Fjáraukalög 1988
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Það fjáraukalagafrv. fyrir árið 1988 sem hér er á dagskrá er flutt eins og önnur slík frv. til þess að leita heimildar Alþingis fyrir þeim útgjöldum ríkissjóðs sem eru umfram heimildir fjárlaga frá því ári. Á árinu 1988 varð um óvenjulega miklar greiðslur úr ríkissjóði að ræða umfram það sem fjárlög heimiluðu. Það er hárrétt sem fram kom í máli hv. frsm. meiri hl. fjvn., formanns nefndarinnar, að þær auknu greiðslur úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga urðu til þess að fjvn. tók sér fyrir hendur að leggja vinnu í að semja frv. til laga sem legið hefur hér fyrir Alþingi að undanförnu og hefur enn eigi náð afgreiðslu. Þetta er frv. um fjárgreiðslur úr ríkissjóði.
    Ég vil einnig taka það fram út af ræðu hv. formanns nefndarinnar að það er hárrétt sem hann gat um í sínu máli að nefndin sem heild lagði mikla vinnu í þetta frv. og að athuga þær orsakir sem til þess lágu að greiðslur úr ríkissjóði fóru svo mjög úr böndunum sem raun ber vitni um. Fjölmargar stofnanir og forstöðumenn stofnana og ráðuneyta voru kallaðir fyrir til þess að leita skýringa á þeim miklu greiðslum sem hér er um að ræða. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þetta, aðeins staðfesta að það er rétt að nefndin sem heild lagði í þetta verk mikla vinnu. Ég tel það formanni nefndarinnar, sem auðvitað hafði um þetta forustu, til lofs að hann skyldi eyða svo miklum tíma og nefndin sem heild í að vinna þetta verk. Og það er rétt að í slíku vinnulagi felst visst aðhald að þeim stofnunum sem svo mjög hafa farið fram úr heimildum um útgjöld úr ríkissjóði svo sem hér er um að tefla.
    Ég vil einnig taka fram að það er líka rétt sem hann sagði um B-hluta stofnanir. Ekki hefur alla jafnan verið farið ofan í saumana á þeim eins og þurft hefði að gera. Þó er það sem hann sagði hér um Póst og síma og Rafmagnsveitur ríkisins út af fyrir sig ekki rétt, að Rafmagnsveitur ríkisins, RARIK, hafi verið undir einhverri sérstakri
gjörgæslu. ( Gripið fram í: Póstur og sími.) Póstur og sími e.t.v., en ekki Rafmagnsveitur ríkisins hafi einhver skilið það svo, vegna þess að stjórnendur RARIK hafa gætt þess að haga bæði fjárfestingu og rekstri sem nánast í samræmi við það sem fjárlög kveða á um hverju sinni og ekki þurft neinnar sérstakrar gjörgæslu við þess vegna. ( SighB: Ég meinti bara Póst og síma en alls ekki annað.) Þetta er rétt hjá hv. 5. þm. Vestf. að ef grannt var skoðað þá meinti hann það en vegna þess að hann tók þessar tvær stofnanir saman hefðu kannski einhverjir getað skilið sem svo að þar væru þær báðar undir sömu sök seldar.
    Þegar frv. til fjárlaga fyrir þetta ár sem hér er verið að fjalla um, árið 1988, var flutt, voru þar kynnt þau meginmarkmið sem þáverandi ríkisstjórn hafði sett sér í fjármálum ríkisins. Þessi markmið voru eftirfarandi: Að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum, minni lánsfjárþörf og engar nýjar erlendar lántökur fyrir A-hluta ríkissjóðs, endurskoðun á tekjuöflunarkerfi

ríkisins þannig að skattkerfið yrði einfaldara, skilvirkara og réttlátara, dregið yrði úr sjálfvirkni ríkisútgjalda, ríkisábyrgðum yrði aflétt. Í samræmi við þessi markmið voru fjárlög afgreidd með rekstrar- og greiðslujöfnuði. Fjárlögunum var síðan lítillega breytt í febrúarmánuði með lögum nr. 10/1988 án þess að þessum meginmarkmiðum væri raskað.
    Ég held að fullyrða megi að þau markmið sem þarna voru sett hafi verið hyggileg og góð markmið í sjálfu sér. Deila má auðvitað um hvort þær leiðir sem beitt var til að mynda í skattamálum hafi verið að öllu leyti hyggilegar og hvort þær hafi að öllu leyti náð því sem þeim var ætlað, að gera skattkerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara. Um þetta má endalaust deila. Ég hygg að reynslan af því hafi ekki skilað jafnmiklum árangri og til var ætlast í þessu efni. En það er kannski engin nýlunda vegna þess að ég er búinn að sitja hér á hinu háa Alþingi nokkuð lengi og hef oft tekið þátt í því að breyta skattalögum, ellegar verið í andstöðu við breytingar sem stjórnarandstæðingur og alltaf hafa breytingar verðir gerðar undir því yfirskini að verið væri að gera skattkerfið réttlátara og einfaldara. Yfirleitt hefur það þó farið þannig að skattkerfið hefur orðið sífellt flóknara.
    Það frv. sem hér er til meðferðar sannar svo aftur á hinn bóginn að útkoman úr fjármálum ríkisins á árinu 1988 varð á margan hátt mjög fjarri því sem að var stefnt með þeim markmiðum sem sett voru við fjárlagaafgreiðsluna á þeirri tíð. Þetta á sér vitaskuld ýmsar orsakir. Það á sér m.a. þær orsakir að á því ári sátu tvær ríkisstjórnir sem höfðu að ýmsu leyti ólíka stefnu. Á því ári störfuðu að sjálfsögðu tveir fjmrh. Og ég minni á það að sú hin fyrri ríkisstjórn, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, lét af störfum en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við hinn 28. sept. Þá urðu einnig skipti á húsbændum í fjmrn. Þá lét af störfum sem fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson en við tók núv. hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson. Ég hef margsinnis tekið eftir því að núv. hæstv. fjmrh. tekur þetta ár, 1988, til viðmiðunar þegar hann er að ræða um árangur sinn í ríkisfjármálum á árinu 1989. Og tekur þetta ár til viðmiðunar þannig að frá árinu 1988 hafi honum og hans ríkisstjórn
tekist að ná betri útkomu í fjármálum ríkisins, þ.e. að halli á ríkissjóðsrekstrinum hafi verið minni en á árinu 1988. Þetta er út af fyrir sig rétt, halli á ríkisrekstrinum var minni á árinu 1989 en á árinu 1988. En það sem hæstv. núv. fjmrh. gerir enga grein fyrir og gerir enga tilraun til þess að sýna fram á er hvað af því sem hallaðist á merinni í fjármálum ríkisins á árinu 1988 sé til komið vegna ákvarðana og fjármálastjórnar ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar sem tók við 28. sept. og hvað sé
tilkomið vegna ákvarðana og fjármálastjórnar hæstv. fyrrv. fjmrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar og þeirrar ríkisstjórnar sem sat að völdum fram til þess tíma.
    Þetta verður að sjálfsögðu aldrei sundur greint með neinni nákvæmni eða neinni vissu. En þó er nokkuð

af því sem hér er um að tefla sem liggur býsna ljóst fyrir enda varð, eins og áður sagði, veruleg stefnubreyting við stjórnarskiptin.
    Allt fram í septembermánuð hélt fyrrv. fjmrh., hæstv. núv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson, því fram að staða ríkissjóðs hefði að vísu nokkuð versnað frá því sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga en þó eigi meira en svo að halli yrði 693 millj. kr. á árinu.
    Hér verður að sjálfsögðu ekki lagður neinn dómur á það hvort þetta mat var rétt eða raunsætt. Hins vegar varð niðurstaðan sú að þegar árið í heild er gert upp með þessu fjáraukalagafrv. þá er hallinn ekki 693 millj. kr. heldur 8166 millj. kr. og er því 11--12 sinnum meiri en sá fjmrh. sem sat til 30. sept. gerði ráð fyrir. Og þó svo að eitthvað hafi nú verið rangt í því mati þá er þegar af þessu augljóst að talsvert hefur farið úr böndunum eftir að núv. hæstv. fjmrh. tók við. Það er býsna hlálegt að hann skuli svo oft sem raun ber vitni um taka þetta ár og fjármálastjórnina á árinu 1988 til viðmiðunar og til marks um hina verstu fjármálastjórn og nota það til að sýna fram á að útkoman hafi orðið eitthvað skárri á árinu 1989.
    Ég sagði að það væri auðvitað ekki hægt að greina þetta sundur með neinni vissu. Formaður fjvn. nefndi aukafjárveitingar sem eru prentaðar með sem fskj. með áliti meiri hl. Þessar aukafjárveitingar er að sjálfsögðu hægt að greina í sundur eftir ríkisstjórnum og eftir fjármálaráðherrum. Beinar aukafjárveitingar fyrstu níu mánuði ársins, í tíð hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar, urðu 511 millj. kr., en síðustu þrjá mánuði ársins, í tíð hæstv. ráðherra Ólafs Ragnars Grímssonar, 2055 millj. kr. eða nákvæmlega fjórum sinnum meiri á þremur mánuðum, í tíð hæstv. ráðherra Ólafs Ragnars Grímssonar, en var í níu mánuði á fyrri hluta ársins í tíð hæstv. ráðherra Jóns Baldvins Hannibalssonar.
    Hér eru vissulega miklar vísbendingar um að það hafi orðið þáttaskil í fjármálastjórninni við stjórnarskiptin þegar núv. hæstv. ríkisstjórn tók við og núv. hæstv. fjmrh. tók við þann 28. sept. 1988. Þetta væri afar hollt fyrir hæstv. ráðherra Ólaf Ragnar Grímsson að hafa til hliðsjónar þegar hann er að útskýra það hvað fjármálastjórnin hafi farið úr böndunum á árinu 1988, sem raunverulega er þó satt því sjaldan hefur hallast eins á merinni í fjármálum ríkisins.
    Það segir sig auðvitað sjálft að þegar öll markmið um jöfnuð í ríkisbúskapnum fóru svo hrapallega út um þúfur sem raun ber vitni um að útgjöldin fóru fram úr heimildum fjárlaga um nærri 9,1 milljarð og tekjurnar fóru vaxandi um rúmlega 900 millj. kr., þá fóru öll þau markmið sem sett voru við fjárlagaafgreiðsluna og byggt var á þegar fjárlagafrv. var lagt fram um lántökur ríkissjóðs, þar á meðal um engar erlendar lántökur til A-hluta ríkissjóðs á því ári, öll slík markmið fóru út í veður og vind. Það fór svo hrapallega að þrátt fyrir markmið um engar nýjar erlendar lántökur voru tekin erlend lán sem námu

4200 millj. kr. og lán A-hluta ríkissjóðs í heild urðu tæplega 9400 millj. kr. Þrátt fyrir allar þessar lántökur, þar á meðal erlendar lántökur, varð greiðsluhalli á ríkissjóði í árslok sem nam 4200 millj. kr. Það voru sem sé gífurleg útgjöld úr ríkissjóði umfram heimildir fjárlaga, einkum á síðustu mánuðum ársins eftir að hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafði tekið við, sem leiddu til þeirrar niðurstöðu sem fyrr er að vikið, að halli á ríkissjóði á þessu ári varð yfir 8 milljarðar, eða 8166 millj. kr.
    Tekjurnar hækkuðu vissulega minna en gert hafði verið ráð fyrir miðað við verðlagsþróun vegna þess að samdráttur varð í efnahagskerfinu og má að nokkru rekja til þess þá staðreynd að tekjurnar urðu ekki meiri en raun ber vitni um. Það er þó rangt sem margoft hefur verið reynt að halda fram að tekjurnar hafi í raun brugðist vegna þess að þær fóru fram úr því sem fjárlög áætluðu. Það var ekki tekjuvandi hjá ríkissjóði á þessu ári vegna þess að tekjurnar urðu meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir og fjárlög voru afgreidd með rekstrarafgangi. Það var hins vegar gífurlegur útgjaldavandi. Útgjöldin fóru úr öllum böndum, einkanlega eftir að núv. hæstv. fjmrh. tók við fjármálastjórninni. Það er hlálegt að hæstv. ráðherra skuli nú fara um landið til þess að guma af því
hvernig honum hafi tekist að ná nýjum og betri tökum á fjármálum ríkisins, það er býsna hlálegt.
    Ég held að nauðsynlegt sé að átta sig á því að það millifærslu- og sjóðakerfi sem hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar kom á fót á síðustu mánuðum ársins leiddi auðvitað til þess að markmiðið um að draga úr ríkisábyrgðum hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þess í stað voru ríkisábyrgðir stórkostlega auknar. Nú stendur ríkisábyrgð að baki a.m.k. 10 milljörðum króna sem varið hefur verið til skuldbreytinga og millifærslna á grundvelli þessa kerfis. Þær fjárhæðir gjaldfalla á árunum 1991 og 1992 og verða þá að greiðast, hvort sem það verður af atvinnufyrirtækjunum sjálfum eða að ríkisábyrgðin fellur þannig að ríkissjóður verður að standa straum af greiðslunum og borga brúsann. Þetta veldur því nýjum vanda á árunum 1991 og 1992, bæði hjá atvinnuvegunum og væntanlega í stórum mæli hjá ríkissjóði. Hér hefur verið sagt að vænta megi þess að gjaldþrot sem lenda muni á ríkissjóði vegna þess sem fellur á sjóðina, vegna greiðsluerfiðleika atvinnufyrirtækjanna, skipti milljörðum, eigi minna en 5 milljörðum króna. Um það er ekki hægt að spá hvað verður þegar öll kurl eru til grafar komin á árunum 1991 og 1992 en víst er að þar verður um marga milljarða að ræða.
    Þessi hæstv. ríkisstjórn sem tók við 28. sept. 1988 velti því vandanum á þessu sviði, sem svo mörgum öðrum, yfir á framtíðina. Það kemur í hlut annarra að standa undir þessum vanda og borga brúsann vegna þeirra ábyrgða og skuldbindinga sem hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og fjármálastjórn hæstv. ráðherra Ólafs Ragnars Grímssonar hefur bundið okkur í fyrir framtíðina.
    Ég tel ástæðu til þess, virðulegi forseti, að minna

á það að á þessu var keypt og þeim tillögum sem Sjálfstfl. hafði lagt fram fyrir stjórnarskiptin. Þær tillögur Sjálfstfl. urðu til þess að upp úr stjórnarsamstarfi slitnaði. Og hvernig voru nú þessar tillögur Sjálfstfl.? Þær voru í megindráttum tvenns konar:
    Í fyrsta lagi tillögur um aðgerðir til þess að koma grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar á réttan kjöl, m.a. með breytingum á gengi.
    Í öðru lagi að mæta verðhækkunaráhrifum gengisbreytingarinnar fyrir almenning í landinu með því að lækka matarskattinn um helming.
    Þetta voru megindrættirnir í tillögum Sjálfstfl. og það voru þessar tillögur formanns Sjálfstfl., þáv. forsrh. Þorsteins Pálssonar, sem ollu því að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði.
    Ég hygg nú að betra hefði verið að samþykkja þessar tillögur í stað þess að stofna til allra þeirra gífurlegu skuldbindinga sem gert var eftir stjórnarskiptin og koma svo til gjalda á árunum 1991 og 1992, annað tveggja af atvinnuvegunum sjálfum ellegar þá af ríkissjóði. Þetta var ekki gert. Framsfl. og Alþfl. rufu stjórnarsamstarfið og mynduðu nýja ríkisstjórn í lok september. Í stað þess að fallast á aðgerðir sem hefðu veitt undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar nýjan grundvöll og orðið til þess að atvinnuvegirnir hefðu getað starfað hlupu þessir flokkar í faðm Alþb. og mynduðu nýja ríkisstjórn. Sú hæstv. ríkisstjórn hafðist síðan ekki að í málefnum atvinnuveganna mánuð eftir mánuð, utan það að taka lán til millifærslna, skuldbreytinga og hlutafjárframlaga og stofna með þeim hætti til ríkisábyrgða og binda framtíðinni bagga. Sú hæstv. ríkisstjórn horfði þannig mánuð eftir mánuð á vanda atvinnulífsins, horfði á að fyrirtækin hvert á fætur öðru urðu gjaldþrota og fóru fram af brúninni. Horfði á vaxandi atvinnuleysi, þverrandi atvinnumöguleika fólks og minnkandi kaupmátt.
    Samtímis þessu fór óráðsía í fjármálum ríkisins vaxandi, svo sem hér hefur verið vikið að að framan og frv. þetta ber ljósast vitni um. Afleiðingarnar hafa verið þær að útgjöld ríkissjóðs hafa verið hærri síðan en nokkru sinni fyrr. Og ekki nóg með það heldur hafa skattar á þjóðina jafnframt verið hækkaðir meira og verið hærri en nokkru sinni hefur áður gerst. Þetta er sú niðurstaða sem þetta frv. birtir og þetta er sú einkunnargjöf sem frv. staðfestir um fjármálastjórnina á því herrans ári 1988. Ég hef hér að sumu leyti rennt stoðum undir þá fullyrðingu mína að verulega hafi hallast eftir stjórnarskiptin og eftir að núv. hæstv. fjmrh. tók við. Reynslan af störfum hans hefur haldið áfram í sama fari, að þrátt fyrir það að halli á ríkissjóði hafi verið nokkru minni á árinu 1989 fóru útgjöldin samt hækkandi sem hlutfall af landsframleiðslu og skattar á þjóðina voru enn hækkaðir og voru hærri á því ári en þeir hafa nokkurn tímann áður verið.