Fjáraukalög 1990
Föstudaginn 04. maí 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Reykv. hefur í langri ræðu lýst forsögu jöfnunargjalds á innfluttar iðnaðarvörur og endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts í iðnaði. Ég get því stytt mál mitt, ekki síst af því að hann hefur tekið af mér ómakið og lýst tillögum sem ég hef gert á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Sannleikurinn er sá að nú liggur ljóst fyrir að talsvert fé vantar upp á að það sem veitt var á fjáraukalögum fyrir árið 1989 hrökkvi til til að standa straum af endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts vegna iðnaðarframleiðslu á árinu sem leið. Hér gæti verið um 170 millj. kr. að ræða, eins og kom fram hjá hv. þm. Nauðsynlegt er því að gera ráð fyrir fjárveitingu á fjáraukalögum þessa árs til að ljúka þessu máli. Hins vegar þarf að athuga þetta vandlega og slík athugun fer nú fram á vegum ríkisstjórnarinnar og í samtölum innan hennar. Ekki síst er rætt um það milli mín og fjmrh. að athugun fari fram á því hvernig best verði lokað þessu kerfi sem staðið hefur í fimmtán ár, þar af tíu ár óbreytt, og hefur að sjálfsögðu unnið sér nokkra hefð, hvernig því megi ljúka. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert skilmerkilega því auðvitað hefur þessi langa hefð skapað sér nokkra festu í rekstrarskilyrðum þessara iðngreina. Ég minni hins vegar á að eftir að uppsöfnun söluskatts í aðföngum iðnaðarins er hætt hefur rekstrarkostnaður margra þeirra lækkað í hlutfalli við tekjur. Þetta mál liggur ljóst fyrir og þörfin er alveg skýr. En hver fjárhæðin er nákvæmlega eða hvernig best er að ljúka málinu er nú athugunarefni.
    Þá kem ég að því að jöfnunargjaldið hefur verið látið standa nokkuð inn á þetta ár. Og eins og kom fram hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni felst í áætlun fjárlaga að það standi til miðs árs. Einnig þetta er hyggilegt að athuga nokkuð því hér erum við í raun og veru að ganga í gegnum umþóttunarskeið frá
hinu fyrra kerfi söluskatts yfir í virðisaukaskattskerfi. Ég bið hv. 1. þm. Reykv. að fara hægt í að draga ályktanir um skyldur okkar og skuldbindingar gagnvart okkar viðskiptaaðilum innan vébanda EFTA og Evrópubandalagsins. Þeirrar hliðar málsins verður að fullu gætt og það mál rekið á réttum rökum í ljósi þeirra breytinga sem nú eru þar að verða.
    Allt þetta gerir það að verkum að mér virðist eðlilegast að við ljúkum málinu nú þannig að þetta verði undirbúið til fjáraukalaga haustsins vegna ársins 1990. Ekki síst vegna þess að viðfangsefni þess fjáraukalagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu er við það bundið að ljúka forsendum og fyrirheitum vegna kjarasamninganna sem gerðir voru í byrjun þessa árs og er yfirleitt ekki opnað vegna annarra viðfangsefna. Þetta veit ég að hv. þm. skilur og þakka honum þann áhuga sem hann sýnir þessum mikilvægu málefnum iðnaðarins og skattanna í landinu. Ég er sannfærður um að við finnum leiðir til þess að leysa það verkefni sem ég veit að er okkur sameiginlegt áhugamál að verði leyst síðar á þessu ári.