Fjáraukalög 1988
Föstudaginn 04. maí 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1988. Þegar það var lagt fram á haustdögum 1987 stefndi þáv. ríkisstjórn að nokkrum meginmarkmiðum í fjárlögunum. Það var að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum, draga úr lánsfjárþörf, draga úr sjálfvirkni ríkisútgjalda, endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og gera þar með tekjuöflunarkerfið einfaldara, skilvirkara og réttlátara, eins og þá voru mikil tískuorð, og fella niður ríkisábyrgðir. Í stuttu máli má segja að ekkert af þessum markmiðum gekk fram. Það má kannski deila um hvort tekjuöflunarkerfið var einfaldara, skilvirkara og réttlátara, menn hafa ýmsar skoðanir á því. Sennilega hefur það orðið skilvirkara, en að mínu mati varð það hvorki einfaldara né réttlátara.
    Ég tel að þessi markmið hafi engan veginn náðst eins og niðurstöður fjáraukalaganna sýna. Þær sýna hækkun á útgjöldum ríkissjóðs frá fjárlögunum um rúma 9 milljarða, að vísu hækkuðu tekjur um tæpan milljarð umfram áætlun fjárlaga fyrir það ár, en hallinn nam um 8 milljörðum kr. svo að þá liggur ljóst fyrir að jöfnuðurinn náðist ekki. Lánsfjárþörf var tæpir 9 milljarðar kr. og erlendar lántökur drjúgur hluti af því. Draga átti úr sjálfvirkni ríkisútgjalda á þessu ári. Ekki verður séð af neinum þeim niðurstöðum sem fyrir liggja að það hafi tekist. En það sem kannski verður minnisstæðast við þessa margfrægu endurskoðun á tekjuöflunarkerfinu er að þá tókst að breikka söluskattsstofninn og hafa uppi þennan margfræga, illræmda matarskatt, sem mörgum hefur reynst þungur í skauti síðan og einkum þó barnmörgum fjölskyldum láglaunafólks. Hann hefur komið illa niður á einstökum atvinnugreinum, þar á meðal bæði ferðaþjónustu og hótelrekstri. Auk þess voru gerðar ýmsar þær ráðstafanir síðari hluta ársins sem við höfum í rauninni ekki séð fyrir endann á og virðist augljóst á þessum tíma nú að þær muni eiga eftir að draga
verulegan dilk á eftir sér. Ríkissjóður mun því eiga eftir að bera verulega byrði af þeim í framtíðinni.
    Ég tel mig hafa lýst nú hér frá mínu sjónarmiði hvernig mistókst að ná fram þessum markmiðum ríkisstjórnarinnar sem að var stefnt þá. Ég minnist þess líka að þegar ég talaði við afgreiðslu fjárlaga fyrri hluta vetrar 1987 þá hafði ég efasemdir um að þessi markmið næðust og það er nú komið á daginn. Ég tel mig ekki geta staðið að afgreiðslu þessa frv.