Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Mér kom það í hug áðan þegar ég leit á klukkuna hér beint á móti okkur að sennilega mun það aldrei áður hafa borið við í þingsögunni að á jafnskömmum tíma væri mælt fyrir jafnháum fjárgreiðslum úr ríkissjóði eins og gerst hefur á síðasta einum og hálfum klukkutíma. Þá hefur verið mælt fyrir og afgreidd þáltill. um vegáætlun, mælt fyrir þáltill. um flugmálaáætlun, mælt fyrir jarðgöngum á Vestfjörðum og mælt fyrir tveimur fjáraukalagafrv. Er það allvel af sér vikið á ekki lengri tíma en þetta, þannig að ég býst við að hér hafi verið sett nokkurt met í þingsögunni, virðulegi forseti. Hvort það met er til eftirbreytni eða ástæða til að slá það met, ( Fjmrh.: Það verður ekki slegið.) það efast ég um að verði talið æskilegt. Ég heyri það að hæstv. fjmrh. lifnaði allur við þegar hann fór að hugsa um þetta og gaf þá yfirlýsingu úr sæti sínu að þetta met yrði aldrei slegið.
    Þetta frv. kom til umræðu í sameinuðu þingi 12. mars og var vísað til fjvn. að lokinni þeirri umræðu. Hún kallaði fyrir sig fulltrúa frá fjmrn. og óskaði sérstaklega eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvort ákvarðanir hefðu verið teknar um aukin útgjöld umfram fjárlög árið 1990 sem ekki var gert ráð fyrir í frv. Jafnframt óskaði nefndin eftir því að fjmrn. legði fyrir hana tillögur sínar um lækkun ríkisútgjalda á árinu 1990, samkvæmt heimildarliðum 6.15 og 6.20 í 6. gr. fjárlaga. Þá var óskað eftir því að gerð yrði grein fyrir áhrifum breyttra verðlagsforsendna eftir kjarasamninga á ríkisfjármál árið 1990. Einnig óskuðum við eftir því að heilbr.- og trmrn. legði fram sundurliðun á tillögum um lækkun stofnframlaga til sjúkrahúsa og læknisbústaða og að samgrn. og Hafnamálastofnun veittu upplýsingar um tillögur sínar um lækkun
framkvæmdarframlaga vegna hafnamála. Í frv., eins og það var upphaflega frágengið, voru þessar lækkunartillögur í einni tölu án þess að þeim væri skipt niður á verkefni. Mönnum bar hins vegar saman um það, bæði í fjvn. og eins embættismönnum fjmrn., að afgreiða yrði þessa lækkun útgjalda þannig að fyrir því væri séð á hvaða verkefni hún ætti að koma, enda er það í samræmi við afgreiðslu fjárlaga hér á Alþingi þar sem birtar eru og afgreiddar slíkar sundurliðanir.
    Fjvn. bárust umbeðnar upplýsingar. M.a. komu á fund nefndarinnar forstjóri Þjóðhagsstofnunar ásamt starfsmönnum hennar og gerðu þeir grein fyrir breyttum þjóðhagshorfum í kjölfar kjarasamninganna frá því í febrúar sl. Er álitsgerð fjmrn., hagdeildar, sem okkur barst einnig um sama hlut, þ.e. verðlagshorfur í kjölfar kjarasamninga, birt sem fskj. með nál. meiri hl. fjvn. á bls. 2 og 3. Vísa ég til þess fskj. og tel ekki ástæðu til þess að taka tíma Alþingis í að ræða efni þess frekar.
    Í framhaldi af þeim upplýsingum sem bárust, m.a. frá fjmrn., tók meiri hl. fjvn. ákvörðun um að leggja til eftirfarandi:
    1. Að veitt verði 25 millj. kr. framlag til endurgreiðslu gjalda í landbúnaði vegna niðurgreiðslu

fóðurs í loðdýrarækt. Vegna mistaka var ekki gert ráð fyrir þessu framlagi í fjárlögum ársins 1990. Búið var að taka umrædda útgjaldaákvörðun. Má flokka það undir mistök okkar fjárveitinganefndarmanna að hafa látið hjá líða að taka tillit til þeirrar ákvörðunar við afgreiðslu fjárlaga í lok sl. árs og er úr þeim mistökum hér með bætt. Til viðbótar þessu framlagi fengum við upplýsingar um að ríkisstjórnin hafi samþykkt að verja 12 millj. kr. á árinu 1990 af fjárlagaliðnum óskiptum til ráðstöfunar fyrir ríkisstjórnina.
    Þá gerum við einnig till. um að framlög til ríkisspítala verði hækkuð um 147 millj. kr. Í ræðu minni við 3. umr. fjárlaga í lok sl. árs lét ég þess getið að nokkur áhöld væru um það hvort áformin sem birtust í frv., sem síðar urðu fjárlög fyrir árið 1990, er vörðuðu útgjöld ríkisspítalanna væru reist á réttum grunni. Í kjölfarið á þeirri yfirlýsingu sem ég gaf þá fyrir hönd fjvn. var gengið í það viðfangsefni að skoða sérstaklega vanda ríkisspítalanna og jafnframt hvort sá grunnur sem lagður hafði verið í fjárlögum ársins 1990 við afgreiðslu þeirra að því er varðaði útgjöld ríkisspítalanna væri réttur. Sérstök nefnd sem skoðaði það mál komst að þeirri niðurstöðu að hækka þyrfti rekstrarframlög til ríkisspítala um 147 millj. kr. þar sem í ljós hefði komið að rekstrarumfang ríkisspítalanna var vanmetið við fjárlagagerðina 1990, eins og okkur fjárveitinganefndarmönnum raunar bauð í grun. Auk þess þurfa stjórnendur ríkisspítala að grípa til nokkurra samdráttaraðgerða svo dæmið geti gengið upp á árinu.
    Þá fjallaði nefndin um nokkur óvissumál sem gætu komið til útgjalda frá ríkissjóði umfram það sem nefnt er hér að framan. Þar er fyrst að telja tjónakostnað vegna náttúruhamfara á Suðurlandi í byrjun þessa árs. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að efna til útboðs vegna framkvæmda og raunar hefur það útboð þegar farið fram. Endanleg tilboð liggja ekki fyrir þannig að ekki er vitað hversu hár sá kostnaður verður en Viðlagatrygging kemur m.a. til með að bera hluta kostnaðarins. Þá er til ráðstöfunar nokkur
fjárhæð á fjárlögum þessa árs vegna sjóvarnargarða sem ráðstafa má til þessa verkefnis. Því sem á vantar hefur ríkisstjórnin lýst yfir að hún muni mæta með ráðstöfunum á framlögum undir liðnum Óskipt vegna tjónabóta í fjárlögum. Verði um frekari fjárþörf að ræða mun ríkisstjórnin leggja til við afgreiðslu fjáraukalaga í haust að henni verði þá sinnt.
    Við afgreiðslu fjáraukalaga nr. 111 frá 1989, sem var til afgreiðslu á Alþingi í desembermánuði sl., kom fram að rekstrarafkoma Flugmálastjórnar var verulega slæm og fjárvöntun þar umtalsverð. Í framhaldi af þeim viðræðum sem fjvn. átti við samgrn. og Flugmálastjórn um þetta mál var ákveðið að ráðuneytið, Fjárlaga- og hagsýslustofnun og starfsmenn Flugmálastjórnar mynduðu vinnuhóp til að gera tillögur um lausn á þeim vanda sem er hjá Flugmálastjórn. Fjvn. kallaði eftir niðurstöðu vinnuhópsins en starf hans hafði orðið tímafrekara en gert var ráð fyrir og enn liggja ekki fyrir niðurstöður

af þeirri vinnu en vinnuhópurinn mun skila af sér á næstu vikum. Af þessum sökum verður frekari ákvörðun um þetta mál að bíða til fjáraukalaga á komandi hausti.
    Þá höfum við rætt hérna um þáltill. um að flýta framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum. Til þess að svo megi verða þarf að hraða öllum undirbúningi verksins á árinu 1990 og þarf að verja til þess allt að 47 millj. kr. sem teknar yrðu að láni og verður leitað eftir lántöku- og greiðsluheimild við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1990 sem fram verður lögð á komandi hausti.
    Á þskj. 1167 er gerð grein fyrir þeim framlögum sem nú er gert ráð fyrir að verja til byggingar sjúkrahúsa, læknabústaða og hafnamannvirkja, en meiri hl. samþykkir tillögur heilbr.- og trmrn., samgrn. og Hafnamálastofnunar óbreyttar um lækkun þeirra framlaga. Þá lagði fjmrn. fyrir nefndina tillögur sínar um lækkunar ríkisútgjalda samkvæmt heimildum í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 1990, lið 6.15 og 6.20. Tillögur um lækkun eru að fjárhæð tæpar 160 millj. kr. en í fjárlögum 1990 er gert ráð fyrir allt að 300 millj. kr. heimild til lækkunar. Fjvn. gafst ekki tími til að afgreiða tillögur fjmrn. nú en mun taka málið til afgreiðslu á mánudaginn kemur, en heimildin 6.20 er veitt með þeim skilyrðum að fjvn. fallist á niðurskurðarhugmyndir hæstv. ríkisstjórnar.
    Á þskj. 1167 eru síðan brtt. fjvn. við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 vegna kjarasamninga í febrúar 1990. Brtt. eru í sex töluliðum. 1. brtt. varðar 1. gr. um að greinin orðist eins og þar segir og er þar gerð grein fyrir þeim breytingum sem verða á greiðsluyfirliti A-hluta ríkissjóðs miðað við þær afgreiðslur sem tillaga er gerð um í brtt. 2, 3, 4 og 5 og þeim tillögum sem finna má í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Skv. 1. gr., ef samþykkt verður með þeim hætti sem fjvn. leggur til, verða gjöld umfram tekjur 817 millj., lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs verður sama fjárhæð, 817 millj. þannig að gert er ráð fyrir því að þessi gjöld umfram tekjur verði jöfnuð með lántöku. Gert er ráð fyrir því að tekin verði lán innan lands að fjárhæð 820 millj. og yrði þá greiðslujöfnuður hagstæður upp á 3 millj. kr.
    Í 2. brtt. er gert ráð fyrir því hvernig útgjöld ríkissjóðs breytist frá ákvæðum 2. gr. fjárlaga eftir ráðuneytum, æðsta stjórn ríkisins, menntmrn., utanrrn. o.s.frv. og er þar um samtals lækkun að ræða upp á 267 millj. kr.
    3. brtt. varðar svo þá tvo nýju liði sem ég ræddi hér um áðan, þ.e. viðbótin vegna endurgreiðslu gjalda í landbúnaði sem okkur láðist að gera tillögu um við afgreiðslu fjárlaga í lok síðasta árs og tillagan um auknar fjárveitingar til ríkisspítalanna upp á 147 millj. kr. sem varð niðurstaða af því nefndarstarfi sem ég ræddi um hér áðan.
    Í 4. brtt. er síðan tekin upp tillaga heilbr.- og trmrh. um lækkun útgjalda vegna byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Hefur meiri hl. fjvn. tekið tillögu hæstv. ráðherra og flytur hana hér óbreytta, en þarna er um að ræða lækkun

samtals upp á 16,8 millj.
    5. brtt. varðar síðan lækkun útgjalda vegna hafnamannvirkja. Þar hefur fjvn. tekið upp, eins og ég áður sagði, óbreytta tillögu Hafnamálastofnunar og samgrn. um lækkun samtals upp á 25 millj. er skiptist á fjórar hafnir eins og þar kemur fram.
    6. brtt. varðar svo fyrirsögn frv., um að fyrirsögnin verði: ,,Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 1990`` eins og eðlilegt er að fyrirsögnin hljóði eftir þær breytingar sem meiri hl. fjvn. gerir tillögu um á þskj. 1167.
    Undir nál. meiri hl. rita auk mín hv. alþm. Margrét Frímannsdóttir, Alexander Stefánsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Ásgeir Hannes Eiríksson.
    Þá er rétt að taka það fram undir lokin að okkur láðist að biðja um frá menntmrn. tillögur menntmrn. um lækkun útgjalda vegna fjárlagaliðarins 02 610, Héraðsskólar almennt. En að sjálfsögðu þarf það að koma fram við afgreiðslu fjáraukalaganna hvernig ráðgert sé að skipta þeim niðurskurði sem þar er áformaður og ekki er skiptur í frv. eins og það var úr garði gert þegar það var lagt fram hér fyrir hið háa Alþingi á sínum tíma. Þetta höfðum við gert og tekið inn tillögur samgrh. um hafnir, sem ég lýsti hér áðan, og tillögur heilbrrh. um sjúkrahús, en okkur láðist að biðja hæstv. menntmrh. um tillögur hans er varða héraðsskóla og uppgötvuðum ekki að okkur hafði þar yfirsést fyrr
en búið var að afgreiða málið frá fjvn. Þess vegna flytur hæstv. menntmrh. sjálfur á þskj. 1206 brtt. er varðar lækkun útgjalda vegna liðarins Héraðsskólar almennt að fjárhæð 10 millj. kr. og eru þar lækkuð um sama hundraðshluta útgjöld vegna allra héraðsskólanna frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlögum sem afgreidd voru í lok síðasta árs.
    Virðulegi forseti. Ég hef svo lokið við að mæla fyrir nál. meiri hl. fjvn. og þeim brtt. sem meiri hl. flytur og getið um þá tillögu sem hæstv. menntmrh. flytur á þskj. 1206.