Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Á þskj. 1249 hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990 vegna kjarasamninga í febrúar 1990. Tillögurnar eru á þá leið að inn komi ný grein á eftir 2. gr. sem orðist eins og segir á þskj. En samkvæmt brtt. er gert ráð fyrir því að hækka þann lið á fjárlögum sem heitir Jöfnunargjald, sem er tekjuliður 4212, úr 500 millj. í 545 millj. kr. Það samsvarar um það bil einnar mánaðar innheimtu jöfnunargjalds.
    Í öðru lagi leyfi ég mér að flytja við 3. gr. frv. brtt. þannig að við bætist nýr liður svohljóðandi:
    ,,Í 4. gr. fjárlaga fyrir árið 1990 bætist nýr fjárlagaliður svohljóðandi:
    11-289 Jöfnunargjald. 59 Tilfærslur, 170 millj. kr.``
    Í fjárlögum á yfirstandandi ári er ekki gert ráð fyrir slíkum tilfærslum. Þessar tilfærslur hafa verið notaðar á undanförnum árum til þess að greiða fyrirtækjum í iðnaði uppsafnaðan söluskatt samkvæmt reikningum fyrirtækjanna. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að ég hef flutt frv. sem er 532. mál þingsins um þetta mál. Það frv. er að finna á þskj. 929. Því miður sýnist mér að ég fái ekki tækifæri til að mæla fyrir því frv. á yfirstandandi þingi.
    Lög um jöfnunargjald voru samþykkt á Alþingi 1978. Samkvæmt þeim var 3% jöfnunargjald lagt á innflutning sömu iðnaðarvara og framleiddar voru hér á landi til að vega upp á móti þeim söluskatti sem varð hluti framleiðslukostnaðar þessara vara samkvæmt gildandi söluskattslögum. Tekjum af jöfnunargjaldinu átti að ráðstafa að hluta til eflingar iðnþróunar. Í greinargerð með frv. því sem varð þá að lögum sagði m.a. orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Leggja ber áherslu á að álagning þessa gjalds er tímabundin ráðstöfun þar sem við upptöku virðisaukaskatts félli gjaldið niður vegna þess að uppsöfnunaráhrifum yrði þar með eytt. Með álagningu þessa gjalds er ekki talið
að farið sé út fyrir þau takmörk sem aðildarsamningur Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samningur við Efnahagsbandalag Evrópu setur okkur, svo framarlega sem gjaldið er ekki hlutfallslega hærra en nemur þeim kostnaðarauka sem uppsöfnun söluskatts nú veldur í verði innlendrar vöru.``
    Í greinargerðinni var einnig sagt að eðlilegt væri að verja hluta af tekjunum, orðrétt, með leyfi forseta: ,,til að tryggja að útflytjendur iðnaðarvara þurfi eigi að verðleggja vöru sína með hliðsjón af þeim söluskatti er orðið hefur hluti af framleiðslukostnaði vörunnar.``
    Lögin voru tímabundin og giltu til 31. des. 1980, enda var gert ráð fyrir að virðisaukaskattur tæki við af söluskatti í byrjun árs 1981. Á næsta þingi á eftir fluttu fjórir þingmenn, þar á meðal núv. hæstv. fjmrh., frv. til breytinga á lögunum um jöfnunargjaldið. Í greinargerð frv. sagði orðrétt um tilgang laganna, með leyfi forseta: ,,Lög þessi voru sett til að jafna samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart iðnaði landa EFTA og EBE vegna ólíkra söluskattskerfa.``
    Núgildandi lög um jöfnunargjald, lög nr. 78/1980,

eru byggð á lögunum frá 1978. Áfram var ætlast til að tekjunum af jöfnunargjaldinu væri ráðstafað að hluta til að efla iðnþróun. Í greinargerðinni er áhersla lögð á að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða vegna mismunandi söluskattskerfa. Þegar lög um virðisaukaskatt voru samþykkt á Alþingi var gengið út frá því að jöfnunargjaldið félli niður. Í töflum um áhrif virðisaukaskatts á tekjur ríkissjóðs, en þær fylgdu frv., er sýnt hvaða áhrif slíkt hefur. Og þegar skatthlutfallið var ákveðið var gert ráð fyrir því tekjutapi.
    Nú er spurningin: Á þetta mál erindi í fjáraukalög vegna núverandi og núgildandi kjarasamninga í febrúar 1990? Í því sambandi er rétt að rifja upp að í tengslum við kjarasamninga á sl. ári var samið um ýmis atriði við hæstv. ríkisstjórn, þar á meðal um jöfnunargjaldið. Í bréfi hæstv. forsrh. sem var dags. 30. apríl til VSÍ og Vinnumálasambands samvinnufélaga segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Jöfnunargjald af innfluttum vörum verður hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda.``
    Lögunum var síðar breytt, reyndar með bráðabirgðalögum, og gjaldhlutfallið hækkað í samræmi við þessa yfirlýsingu. Við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs var ljóst að hæstv. ríkisstjórn ætlaði ekki að standa við loforð sitt og fella gjaldið niður. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að gjaldið verði innheimt í sex mánuði óbreytt. Hins vegar var ekki í fjárlögum ætlast til að ríkið endurgreiddi uppsafnaðan söluskatt vegna framleiðslu sl. árs. Í stað þess var 390 millj. kr. veitt til þess með fjáraukalögum sem samþykkt voru í desember 1989. Af þeirri upphæð gengu 100 millj. kr. til iðnaðarins.
    Nú hefur komið í ljós, hæstv. forseti, að sú upphæð dugir ekki til. Hæstv. iðnrh. gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda hinn 15. mars sl. og sagði þá m.a., með leyfi forseta:
    ,,Frá upptöku virðisaukaskatts um síðustu áramót heyrir uppsöfnun söluskatts í aðfangakostnaði iðnfyrirtækja sögunni til. Í fjárlögum fyrir árið 1990 er því ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til endurgreiðslu á uppsöfnuðum
söluskatti í iðnaði. Jafnframt hefur verið gert ráð fyrir því að 5% jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur verði fellt niður frá miðju þessu ári. Því er hins vegar ekki að neita að sú fjárhæð sem ákveðin var með fjáraukalögum á síðasta ári til að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í iðnaði vegna framleiðslu á árinu 1989 hrekkur ekki til. Samkvæmt áætlunum gæti fjárvöntunin numið allt að 170 millj. kr.``
    Ég vek athygli á því, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. viðurkennir það í sinni ræðu að ætlunin hafi verið að innheimta þetta gjald í sex mánuði enda liggur það fyrir mjög skýrt að ef gjaldið hefði átt að innheimtast allt þetta ár hefði það gefið ríkissjóði 1 milljarð í tekjur samkvæmt áætlunum fjmrn. Eina réttlætingin sem hæstv. ríkisstjórn hefur fyrir því að ganga á bak orða sinna og fresta niðurfellingu

gjaldsins er að tekjurnar þurfi til að mæta útgjöldum vegna endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti af framleiðslu síðasta árs. Það kom því verulega á óvart þegar hæstv. iðnrh. sagði í áðurgreindri ræðu hjá iðnrekendum, með leyfi forseta:
    ,,Við þær erfiðu aðstæður, sem nú eru í ríkisfjármálum, verður því e.t.v. ekki hjá því komist að fresta niðurfellingu jöfnunargjaldsins um nokkra mánuði til þess að afla fjár til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til iðnaðar vegna framleiðslu á síðasta ári. Það er í fullu samræmi við lögin um jöfnunargjaldið sem enn eru í gildi að ákveða að hluta af tekjum af því skuli varið í þágu iðnaðarins. Ég hef undirbúið um þetta tillögu sem ég mun leggja fram í ríkisstjórn á morgun.``
    Það skal tekið fram og endurtekið að þetta er sagt 15. mars, þannig að væntanlega hefur hæstv. iðnrh. lagt þessa tillögu fram í hæstv. ríkisstjórn að morgni hins 16. mars sl.
    Tilgangurinn með flutningi þessarar brtt. er annars vegar að tryggja endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti til iðnfyrirtækja vegna framleiðslu síðasta árs með sama hætti og tíðkast hefur undanfarin ár. Hins vegar er það tilgangurinn að koma í veg fyrir að hæstv. ríkisstjórn gangi á bak orða sinna og haldi áfram að innheimta jöfnunargjald í ríkissjóð lengur en eðlilegt getur talist og fjárlög gera ráð fyrir.
    Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að það er að mínu áliti engan veginn þinglegt að fylgja ekki tekjuáætlun fjárlaga þegar það er ljóst á hvaða forsendum sú tekjuáætlun byggði. Ég tel það vera óvirðingu við hv. Alþingi ef einföld ríkisstjórnarsamþykkt á að víkja til tekjuáætlun fjárlaga og málið ekki borið upp á Alþingi þegar kostur er til þess, eins og nú er. Það hefði verið hægt um vik fyrir hæstv. ríkisstjórn að setja inn í þau lög sem hér eru til umræðu heimild til þess að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt. Ef ætlunin er að heimta gjaldið inn áfram þá tel ég að það sé brot á okkar reglum um það hvernig þingið starfar sem fjárveitingavald. Mér finnst að hæstv. forseti þurfi að taka á því en hæstv. forseti hlýtur að vera sá fulltrúi hv. þm. sem þeir verða að leita til þegar um slíkt er að ræða.
    Með þessari till. er gert ráð fyrir nauðsynlegri heimild fyrir hæstv. ríkisstjórn að greiða þessar 170 millj. sem á vantar. Ég bendi á að á undanförnum árum hefur um það bil helmingur af tekjum vegna jöfnunargjalds gengið til fyrirtækja til þess að standa straum af kostnaði vegna uppsafnaðs söluskatts.
    Fjmrn. hefur upplýst mig um það að frá árinu 1981 og allt til ársins 1989 hafi 40--60% gjaldsins gengið til þessa verkefnis. Mér er það alveg ljóst að lögin um jöfnunargjald eru í gildi. Auðvitað hefði það verið skylda hæstv. ríkisstjórnar að fella þau lög úr gildi á miðju ári. Með þessari till. sem ég hef leyft mér að flytja hér er gert ráð fyrir því að gjaldið megi innheimtast í sjö mánuði ársins. En ég tel það skyldu hæstv. ríkisstjórnar að greiða 170 millj. til þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut af þeim fjárhæðum sem innheimtast af gjaldinu, eða 170 millj. kr. af 545

millj. sem er langtum lægra hlutfall en gengið hefur til þessara fjárframlaga eða tilfærslna á undanförnum árum.
    Í kvöld ræddi ég við þrjá hæstv. ráðherra um það að vera viðstadda þessa umræðu. Í fyrsta lagi hæstv. utanrrh. sem hlýtur að eiga að fylgjast með því hvort brotnir séu samningar við erlend ríki, viðskiptasamningar sem við höfum gert við EFTA og EB. En ávallt hefur það verið tekið fram af hv. Alþingi og hæstv. ríkisstjórnum að eina réttlætingin fyrir þessu gjaldi væri sú að það væri lagt á til þess að endurgreiða söluskatt og mætti ekki verða hærra en svo að það næmi þeim mun sem verður á framleiðslukostnaði fyrirtækja vegna þess að hér á landi hefur verið í gildi allt annað söluskattskerfi en í nágrannalöndunum, þeim löndum sem eru í EFTA og EB. Ég talaði einnig við hæstv. fjmrh. sem á auðvitað að fylgja fjárlögum íslenska ríkisins og hefur sjálfur lýst því yfir að hann telji óeðlilegt að fjárframlög úr ríkissjóði eigi sér stað án heimildar frá hv. Alþingi. Og loks talaði ég við hæstv. iðnrh. sem hlýtur öðrum hæstv. ráðherrum fremur að þurfa að sjá til þess að staðið sé við það að greiðslan fari til viðkomandi fyrirtækja, jafnvel þótt það sé ekki lögbundið í sjálfu sér, því í lagagreininni sem um þetta fjallar segir að hluti gjaldsins skuli fara til iðnþróunar, ef ég man það orðalag rétt.
    Það hefur verið viðtekin venja í 10 ár að nota um helming gjaldsins til að greiða uppsafnaðan söluskatt. Ég tel þess vegna, hæstv. forseti, nauðsyn á því að flytja þessa till. til að hæstv. ríkisstjórn fái þessa heimild, ætli hún sér að nota 170 millj. til þessa verkefnis. Og enn fremur til að koma í veg fyrir að hæstv. ríkisstjórn innheimti gjald umfram það sem gert var ráð fyrir þegar fjárlög íslenska ríkisins voru sett fyrir síðustu jól.
    Ég vænti þess að lokum að hæstv. ráðherrar taki þátt í þessari umræðu og skýri sín sjónarmið. Ég tel það vera mjög alvarlegt ef þessar till. falla því þá fæ ég ekki annað séð en að hvorki sé hæstv. ríkisstjórn heimilt að greiða þessar 170 millj. né heldur að það sé heimilt að heimta inn þetta gjald án þess að breyta fjárlögum ríkisins, sem venja er að gera með fjáraukalögum. Sæmst væri auðvitað hæstv. ríkisstjórn að leggja til nú þegar að lögin um jöfnunargjald féllu úr gildi á miðju ári, eða hugsanlega mánuði síðar til þess að það skapaðist þá eitthvert svigrúm umfram það sem um getur í fjárlögum.