sprenglærðum hv. alþm. í samgöngumálum hvað hér er á ferðinni. Þessari þróun verður að sjálfsögðu ekki snúið við. Hún er eðlileg og mun þýða það að batnandi samgöngur á landi veita fluginu harðnandi samkeppni, sérstaklega þeim svæðum landsins sem nær liggja höfuðborgarsvæðinu. Þau sem fjær liggja og fjærst liggja munu lengur halda sínum hlut og jafnvel enn um sinn búa við vaxandi flugumferð. Þess vegna liggur það í hlutarins eðli að það er skynsamlegra að horfa til meiri og varanlegri fjárfestingar á flugvöllunum eftir því sem mikilvægi þeirra í þessu tilliti er meira, sérstaklega flugvallanna um norðaustanvert landið og á Vestfjörðum og svo auðvitað í Vestmannaeyjum af öðrum ástæðum sem ekki þarf að fjölyrða um.
    Varðandi Hornafjörð og þverbraut þar, þá skýrði ég það reyndar í framsöguræðu minni hér í fyrri umræðu hvernig það gerðist að þar var ekki gerð tillaga um framkvæmdir við þverbraut á áætlunartímanum, þessum fjögurra ára tíma. Það var af þeirri ástæðu að flugráð lagði ekki til þessar framkvæmdir. Í flugráði var ákveðið að fresta um óákveðinn tíma að setja fjárveitingu inn á byggingu þverbrautar á Hornafirði og fyrir því voru í mín eyru færð tæknileg rök sem voru fyrst og fremst þau að sérfræðingar Flugmálastjórnar teldu sig þurfa að gera frekari rannsóknir á vænlegustu legu þverbrautarinnar, m.a. vegna sviptivinda, sem ég hygg að hv. 4. þm. Austurl. þekki nú eitthvað til á þessu svæði, þyrfti meiri tíma

áður en hægt væri endanlega að velja vænlegustu legu þverbrautar. A.m.k. var ljóst að sérfræðingar Flugmálastjórnar treystu sér ekki til að kveða upp úr um vænlegustu legu þverbrautarinnar á þessu ári þannig að af þeim tæknilegu ástæðum mundi koma til a.m.k. einhverra breytinga í þessu efni.
    Hvort nauðsynlegt var að reikna með jafnlangri frestun og tillagan gerði í sjálfu sér ráð fyrir þar sem framkvæmdin var tekin út skal ég ekki um segja og tek það fram að að sjálfsögðu er ég mjög ánægður með að sjá þessa framkvæmd þarna inni og ég vona að tæknilega verðum við í stakk búin til að hefja þessar framkvæmdir á þeim tíma sem fjárveitingar gera ráð fyrir hér í tillögunni.
    Þetta var sem sagt tillaga flugráðs og hún gekk til þingsins óbreytt af minni hálfu eftir að hafa hlýtt á þau rök sem sérfræðingar Flugmálastjórnar færðu fram í þessu efni.
    Ég vona svo að lokum að við náum því að halda okkar striki hvað snertir framkvæmdir á grundvelli 10 ára áætlunar um uppbyggingu í flugmálum. Ég hef margsagt það hér úr þessum ræðustóli að ég tel að sú vinna sem var grundvöllur að þessari 10 ára áætlun sem hér er verið að ræða um í raun og veru eða endurskoðun á henni hafi verið gagnmerk og þörf og okkur beri að reyna að standa vörð um þær framkvæmdir sem þar hafa verið lagðar niður og tryggja það að við náum að halda okkar striki á þeim grundvelli sem þar var markaður. Þá munum við sjá gríðarlegar framfarir í þessum efnum, þessu mikilvæga sviði samgöngumála, á þessu 10 ára tímabili og það er vissulega full þörf á því hjá þjóð sem byggir jafnmikið á flugsamgöngum og við Íslendingar gerum.
    Að lokum vil ég geta þess vegna þess sem hv. formaður fjvn. og frsm. nál. nefndi hér um fjárhag Flugmálastjórnar og rekstur þar á bæ að ég hef rétt nýverið fengið í hendur áfangaálit um fjárhagsvanda Flugmálastjórnar sem er skilað af starfshópi sem sérstaklega var skipaður í þessu efni. Það er rétt sem fram kom að þar eru ekki enn á borðum þær niðurstöður að unnt sé að taka þær til meðhöndlunar eða afgreiðslu hér að þessu sinni, en væntanlega gætu þær komið til afgreiðslu síðar á árinu og það er alveg ljóst að til einhverra aðgerða þarf að grípa vegna þess fjárhagsvanda sem Flugmálastjórn á nú við að glíma í sínum rekstri. Þar er að ýmsu leyti um sérstakan vanda að ræða sem m.a. skapast af því að umfang þeirra verkefna sem þessi mikilvæga stofnun sinnir hefur farið mjög vaxandi og það er vel, vil ég segja, vegna þess að þar er að stórum hluta til á ferðinni þjónustustarfsemi sem við Íslendingar veitum vegna alþjóðlegs flugs á okkar flugumsjónarsvæði. Það skilar okkur mikilvægum gjaldeyristekjum inn í landið en að sjálfsögðu þarf að mæta þeim auknu umsvifum sem þetta kallar á og tekjurnar skila sér síðan í framhaldinu. Og ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum á því skilning, Íslendingar, að standa vel í stykkinu hvað þetta snertir. Við sinnum þarna mjög mikilvægu hlutverki og önnumst flugumferðarstjórn á gríðarstóru svæði hér umhverfis Ísland og allt til

norðurpólsins og það skilar inn í landið, ekki bara til Flugmálastjórnar heldur til fleiri stofnana, svo sem Pósts og síma og Veðurstofunnar, mjög miklum tekjum og gjaldeyristekjum sem við höfum ekki efni á að afsala okkur.
    Að lokum endurtek ég svo þakkir mínar til hv. fjvn. fyrir hennar vönduðu störf að venju í sambandi við þetta mál.