Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegur forseti. Fyrir skömmu fóru fram hér á Alþingi umræður um ákvörðun Áburðarverksmiðjunnar um verð á áburði og stöðu fyrirtækisins. Í framhaldi af þeim umræðum átti ég og aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni viðræður við hv. 1. þm. Suðurl., við hv. þm. Pálma Jónsson og einnig við hv. þm. Egil Jónsson. Niðurstaða þessara viðræðna var að ég flyt hér sérstaka brtt. um að ákveðið verði nú að leggja fram 30 millj. til Áburðarverksmiðju ríkisins, stofnkostnaður. Og síðan í sumar og haust verði málefni verksmiðjunnar skoðuð áfram. Ég mun eiga viðræður um það efni við fulltrúa verksmiðjunnar og m.a. stjórnarmenn eins og þann sem hér situr á Alþingi og er nú í salnum, hv. þm. Egil Jónsson. Við munum í sameiningu skoða þessi mál þegar lengra er liðið á árið og við höfum haft tækifæri til að meta ýmsar staðreyndir varðandi reksturinn, sölu á áburði og ýmislegt annað sem þá mun koma fram. Ég vil lýsa ánægju minni með það að þetta samkomulag hefur tekist og vona að þær viðræður sem við munum eiga hér í framhaldinu verði í þeim anda sem okkur tókst að ná þessu samkomulagi.
    Hv. þm. Friðrik Sophusson vék hér í nokkuð löngu máli að rökstuðningi fyrir þeirri till. sem hann flytur. Ég hef áður fjallað um þetta mál í umræðum í Sþ. þegar hann bar fram fyrirspurn til mín fyrr á þessu þingi og sé í sjálfu sér ekki á þessu stigi ástæðu til að bæta neinu við það sem ég sagði þá. Það má margt um jöfnunargjaldið segja, sögu þess og tilgang og hvernig eigi að taka á þeim breytingum sem verða frá söluskattskerfinu yfir í virðisaukaskattskerfið. Ég lýsti þeim meginviðhorfum mínum um það efni fyrr á þessu þingi.