Vegáætlun 1989-1992
Föstudaginn 04. maí 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Nú er liðið á kvöld og ég mun ekki hafa uppi langt mál hér. En það sem ég vildi einkum drepa á er það að ég er sammála minnihlutaálitinu og stend enda að því og mun ekki taka þátt í afgreiðslu þessarar þáltill. til vegáætlunar vegna þess að ég get ekki sætt mig við þann niðurskurð sem orðinn er á vegafé og framkvæmdum og í öðru lagi er ég engan veginn sátt við það að þeir skattar sem lagðir eru á bifreiðaeigendur gangi ekki til uppbyggingar vega.
    Það má leiða rök að því að þær byggðir í landinu sem mest þurfa á því að halda að vinna saman séu sömuleiðis þær byggðir sem verst eru settar í samgöngumálum. Ég get ekki séð að það sé í rauninni réttlætanlegt að skera niður fé til vegamála á sama tíma og sorfið er að byggð í landinu og líka að sennilega hefur aldrei verið meiri þörf á því um landsbyggðina að sveitarfélög vinni saman og ein nauðsynlegasta forsenda þeirrar samvinnu eru góðar samgöngur.
    Það er einnig svo, og er nú sagt hér á hverju ári, að forsenda góðs mannlífs í landinu og menningarlífs, og ég veit ekki hvað ég á að hafa um það fleiri orð, séu góðar samgöngur. Allt má þetta til sanns vegar færa. Þess vegna er hart að búa við það að bæði lögboðin framlög til vegagerðarinnar og eins skattar af bifreiðum renni ekki til hennar og ég get ekki verið meðmælt því. Einnig er það svo að stundum hefur verið fundið mjög að hagstjórn og efnahagsstjórn á Íslandi og enn komu fram ákúrur í þá veru í umræðunni í gær þegar minnst var á skýrslu frá OECD, en mér hefur skilist að það væru viðurkennd atriði í hagstjórn að ríkinu bæri að draga úr framkvæmdum á þenslutímum en ef það væri kreppa í efnahagslífinu væri aftur á móti nauðsyn á því að ríkið héldi uppi opinberum framkvæmdum. Því verður ekki neitað að vegagerð er verulegur þáttur í atvinnulífi úti á landi og það er ein af orsökum þess að ég get ekki fallist á að það sé réttmætt að láta bágan fjárhag ríkissjóðs bitna á vegaframkvæmdum þegar atvinnuástandið er með þeim hætti sem allir vita.