Skólamáltíðir
Föstudaginn 04. maí 1990


     Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegi forseti. Nál. félmn. um till. til þál. um skólamáltíðir er svohljóðandi:
    ,,Tillagan gerir ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa og leggja fram lagafrv. sem tryggi að komið verði á máltíðum í hádegi í grunnskólum landsins haustið 1990.
    Nefndinni bárust umsagnir um tillöguna frá fræðslustjórum á Austurlandi, í Reykjavík, á Suðurlandi, Vesturlandi, Skólaskrifstofu Reykjavíkur, Samfok - Samtökum foreldra- og kennarafélaga í Reykjavík og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Fimm umsagnaraðilar taka undir efni tillögunnar og telja hana tímabæra, en tveir af umsagnaraðilum, stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Skólaskrifstofa Reykjavíkur vísa til þess að málið heyri nú undir sveitarfélögin eftir nýgerða breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Stjórn Samfoks segir m.a. í sinni umsögn: ,,Við erum sammála flutningsmönnum tillögunnar um að vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu sé þörf á því að börn geti fengið næringarríkan mat í skólum. Við leggjum eindregið til að tekið verði upp sambærilegt fyrirkomulag og nú er í Kópavogi, þ.e. að hið opinbera greiði sem samsvarar launum fyrir einn starfsmann (matmóður) á hvern skóla og 25% af hráefniskostnaði, auk stofnkostnaðar á hverjum stað sem þyrfti ekki að vera mikill miðað við reynsluna í Kópavogi. Við viljum leggja áherslu á að við
teljum heitar máltíðir ekki koma til greina.`` Lætur Samfok fylgja með álitsgerð frá dr. Öldu Möller matvælafræðingi frá liðnum vetri.
    Fræðslustjórinn á Austurlandi, sem telur tillöguna tímabæra, tekur þó fram að í hans umdæmi sé ,,að öllum líkindum ekki grundvöllur fyrir skólamáltíðir umfram það sem nú er. Í umdæminu eru 28 grunnskólar. Heimavistarskólar eru fimm og heimanakstursskólar (daglegur akstur) tólf. Allir nemendur í daglegum akstri fá hádegismáltíð í skóla sínum. Aðrir skólar, ellefu talsins, eru í þéttbýli. Fólk fer nánast undantekningarlaust heim í hádeginu og skólinn gefur þar með matarhlé á sama tíma. Því hefur engin ósk komið fram um skólamáltíðir í þessum skólum og margir telja slíkt ekki vera á dagskrá.``
    Félmn. telur ekki rétt að hlutast til um það með lögum að sveitarfélögin tryggi hádegismat í grunnskólum eins og tillagan gerir ráð fyrir. Hins vegar er hér um að ræða nauðsynjamál sem lengi hefur verið á dagskrá og er jafnbrýnt hvort sem ríki eða sveitarfélög standa að rekstri skóla. Því telur nefndin eðlilegt að ríkið eigi um það viðræður við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir þeirra hönd hvernig koma megi sem fyrst á skólamáltíðum þar sem þörf er fyrir hendi. Með vísan til þess leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir þetta rita nöfn sín allir fulltrúar í hv. félmn.